Losunarbókhald og skuldbindingar

Höfundur: Birna Hallsdóttir

Hinir mismunandi losunarflokkar í landsbókhaldi Íslands tilheyra mismunandi kerfum til að draga úr losun í samræmi við skuldbindingar Íslands í loftslagsmálum til 2030. Á myndinni hér fyrir neðan má sjá hvernig losunin skiptist niður í aðal- og undirflokka og hvaða kerfum til að draga úr losun viðkomandi losunarflokkur tilheyrir. Miðað er við losun ársins 2019, þar sem heimsfaraldur hafði talsverð áhrif á losun ársins 2020. Á myndinni skiptist losunin niður á tvö kerfi til að draga úr losun, þ.e. kerfi um skiptingu ábyrgðar (merkt ESR á myndinni) og viðskiptakerfi með losunarheimildir (merkt ETS á myndinni). Undir ETS-kerfið fellur líka losun sem stafar af brennslu eldsneytis sem íslenskir flugrekstraraðilar, sem falla undir ETS-kerfið, kaupa í öðrum löndum og nota í flugi innan Evrópu. Þessi losun er ekki sýnd á myndinni hér fyrir neðan þar sem upplýsingar um hana koma ekki fram í landsbókhaldinu. Sumir losunarflokkar falla ekki undir neinar skuldbindingar enn sem komið er (merkt Engar á myndinni) - hér er einkum um að ræða losun frá millilandasiglingum og því millilandaflugi sem ekki fellur undir ETS. Losun vegna landnotkunar, breyttrar landnotkunar og skógræktar (LULUCF) fellur undir landnotkunarkerfið en sú losun er ekki sýnd á þessari mynd.