Samanburður við önnur lönd

Höfundur: Birna Hallsdóttir

Eins og sjá má á myndinni Þróun losunar frá 1990 til 2019 hafa löndin í kringum okkur dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda frá árinu 1990. Hér á landi hefur losun hins vegar aukist. Auk þess er losun á hvern íbúa hérlendis meiri en í nágrannalöndunum, en Ísland er með 7. hæstu losun af OECD-löndunum 37 og reyndar þá hæstu ef losun vegna landnotkunar (LULUCF) er meðtalin.

Eins og sjá má á myndinni Losun á hvern íbúa á Íslandi og ESB árið 2019 er losun á hvern íbúa mikil miðað við losun á hvern íbúa innan ESB. Árið 2019 var losun á hvern íbúa án LULUCF 13,1 tonn hérlendis en 9,1 innan ESB. Þar af nam samfélagslosun, þ.e. sú losun sem fellur undir kerfi um skiptingu ábyrgðar (ESR), 8,1 tonni á hvern íbúa hérlendis en 5,7 tonnum á hvern íbúa innan ESB og losun vegna þungaiðnaðar, þ.e. sú losun sem fellur undir viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir (ETS), nam 5 tonnum á hvern íbúa hérlendis en 3,4 tonnum á hvern íbúa í ESB.

Mestu munar um losun vegna landnotkunar. Hérlendis nemur losun vegna landnotkunar 25,1 tonni á hvern íbúa. Í ESB á sér hins vegar stað nettóbinding vegna landnotkunar, þ.e. binding kolefnis í gróðri er meiri en sem nemur losun frá landi. Heildarlosun með LULUCF er um 38,2 tonn á hvern íbúa hérlendis en 8,5 tonn á hvern íbúa í ESB.

Eins og komið hefur fram er losun frá alþjóðaflugi og millilandasiglingum (millilandaflutningum) að mestu leyti undanskilin í skuldbindingum ríkja, þar sem litið er svo á að losunin tilheyri frekar alþjóðlegum atvinnugreinum en einstökum ríkjum. Undantekningin er flug innan Evrópu en það fellur undir viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir. Skv. bókhaldsreglum loftslagssamningsins ber ríkjum að telja fram heildarlosun vegna alþjóðaflugs og millilandasiglinga, metið út frá eldsneytissölu í hverju ríki til þessara starfsgreina. Hins vegar er losunin ekki talin með í heildarlosun ríkja. Tölurnar sem fram koma á myndinni hér fyrir neðan eru því eingöngu settar fram til að varpa ljósi á losun þessara geira. Ísland er eyja langt norður í Atlantshafi og er því verulega háð bæði flugi og siglingum. Það þarf því ekki að koma á óvart að losun vegna millilandaflutninga, metið út frá eldsneytissölu, er hærri á hvern íbúa hérlendis en í ESB, eða um 3,2 tonn borið saman við 0,7 tonn á hvern íbúa í ESB.