Leiðir til að draga úr losun í matvælaframleiðslu

Ýmsar leiðir eru færar til að draga úr losun frá matvælaframleiðslu. Meðal þessara leiða er samdráttur í notkun tilbúins áburðar og annarra aðfanga, orkuskipti, framleiðslustýring, bætt nýting búfjáráburðar og annarra lífrænna efna, fóðurstýring, beitarstýring og síðast en ekki síst með bættri landnotkun. Einnig er oft mögulegt að draga úr losun við framleiðslu og flutninga aðfanga.

Fyrirsjáanlegt er að  kolefnisspor matvæla fari lækkandi á næstu árum vegna aðgerða í loftslagsmálum. Hér má nefna orkuskipti, útfösun HFC-kælimiðla, framþróun í hönnun og nýtingu umbúða, breyttar aðferðir við meðhöndlun úrgangs og væntanlegt átak við endurheimt vistkerfa og bindingu koldíoxíðs úr andrúmslofti með landgræðslu og skógrækt.

Framleiðslustýring

Framleiðslustýring í þágu loftslagsmála snýst í raun um að halda sem mestri framleiðslu með sem minnstri nettólosun gróðurhúsalofttegunda. Framleiðslustýring getur m.a. falist í að draga úr tiltekinni framleiðslu, hámarka framleiðslu miðað við aðföng, að bæta frjósemi í dýrahaldi og að fækka búfé. Fækkun leiðir alla jafna til minni framleiðslu, en dregur jafnframt nær undantekningarlaust úr losun gróðurhúsalofttegunda, sérstaklega í greinum eins og sauðfjárrækt og nautgriparækt þar sem losun frá gripunum sjálfum á stærstan þátt í heildarkolefnissporinu. Í því sambandi myndi t.d. fækkun sauðfjár á mikið beittum svæðum skila mestum árangri, svo og fækkun á svæðum þar sem afurðir eftir hverja vetrarfóðraða kind eru minnstar. Reyndar eru þetta gjarnan sömu svæðin. Veiðistjórnun leiðir af sér bætt ástand fiskistofna en olíunotkun við fiskveiðar er m.a. háð ástandi stofna en einnig veiðarfærum, aflamagni, fjarlægð frá miðum, straumum og veðri.

Bætt nýting búfjáráburðar

Bæta má nýtingu búfjáráburðar og draga úr þörf fyrir tilbúinn áburð með vali á dreifingartíma og dreifingaraðferð. Slíkt krefst hins vegar úrbóta í tækni við nýtingu búfjáráburðar, upplýsinga um efnainnihald jarðvegs og búfjáráburðar og áætlanagerðar um dreifingu og næringarefnasamsetningu áburðar. Ein þeirra tæknilausna sem reynd hefur verið með góðum árangri hérlendis er niðurfelling, þar sem áburðinum er sprautað niður í svörðinn. Þessi aðferð stuðlar að betri nýtingu áburðarins og minna tapi næringarefna vegna afrennslis. Hægt er að minnka losun með breyttri og bættri geymslu og betri meðhöndlun búfjáráburðar. Meiri losun á sér stað í votgeymslum en í þurrgeymslum, sem þýðir að síðarnefndi valkosturinn er alla jafna betri frá loftslagssjónarmiði. Ein leið til að draga úr losun frá votgeymslum er að geyma áburðinn í loftþéttu rými með sem minnstu yfirborðsflatarmáli. Minni losun út í andrúmsloftið þýðir eðli málsins samkvæmt að meira er eftir af nýtilegum áburðarefnum í því sem á endanum er borið á og þar með er um leið dregið úr þörf fyrir tilbúinn áburð.

Með gasgerð búfjáráburðar (metangasvinnslu) væri hægt að koma nær alveg í veg fyrir losun metans vegna geymslu áburðarins, auk þess sem losun glaðlofts myndi minnka verulega. Gasgerðin myndi gefa af sér nýtanlegt metan sem gæti fræðilega séð komið í stað eldsneytis sem nýtt er í landbúnaði og þar með komið í veg fyrir losun sem ella hefði orðið við brennslu eldsneytisins. Auðvitað þyrfti þó að leysa ýmis tæknileg mál varðandi vélar áður en af því gæti orðið. Gasgerðin hefur það líka í för með sér að fasta efnið sem eftir stendur nýtist betur til áburðar en ómeðhöndlaður búfjáráburður, þannig að gasgerðin er líka til þess fallin að draga úr þörf fyrir tilbúinn áburð. Auk þess verður þetta efni einsleitara en ella og því auðveldara í blöndun, dælingu og dreifingu. Áburðurinn verður ekki eins ætandi fyrir plöntur fyrst eftir dreifingu og þessu til viðbótar dregur gasgerð úr lyktarmengun frá geymslu tilbúins áburðar og fækkar sjúkdómsvaldandi örverum og illgresisfræjum verulega. Loks gefur gasgerðin tækifæri á nýtingu annarra lífrænna leifa sem falla til á viðkomandi býli.

Minni notkun tilbúins áburðar

Í mörgum tilvikum væri tiltölulega auðvelt að draga úr notkun tilbúins áburðar, m.a. með því að nýta betur þau áburðarefni sem til falla. Í þessu sambandi þarf þó að hafa í huga að breytingin leiði ekki til verulegs samdráttar í framleiðslu, með þeim afleiðingum að framleiðsla dregst saman eða að taka þurfi stærra landsvæði til ræktunar til að halda sama framleiðslumagni. Í slíkum tilvikum gæti breytingin hugsanlega leitt til stærra kolefnisspors. Aðalatriðið í þessu sambandi er að áburðargjöf miðist alltaf við þarfir plantnanna og getu þeirra á hverjum tíma til að nýta áburðinn. Áburðargjöf umfram þarfir er slæmur kostur, bæði fyrir loftslagið og afkomu viðkomandi búrekstraraðila. Einnig er mögulegt að draga úr losun við framleiðslu á tilbúnum áburði, bæði með breyttum framleiðsluaðferðum (notkun græns vetnis) og með notkun mengunarvarnabúnaðar (t.d. til að draga úr losun glaðlofts við framleiðslu á saltpéturssýru).

Beitarstýring

Töluverð óvissa er enn í mati á losun gróðurhúsalofttegunda frá beitarlandi og að sama skapi ríkir töluverð óvissa um árangur beitarstýringar hvað þetta varðar. Betri upplýsingar fást væntanlega á næstu árum eftir því sem verkefninu Kortlagning gróðurauðlindarinnar vindur fram og þegar fyrir liggja niðurstöður úr átaksverkefni í tengslum við aðgerðaáætlun í loftslagsmálum sem snýr að bættu bókhaldi varðandi losun og bindingu vegna landnotkunar (aðgerð I6). Almennt er þó hægt að fullyrða að beit á landi í hnignun valdi hvað mestri losun.

Fóðurstýring

Hægt er að breyta fóðrun jórturdýra þannig að metanmyndun minnki. Fræðilega séð væri t.d. hægt að bæta þörungnum Asparogopsis taxiformis út í fóðrið, þ.e.a.s. á þeim tíma þegar dýrin eru á gjöf (á húsi eða í hólfum utandyra). Fæðubótarefni af þessu tagi geta haft talsverð áhrif á metanmyndun jórturdýra ef marka má fyrirliggjandi rannsóknir á rannsóknastofum. Hugsanlega gætu fleiri þörungategundir skilað álíka árangri, en rannsóknir skortir til að hægt sé að fullyrða um það. Öllum breytingum á fóðrun fylgir einhver áhætta, svo sem vegna óvissu um áhrif á dýrin og á bragð og gæði afurðarinnar. Hjá Landbúnaðarháskóla Íslands er unnið að frekari rannsóknum á þessu sviði.

Framleiðsla og notkun orkujurta

Ýmsir möguleikar kunna að liggja í framleiðslu og notkun orkujurta, þ.m.t. repju, og er ástæða til að kanna þessa möguleika nánar. Brennsla repjuolíu telst kolefnishlutlaus og aukin notkun hennar í matvælaframleiðslu myndi því draga úr losun vegna eldsneytisnotkunar, auk þess að bæta orkuöryggi. Telja verður þó á móti þá losun sem verður t.a.m. vegna notkunar áburðar og annarra aðfanga við framleiðslu olíunnar.

Orkuskipti

Olíunotkun er sá losunarþáttur sem langmestu máli skiptir við fiskveiðar og er notkunin m.a. háð ástandi fiskistofna, veiðistjórnun, orkunýtni skipa, veiðarfærum, aflamagni, samsetningu afla, fjarlægð frá miðum, straumum og veðri. Ýmsar leiðir eru til skoðunar til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda vegna fiskveiða, svo sem íblöndun lífræns eldsneytis og rafvæðingu hafna og minni báta.

Enda þótt orkunotkun vegi alla jafna ekki þungt í kolefnisspori landbúnaðar liggja þar tækifæri til að draga úr losun. Þessi tækifæri tengjast m.a. hugsanlegri gasgerð eða framleiðslu orkujurta á viðkomandi býli, en á næstu árum er einnig líklegt að tækifæri opnist til að skipta út dísilknúnum dráttarvélum og öðrum tækjum og taka rafknúin eða metanknúin tæki í notkun í þeirra stað. Þar við bætast svo tækifæri sem kunna að liggja í bættri orkunýtingu, þó að þar sé ekki beinlínis um orkuskipti að ræða. Losun vegna flutninga á hráefnum og afurðum mun minnka eftir því sem orkuskiptum vindur fram.

Plast og pappi

Plast er notað víða í matvælaframleiðslu, m.a. sem heyrúlluplast, yfirbreiðsluplast, veiðarfæri og í umbúðir. Pappi er einnig notaður í umbúðir. Hægt er að draga úr losun vegna umbúðanotkunar með því að breyta notkun og draga úr sóun. Þá er hugsanlega hægt að draga úr losun með því að auka hlut endurnýjanlegra aðfanga og bæta meðferð. Mikilvægt er að koma pappa og plasti sem nýtt er í matvælaframleiðslu í réttan farveg eftir notkun.

Bætt nýting hliðarafurða og affalla

Til að lágmarka kolefnisspor er mikilvægt að hámarka framleiðslu miðað við aðföng en einnig hefur fullnýting afurða sem og nýting hliðarafurða og affalla mikil áhrif. Frábær árangur hefur náðst í nýtingu hliðarafurða og affalla í sjávarútvegi og hafa t.d. ýmiss konar heilsu- og lækningavörur verið unnar úr fiskroði, auk þess sem leður úr fiskroði hefur verið nýtt í tískuvörur. Hægt er að nýta hliðarafurðir og afföll í garðyrkju í alls kyns framleiðslu, svo sem trefjaefni til íblöndunar í matvæli og kryddblöndur.

Úrgangur

Bætt meðhöndlun úrgangs sem fellur til í matvælaframleiðslu getur átt talsverðan þátt í að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í starfseminni, jafnvel þótt þessi liður vegi sjaldan mjög þungt í heildarkolefnissporinu. Í þessu sambandi er mikilvægast að koma í veg fyrir að lífrænn úrgangur endi í urðun, sem alla jafna er versti valkosturinn í úrgangsmálum m.t.t. loftslagsmála. Bætt nýting lífrænna efna dregur jafnframt úr áburðarþörf (þar sem það á við), auk þess sem bætt nýting auðlinda almennt er til þess fallin að lækka rekstrarkostnað og auka verðmæti. Flutningar úrgangs til meðhöndlunar á líka sinn þátt í losuninni og því skiptir máli að draga sem mest úr slíkum flutningum og bæta nýtingu flutningstækja.

Landnotkun

Á Íslandi er losun frá framræstu votlendi og frá öðru landbúnaðarlandi í hnignun mikil. Þessa losun þarf að stöðva, svo sem með endurheimt votlendis, með endurheimt náttúrulegra skóga (svo sem birkiskóga), með friðun illa farinna landsvæða og verndun og varðveislu lands þar sem binding kolefnis á sér stað eða getur átt sér stað. Þar sem losun frá landi er mjög mikil hérlendis liggja augljóslega mikil tækifæri í bættri landnotkun. Þetta á sérstaklega við um þær búgreinar sem ganga út á að nýta land. Þessi tækifæri snúast í reynd um að stækka kolefnisforðann í landi og gróðri, þ.e. með því að varðveita kolefnisríkan jarðveg og stuðla að því að forðinn stækki ár frá ári.

Ræktunaraðferðir skipta miklu máli fyrir viðhald og uppbyggingu kolefnisforðans. Þannig getur það eitt að draga úr plægingum eða minnka plægingardýpt haft mikið að segja. Sömuleiðis er aukin notkun lífræns áburðar í stað einhæfs steinefnaáburðar til þess fallin að viðhalda forðanum og sama má segja um aðferðir lífræns landbúnaðar. Þar er megináhersla lögð á að búa til og nýta næringarríkan áburð úr nánasta umhverfi, auk þess sem óheimilt er að nota tilbúinn áburð. Jafnframt er leitast við að velja og rækta upp tegundir sem eru sem minnst háðar áburði og geta jafnvel nýtt köfnunarefni úr andrúmsloftinu (t.d. smári og aðrar belgjurtir). Einnig er hægt að beita skiptiræktun til að nýta landið sem best án þess að ganga á kolefnisforðann.

Ræktun limgerða til að skapa skjól fyrir gróður á túnum og engjum er vel þekkt og árangursrík leið til að auka uppskerumagn af hverri flatareiningu, án þess að til komi aukin áburðargjöf. Þessari aðferð er m.a. beitt í ríkum mæli í lífrænum landbúnaði. Enn eitt ráð til að viðhalda kolefnisforðanum er að lágmarka það flatarmál lands sem er án gróðurþekju á hverjum tíma, þar sem við slíkar aðstæður er mikil hætta á jarðvegsrofi vegna foks. Gríðarlegt magn kolefnis tapast á hverju ári hérlendis vegna uppblásturs.

Landgræðsla getur lækkað kolefnisspor í matvælaframleiðslu verulega, annars vegar með því að stöðva losun frá landi í hnignun og hins vegar með því að byggja upp jarðveg og gróðurþekju sem hvort tveggja bindur kolefni. Mestum árangri á þessu sviði er hægt að ná á landi í hnignun, þar sem í raun er mögulegt að ná samtímis fram samdrætti í losun og aukinni bindingu. Árangurinn ræðst þó eðli málsins samkvæmt mjög af ástandi landsins og þeim aðferðum sem beitt er.

Skógrækt er vel þekkt leið til að binda kolefni. Árangurinn ræðst þó mjög af því hvernig staðið er að skógræktinni, bæði hvað varðar ástand viðkomandi lands í upphafi verkefnis og af vali á trjátegundum og ræktunaraðferðum. Eins skiptir máli hvernig bindingin er reiknuð, þ.e. hvort gert er ráð fyrir línulegum vexti frá fyrsta degi eða hvort reiknað er með að trén nái ekki fullum afköstum í bindingu fyrr en að einhverjum árum liðnum, eins og raunin er. Loks skiptir máli hvort bindingunni er dreift á fleiri eða færri ár, þ.e. hvenær trén hafa náð fullum vexti þar sem binding og losun vegast á. Í þessu sambandi er einnig nauðsynlegt að huga að hugsanlegum aukaverkunum, svo sem þeim áhrifum sem skógræktin kann að hafa á þann gróður og dýralíf sem fyrir er, bæði fyrir ofan og neðan jarðvegsyfirborðið.

Reykjavík 24. mars 2024, Birna Sigrún Hallsdóttir. Þessi grein er ein af þremur greinum sem innihalda fræðslu um loftslagsmál og matvælavinnslu. Verkefnið var unnið í samstarfi við Matland og styrkt af Loftslagssjóði.