Íslenska ákvæðið

Höfundur: Birna Hallsdóttir

Íslenska ákvæðið, nánar tiltekið Ákvörðun 14/cp.7 um áhrif einstakra verkefna á losun á skuldbindingatímabilinu, var samþykkt á 7. aðildarríkjaþingi loftslagssamningsins árið 2001. Ísland fullgilti ekki Kyoto-bókunina fyrr en íslenska ákvæðið hafði verið samþykkt. Ákvörðunin náði eingöngu til ríkja með mjög litla losun á heimsvísu, þ.e. minna en 0,05% af samanlagðri heildarlosun koldíoxíðs iðnríkja árið 1990 og heimilaði ríkjum að undanskilja tiltekna losun koldíoxíðs þannig að hún væri ekki meðtalin í heildarlosun í uppgjöri fyrra skuldbindingatímabils Kyoto-bókunarinnar að uppfylltum tilteknum skilyrðum:

  • Að um væri að ræða koldíoxíð sem myndaðist vegna efnaferla í iðnaði að því tilskildu að um hafi verið að ræða nýtt iðjuver eða stækkun starfandi iðjuvers. Nýja starfsemin og/eða stækkaði hluti starfandi iðjuvers urðu að hafa verið gangsett síðar en 31.12.1990. Orðalagið útilokaði að aðrar gróðurhúsalofttegundir en koldíoxíð, sem og að losun sem átti sér stað t.d. vegna eldsneytisbrennslu í iðnaði, gæti fallið undir ákvæðið. Viðkomandi iðjuver þurftu ennfremur að nota endurnýjanlega orku við framleiðslu sína, og bestu fáanlegu tækni og bestu umhverfisvenjur  til að halda losun frá starfseminni í lágmarki.
  • Til að gangsetning nýs eða stækkaðs iðjuvers gæti fallið undir ákvæðið þurfti viðbætt losun vegna verkefnisins að jafngilda a.m.k. 5% af heildarlosun koldíoxíðs í viðkomandi ríki árið 1990.
  • Eingöngu mátti undanskilja losun koldíoxíðs sem uppfyllti ofangreind skilyrði að því marki sem heildarlosun væri meiri en sem samsvaraði AAU-heimildum viðkomandi ríkis.
  • Hámarksmagn koldíoxíðs sem leyfilegt var að undanskilja var samanlagt 8 milljónir tonna á tímabilinu 2008-2012.   

Norðurljós.