Lykilstaðreyndir varðandi kerfi um skiptingu ábyrgðar og landnotkunarkerfið

Höfundur: Birna Hallsdóttir

Kerfi um skiptingu ábyrgðar (Effort Sharing) tekur til samfélagslosunar, þ.e.a.s. til annarrar losunar en þeirrar sem fellur undir viðskiptakerfið (s.s. frá heimilum, þjónustu, samgöngum, landbúnaði, sjávarútvegi, smáiðnaði og úrgangi - þ.e. það sem kalla má samfélagslosun). Markmið ESB er að draga úr þessari losun um 10% fyrir árið 2020 og 30% til 2030 miðað við árið 2005. Ríkjum er úthlutaður ákveðinn fjöldi AEA-heimilda sem minnkar línulega á hvoru tímabili og er úthlutunin fyrir hvert ríki ákveðin út frá hagvexti á íbúa og tækifærum og kostnaði við að draga úr losun í viðkomandi landi.

Nokkrar staðreyndir um kerfið:

  • Þátttakendur eru Evrópusambandsríkin 27 , Ísland og Noregur.
  • Kerfið nær til um 55% af losun gróðurhúsalofttegunda innan Evrópu.
  • Kerfið er kvótakerfi sem felur í sér úthlutun ákveðins fjölda heimilda sem nefnast AEA-heimildir til einstakra ríkja út frá tilteknum reiknireglum sem taka tillit til hagvaxtar í viðkomandi ríki og möguleikum þess til að grípa til kostnaðarhagkvæmra aðgerða til að draga úr losun. Fjöldi AEA-heimilda minnkar línulega á tímabilinu.
  • Sjö gróðurhúsalofttegundir heyra undir kerfið: koldíoxíð (CO2), metan (CH4), glaðloft (N2O), vetnisflúorkolefni (HFC), perflúorkolefni (PFC), brennisteinshexaflúoríð (SF6) og köfnunarefnistríflúoríð (NF3).
  • Ríkjum nægir ekki að standa við losunarmörkin árið 2030, heldur er þeim skylt að ná tilgreindu takmarki (sem samsvarar fjölda AEA-heimilda viðkomandi árs) á hverju ári tímabilsins 2021-2030. Þau hafa þó tiltekinn sveigjanleika til að ná markmiðum sínum:
    • Í fyrsta lagi má flytja tiltekinn fjölda AEA-heimilda milli ára. Á tímabilinu 2021-2025 má á hverju ári flytja 10% af AEA-heimildum næsta árs yfir á viðkomandi ár (þ.e. nýta heimildirnar fyrirfram) en á tímabilinu 2026-2030 minnkar þetta hlutfall niður í 5%. Eins má flytja ónýttar AEA-heimildir yfir á næsta ár.
    • Í öðru lagi er ríkjum heimilt að eiga viðskipti með AEA-heimildir. Á árunum 2021-2025 mega ríki framselja allt að 5% af AEA-heimildum sínum til annarra ríkja, en allt að 10% á árunum 2026-2030. Ríki sem losa minna magn gróðurhúsalofttegunda en fjöldi AEA-heimilda þeirra segir til um mega framselja ónotaðar AEA-heimildir til annarra ríkja.
    • Nokkrum ríkjum (11 af 29) er heimilt að nýta uppboðsheimildir (EUA-heimildir) til að uppfylla skuldbindingar sínar í kerfinu. Tilgangurinn er að auðvelda ríkjum með ströng losunarmörk og takmarkaða möguleika á hagkvæmum aðgerðum til að draga úr losun að standast skuldbindingar sínar. Fjöldi EUA-heimilda sem nýta má í þessum tilgangi takmarkast annað hvort við 2% eða 4% af samfélagslosun viðkomandi ríkis árið 2005.
    • Ríki mega bókfæra vissa kolefnisbindingu á móti eigin losun upp að tilteknu marki að því gefnu að samanlögð kolefnisbinding vegna landnotkunaraðgerða í viðkomandi ríki sé jöfn eða meiri en samanlögð losun frá þessum sömu landnotkunaraðgerðum. Þetta er kallað núlllosunarreglan (sjá nánar í umfjöllun um landnotkunarkerfið). Sé losun meiri en binding þurfa ríki að nýta AEA-heimildir til að uppfylla núlllosunarregluna.
Sveigjanleiki innan kerfisins um skiptingu ábyrgðar.

Landnotkunarkerfið er kerfi sem nær yfir losun og bindingu sem rekja má til landnotkunar. Meginmarkmið kerfisins er að tryggja að öll framtalin losun gróðurhúsalofttegunda vegna landnotkunar í ESB-ríkjunum verði kolefnisjöfnuð. Aðildarríkin þurfa að standast svokallaða núlllosunarreglu sem felur í sér að jafna þarf út með bindingu alla losun sem stafar af tiltekinni landnotkun. Ef t.d. skógur er ruddur til að nýta landið á annan hátt (t.d. fyrir byggð, vegagerð eða landbúnað) þarf að jafna losunina sem af skógareyðingunni hlýst með nýskógrækt eða með því að bæta umhirðu t.d. ræktarlands eða graslendis. Bókhaldsreglur fyrir losun og bindingu eru staðlaðar, þannig að tryggt sé að mat á því hvort ríki uppfylli núlllosunarregluna sé sambærilegt fyrir alla aðila. Ef losun vegna landnotkunar er meiri en binding þurfa viðkomandi ríki að kaupa bindingarávinning frá öðru ríki eða skila inn AEA-heimildum sem samsvarar mismuninum og ná þá enn meiri árangri í samdrætti í samfélagslosun. Landnotkunarkerfið tengist því kerfinu um skiptingu ábyrgðar. Ef losunin er hins vegar minni en bindingin geta ríki bókfært umframbindinguna í kerfinu um skiptingu ábyrgðar upp að tilteknu marki, sem er mismunandi fyrir hvert aðildarríki. Magnið sem ríkin mega bókfæra á þennan hátt tekur mið af því hversu hátt hlutfall losunar viðkomandi ríkis má rekja til losunar frá landbúnaði, þar sem möguleikar á að draga úr slíkri losun eru takmarkaðir. Írland mun geta talið fram kolefnisbindingu sem samsvarar 5,7% af samfélagslosun landsins árið 2005. Önnur ríki mega bókfæra hlutfallslega mun minni bindingu á þennan hátt og fyrir flest þeirra er hlutfallið á bilinu 0,5-1,5%.

Losun og binding gróðurhúsalofttegunda vegna landnotkunar fellur undir landnotkunarkerfið.