Losun gróðurhúsalofttegunda og losunarbókhald

Höfundur: Birna Hallsdóttir

Iðnbyltingin hófst upp úr miðri 18. öld þegar umskipti áttu sér stað í alls kyns framleiðslu, s.s. í textíliðnaði, efnaiðnaði og járn- og stáliðnaði. Þessi umskipti fólu í sér að farið var að nota vélar til fjöldaframleiðslu. Á sama tíma var farið að nota jarðeldsneyti (einkum kol og olíu) í miklu meira mæli en áður hafði verið. Frá lokum síðari heimstyrjaldar hafa öll umsvif mannsins aukist gríðarlega, fólksfjölgun hefur verið mikil, framleiðsla alls kyns varnings hefur stóraukist og brennsla jarðeldsneytis hefur margfaldast. Losun gróðurhúsalofttegunda hefur á sama tíma aukist gríðarlega á heimsvísu.

Loftslagssamningurinn, Kyoto-bókunin og Parísarsamningurinn kveða á um að aðildarríki skuli halda bókhald um losun gróðurhúsalofttegunda eða svokallað losunarbókhald. Megintilgangur bókhaldsins er að fylgjast með losun gróðurhúsalofttegunda út í andrúmsloftið en bókhaldið er ennfremur hryggjarstykkið við gerð aðgerðaáætlana til að draga úr losun. Einnig er bókhaldið nauðsynlegt til að fylgjast með árangri ríkja við að ná markmiðum sínum í loftslagsmálum. Bókhaldið þarf því að vera gegnsætt, ítarlegt, nákvæmt og samanburðarhæft milli aðildarríkja. Til þess að aðstoða ríkin við að uppfylla þessar kröfur hefur IPCC gefið út viðmiðunarreglur fyrir útreikninga á losun gróðurhúsalofttegunda. Skv. reglunum er metin heildarlosun og -upptaka lofttegunda sem taldar eru mikilvægar með tilliti til loftslagsbreytinga af mannavöldum. Bókhaldið nær yfir sjö gróðurhúsalofttegundir, þ.e. koldíoxíð (CO2), metan (CH4), glaðloft (N2O), vetnisflúorkolefni (HFC), perflúorkolefni (PFC), brennisteinshexaflúoríð (SF6) og köfnunarefnistríflúoríð (NF3). Losun þessara gróðurhúsalofttegunda er gefin upp í tonnum CO2-ígilda, að teknu tilliti til mismunandi hlýnunarmáttar lofttegundanna. Hlýnunarmáttur er tala sem tekur mið af mismunandi áhrifum gróðurhúsalofttegundanna á geislunarjafnvægi í lofthjúpnum og þar með áhrifum þeirra til hækkunar hitastigs á jörðinni. Metin er árleg losun (og binding) frá tilteknum uppsprettum innan hvers aðildarríkis. Umhverfisstofnun sér um landsbókhald Íslands, þ.e. losunarbókhald sem uppfyllir kröfur ofangreindra alþjóðlegra samninga í loftslagsmálum, og er því skilað árlega á skrifstofu loftslagssamningsins en upplýsingum er einnig skilað til ESB í samræmi við samkomulag Íslands og ESB um samstarf í loftslagsmálum. Þá gefur Hagstofa Íslands árlega út losunarreikninga í samræmi við reglugerð ESB nr. 691/2011 um evrópska umhverfisreikninga. Hér á eftir verður fjallað nánar um landsbókhald Íslands og greint frá helstu upplýsingum sem lesa má úr landsbókhaldinu. Þá verður fjallað stuttlega um losunarreikninga Hagstofunnar. Hafa verður í huga að allar skuldbindingar Íslands miða við landsbókhaldið sem Umhverfisstofnun heldur. Bókhald Hagstofunnar gefur hins vegar ýmsar mikilvægar viðbótarupplýsingar.

Ísbirna með húna.
Ísbirna með húna.

Landsbókhald Íslands

Í samræmi við skuldbindingar Íslands í loftslagsmálum skilar Umhverfisstofnun árlega upplýsingum um losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi til skrifstofu loftslagssamningsins. Þessi skil Íslands samanstanda annars vegar af fjölmörgum töflum sem skilað er á excel-formi og nefnast CRF (Common Reporting Format) og hins vegar af skriflegri skýrslu (landsskýrslu) – NIR (National Inventory Report) – þar sem aðferðafræði útreikninga og helstu niðurstöðum er lýst. Losuninni er skipt niður í flokka eftir uppsprettum. Flokkarnir eru svo sundurgreindir frekar í undirflokka eins og sjá má í töflunni hér fyrir neðan (hægt er að smella á töfluna til að stækka hana).

Nýjasta landsskýrsla Íslands er frá því í apríl 2023 og tekur til losunar Íslands á tímabilinu 1990-2021. Samkvæmt skýrslunni nam heildarlosun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi 4.662 kílótonnum af koldíoxíðsígildum (CO2íg) árið 2021 að frátalinni losun vegna LULUCF, alþjóðaflugs og alþjóðasiglinga. Þetta er um 3% aukning frá árinu 2020 en 27% aukning frá árinu 1990. Mest var losunin árið 2008 eða 5.308 kílótonn CO2íg. Stærstan hluta heildarlosunarinnar árið 2021 (án LULUCF, alþjóðaflugs og alþjóðasiglinga) má rekja til efnanotkunar og efnaferla í iðnaði, eða 43%. Næststærsta hluta losunar má rekja til orku (brennslu eldsneytis og jarðvarmavirkjana), eða 38%. Rekja má 13% losunarinnar til landbúnaðar og 6% til losunar vegna meðhöndlunar úrgangs.

Langstærstur hluti losunar frá efnaferlum í iðnaði á Íslandi liggur í framleiðsluferlum álvera og kísil-/kísiljárnvera, en þar er kolefni notað til að fjarlægja súrefnisfrumeindir úr hráefninu og framleiða málma. Annars vegar eru kol, koks og viðarkurl notuð í kísilverum og járnblendiverksmiðjum til að afoxa kvars (SiO2) og hins vegar eru kolefnisrík rafskaut notuð í álverum til að afoxa súrál (Al2O3). Langstærstur hluti losunar frá orku stafar af brennslu jarðeldsneytis (bensíns og dísils) í samgöngum og fiskveiðum. Losun frá landbúnaði stafar að mestu af vindgangi jórturdýra (metanmyndun í meltingarvegi) en má einnig rekja til geymslu og meðhöndlunar húsdýraáburðar og áburðarnotkunar. Þá losna gróðurhúsalofttegundir þegar úrgangur er meðhöndlaður með urðun, brennslu eða jarðgerð, svo og vegna niðurbrots lífrænna efna í fráveituvatni.

Ítarefni

Losunarreikningar Hagstofunnar

Hagstofan gefur út losunarreikninga (e. Air Emissions Accounts), þ.e. reikninga vegna losunar loftmengunarefna frá íslenska hagkerfinu, í samræmi við reglugerð ESB nr. 691/2011 um evrópska umhverfisreikninga. Losunarreikningar ná yfir losun frá starfsemi og athöfnum íslenskra fyrirtækja og einstaklinga óháð staðsetningu í heiminum en undanskilur hins vegar losun erlendra aðila hérlendis. Þetta er ólíkt landsbókhaldinu sem nær eingöngu til losunar á Íslandi (sjá mynd). Losunarreikningar gróðurhúsalofttegunda ná yfir sömu sjö gróðurhúsalofttegundir og landsbókhaldið, þ.e. koldíoxíðs (CO2), metans (CH4), glaðlofts (N2O), vetnisflúorkolefna (HFC), perflúorkolefna (PFC), brennisteinshexaflúoríðs (SF6) og köfnunarefnistríflúoríðs (NF3). Losun framangreindra sjö gróðurhúsalofttegunda er gefin upp í tonnum CO2-ígilda, að teknu tilliti til mismunandi hlýnunarmáttar lofttegundanna. Losuninni er skipt niður eftir efnahagsstarfsemi (í 15 flokka) í samræmi við þjóðhagsreikninga. Losunarreikningarnir eru sniðnir að atvinnugreinaflokkum og vergri þjóðarframleiðslu hvers lands og henta því vel til frekari umhverfis- og efnahagslegra greininga.

Ólík kerfismörk landsbókhaldsins og losunarreikninganna.