Viðbrögð alþjóðasamfélagsins
Losun gróðurhúsalofttegunda af mannavöldum hefur loftslagsbreytingar í för með sér. Lofthjúpurinn og heimshöfin hafa hlýnað, jöklar hafa bráðnað og sjávarborð hefur hækkað. Þá hefur alls kyns öfgaatburðum fjölgað s.s. hitabylgjum, þurrkum, gróðureldum, flóðum, aftakaúrkomu og óveðursatburðum. Breytingarnar eru margslungnar og hafa m.a. áhrif á matvælaframleiðslu og búsetuskilyrði. Viðbrögð við breytingunum kalla á kostnaðarsamar mótvægisaðgerðir en aðgerðaleysi yrði þó enn dýrkeyptara til lengri tíma. Til að sporna við frekari neikvæðum afleiðingum verður að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Þar sem vandamálið er hnattrænt er nauðsynlegt að vinna að lausn þess á alþjóðavettvangi.
Rammasamningur Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar frá árinu 1992 hefur það markmið að koma í veg fyrir hættulega röskun á loftslagskerfinu þannig að hægt sé að tryggja matvælaframleiðslu og sjálfbæra efnahagsþróun. Mikilvægi samningsins liggur ekki síst í umgjörðinni sem hefur verið sköpuð um alþjóðasamstarf í loftslagsmálum. Á vettvangi samningsins var samið um Kyoto-bókunina og Parísarsamninginn. Evrópusambandið er leiðandi í hnattrænu samstarfi í loftslagsmálum og tók til að mynda frumkvæði við þróun viðskiptakerfis með losunarheimildir (ETS: Emission Trading System). Íslensk iðnfyrirtæki hafa tekið þátt í viðskiptakerfinu frá árinu 2013 og frá sama tíma hafa skuldbindingar Íslands í loftslagsmálum tekið mið af stefnu og aðgerðum ESB í loftslagsmálum. Hér á eftir verður fjallað nánar um loftslagssamninginn, Kyoto-bókunina, Parísarsamninginn og stefnu og markmið ESB í loftslagsmálum. Einnig verður fjallað stuttlega um reglur um losun í alþjóðaflugi og -siglingum.