Hvers vegna er samfélagslosun meiri á hvern íbúa hérlendis en í ríkjum ESB?

Höfundur: Birna Hallsdóttir

Árið 2021 var losun á hvern íbúa 12,5 tonn koldíoxíðsígilda hérlendis en 7,8 tonn innan ESB (hér er losun vegna landnotkunar ekki talin með). Þar af nam samfélagslosun, þ.e. sú losun sem fellur undir kerfi um skiptingu ábyrgðar (ESR), 7,5 tonnum á hvern íbúa hérlendis en 4,8 tonnum á hvern íbúa innan ESB. Losun vegna orkuframleiðslu og þungaiðnaðar, þ.e. losun frá staðbundinni starfsemi sem fellur undir viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir (ETS), nam 4,9 tonnum á hvern íbúa hérlendis en 2,9 tonnum á hvern íbúa í ESB.

Athygli vekur að samfélagslosun á hvern íbúa hérlendis er meiri en á hvern íbúa ESB þrátt fyrir hreinu íslensku orkuna. Hvernig ætli standi á því?

Fyrst er rétt að taka fram að stór hluti orkuframleiðslu innan ESB fellur undir viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir og er því ekki hluti af samfélagslosun. Losun jarðvarmavirkjana fellur hins vegar undir samfélagslosun. Þrátt fyrir þessa staðreynd er losun sem fellur undir ETS einnig meiri á hvern íbúa hérlendis en í ESB eins og kom fram hér að ofan.

Ef samfélagslosunin er greind nánar, má sjá að talsverður munur er á samsetningu losunar hér á landi annars vegar og í löndum ESB hins vegar. Eins og vænta má er losun fiskiskipaflotans hér mun meiri á hvern íbúa (1,54 tonn á íbúa) en hjá ríkjum ESB (0,01 tonn á íbúa), enda sjávarútvegur ein af meginstoðum atvinnulífsins hér á landi. Losun jarðvarmavirkjana er um 0,48 tonn á hvern íbúa hérlendis en nánast engin í ríkjum ESB. Losun vegna bygginga (húshitun og eldamennska) er eðli málsins samkvæmt mun meiri í ESB-ríkjum en hér á landi, enda nánast öll hús hérlendis kynt með endurnýjanlegri orku. Losun vegna bygginga er 0,02 tonn á hvern íbúa hérlendis en 1,02 tonn á hvern íbúa í ríkjum ESB.

Athyglisvert er að aðrir þættir, s.s. vegasamgöngur, landbúnaður, notkun flúorgasa (F-gös) og meðhöndlun úrgangs valda meiri losun hérlendis en í ríkjum ESB. Bílafloti Íslendinga er stór (bæði margir bílar á hvern íbúa og eyðslufrekir) og vegalengdir hér oft langar. Losun vegna vegasamgangna hérlendis er 2,31 tonn á hvern íbúa en 1,67 tonn á hvern íbúa ESB-ríkja. Losun vegna landbúnaðar er um 1,66 tonn á hvern íbúa hérlendis en 0,85 tonn á hvern íbúa í ríkjum ESB. Landbúnaður hérlendis er eðli málsins samkvæmt einhæfari en í ríkjum ESB, auk þess sem hann byggir meira á jórturdýrum (kúm og kindum) en að jafnaði í löndum ESB. Losun flúorgasa er um 0,42 tonn á hvern íbúa hérlendis en 0,16 tonn á hvern íbúa í ríkjum ESB. Þessa losun má að langmestu leyti rekja til notkunar HFC-kælimiðla. Stór hluti þessara kælimiðla er notaður um borð í skipum hérlendis og því má væntanlega að miklu leyti skýra þennan mun með stærð fiskiskipaflotans en auk þess hefur útfösun þessara efni verið hægari hér en í ESB. Losun vegna meðhöndlunar úrgangs er næstum þrefalt meiri á hvern íbúa hérlendis (0,72 tonn á íbúa) en í ríkjum ESB (0,24 tonn á íbúa). Þetta liggur einkum í því að hægar hefur gengið að draga úr urðun úrgangs hér á landi en í löndum Evrópu, auk þess sem gassöfnunarhlutfall á urðunarstöðum hérlendis er lægra. Hægt er að sjá samanburð á samfélagslosun Norðurlandanna á Mælaborði um losun gróðurhúsalofttegunda.

Samfélagslosun, þ.e. losun frá heimilum, þjónustu, samgöngum, fiskiskipum, landbúnaði, smáiðnaði og úrgangi, fellur undir kerfi um skiptingu ábyrgðar.