Samstarf Evrópuríkja í Kyoto-bókuninni

Höfundur: Birna Hallsdóttir

Sem fyrr segir hófst samstarf Evrópuríkja í loftslagsmálum þegar þau ákváðu að efna skuldbindingar sínar í Kyoto-bókuninni sameiginlega og bar þeim að ná 8% samdrætti í losun á fyrra skuldbindingatímabilinu miðað við 1990. Á þeim tíma voru sambandsríkin 15 og gerðu þau með sér samning um að kröfunni um 8% samdrátt yrði dreift innbyrðis milli ríkjanna í samræmi við ólíkar aðstæður þeirra. Skv. samningnum breyttust skuldbindingar ríkjanna og máttu t.a.m. sum ríki auka losun (t.d. mátti Portúgal auka losun um 28%) á meðan öðrum ríkjum bar að draga úr losun langt umfram 8% (t.d. Danmörk og Þýskaland um 21% og Lúxemborg um 27%). Á síðara skuldbindingatímabili Kyoto-bókunarinnar voru ESB-ríkin orðin 28 og viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir hafði verið komið á fót. ESB-ríkin efndu skuldbindingar sínar aftur sameiginlega og bar að draga úr losun um 20% til ársins 2020 miðað við árið 1990. Til að ná markmiðum sínum á síðara skuldbindingatímabili Kyoto-bókunarinnar frá 2013-2020 kom ESB tvískiptu kerfi á laggirnar og var losun skipt upp í tvo meginflokka – annars vegar losun frá flugi og staðbundinni starfsemi sem fellur undir viðskiptakerfi með losunarheimildir og hins vegar samfélagslosun sem fellur undir kerfi um skiptingu ábyrgðar.

Viðskiptakerfið tekur til losunar frá staðbundinni starfsemi í orkuframleiðslu og þungaiðnaði (s.s. olíuhreinsistöðvum, framleiðslu málma, sements, o.fl.) og nær til um 40% losunar á Evrópska efnahagssvæðinu. Markmið ESB var að draga úr losun innan kerfisins um 21% fyrir árið 2020 miðað við árið 2005. Fyrirtæki innan kerfisins þurfa að verða sér úti um EUA-losunarheimildir í samræmi við losun sína. Viðskiptakerfið tekur einnig til flugs innan Evrópu þar sem markmiðið var að draga úr losun frá flugi um 5% til 2020 miðað við meðaltalslosun frá flugi á tímabilinu 2004-2006.

Kerfi um skiptingu ábyrgðar (Effort Sharing) tekur til samfélagslosunar, þ.e.a.s. til annarrar losunar en þeirrar sem fellur undir viðskiptakerfið (þ.e. losunar frá heimilum, þjónustu, samgöngum, landbúnaði, sjávarútvegi, smáiðnaði og úrgangi). Markmið ESB var að draga úr þessari losun um 10% fyrir árið 2020 miðað við árið 2005. Ríkjum var úthlutað ákveðnum fjölda AEA-heimilda sem minnkaði línulega á tímabilinu og var úthlutunin fyrir hvert ESB-ríki ákveðin út frá hagvexti á íbúa og tækifærum og kostnaði við að draga úr losun í viðkomandi landi. Því var misjafnt milli ríkja hversu mikið þau skyldu draga úr losun.