Samanburður við önnur lönd

Höfundur: Birna Hallsdóttir

Eins og sjá má á myndinni Þróun losunar frá 1990 til 2020 hafa löndin í kringum okkur (að Írlandi undanskildu) dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda frá árinu 1990. Hér á landi hefur losun hins vegar aukist. Sjá má á myndinni að losun dróst talsvert saman milli áranna 2019 og 2020 í öllum löndunum en þann samdrátt má að stærstum hluta rekja til áhrifa heimsfaraldurs af völdum covid19 árið 2020. Losun hérlendis hefur ekki bara aukist meira en í löndunum í kringum okkur frá 1990 heldur er losun á hvern íbúa hérlendis einnig meiri en í nágrannalöndunum. Ísland er með 7. hæstu losun af OECD-löndunum 37 og reyndar þá hæstu ef losun vegna landnotkunar (LULUCF) er meðtalin.

Eins og sjá má á myndinni Losun á hvern íbúa á Íslandi og í ESB árin 2019 og 2020 er losun á hvern íbúa hérlendis mikil miðað við losun á hvern íbúa innan ESB. Árið 2019 var losun á hvern íbúa án LULUCF 13,1 tonn hérlendis en 9,1 tonn innan ESB. Þar af nam samfélagslosun, þ.e. sú losun sem fellur undir kerfi um skiptingu ábyrgðar (ESR), 8,1 tonni á hvern íbúa hérlendis en 5,7 tonnum á hvern íbúa innan ESB og losun vegna þungaiðnaðar, þ.e. sú losun sem fellur undir viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir (ETS), nam 5 tonnum á hvern íbúa hérlendis en 3,4 tonnum á hvern íbúa í ESB.

Mestu munar um losun vegna landnotkunar. Hérlendis nam losun vegna landnotkunar 25,0 tonnum á hvern íbúa árið 2019. Í ESB skila aðgerðir á sviði landnotkunar hins vegar stað nettóbindingu, þ.e. binding kolefnis í gróðri og jarðvegi er meiri en sem nemur losun frá landi. Heildarlosun með LULUCF var um 38,1 tonn á hvern íbúa hérlendis árið 2019 en 8,5 tonn á hvern íbúa í ESB.

Eins og komið hefur fram er losun frá millilandaflutningum, bæði alþjóðaflugi og millilandasiglingum, að mestu leyti undanskilin í skuldbindingum ríkja, þar sem litið er svo á að losunin tilheyri frekar alþjóðlegum atvinnugreinum en einstökum ríkjum. Samkvæmt bókhaldsreglum loftslagssamningsins ber ríkjum að telja fram heildarlosun vegna alþjóðaflugs og millilandasiglinga, metið út frá eldsneytissölu í hverju ríki til þessara starfsgreina. Losunin er hins vegar ekki talin með í heildarlosun ríkja. Tölurnar sem fram koma á myndinni hér fyrir neðan eru því eingöngu settar fram til að varpa ljósi á losun þessara geira. Ísland er eyja langt norður í Atlantshafi og er því verulega háð bæði flugi og siglingum. Það þarf því ekki að koma á óvart að losun vegna millilandaflutninga, metið út frá eldsneytissölu, er hærri á hvern íbúa hérlendis en í ESB, eða um 3,2 tonn árið 2019 borið saman við 0,7 tonn á hvern íbúa í ESB.

Samanburðurinn fyrir árið 2020 sýnir aðeins aðra mynd þar sem áhrif heimsfaraldurs af völdum covid19 sem geisaði það ár hafði mismikil áhrif á mismunandi geira. Þannig hafði faraldurinn t.d. mun meiri áhrif á losun vegna millilandaflutninga til og frá Íslandi en til og frá ESB. Losun vegna millilandaflutninga til og frá Íslandi dróst saman um 71% milli áranna 2019 og 2020 en um 37% í ESB. Árið 2020 var losun á hvern íbúa án LULUCF 12,3 tonn hérlendis en 8,3 tonn innan ESB. Þar af nam samfélagslosun, þ.e. sú losun sem fellur undir kerfi um skiptingu ábyrgðar (ESR), 7,4 tonnum á hvern íbúa hérlendis en 5,2 tonnum á hvern íbúa innan ESB. Þá nam losun vegna þungaiðnaðar, þ.e. sú losun sem fellur undir viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir (ETS), 4,9 tonnum á hvern íbúa hérlendis en 3 tonnum á hvern íbúa í ESB. Eins og árið 2019 munar mestu um losun vegna landnotkunar. Hérlendis nam losun vegna landnotkunar 24,6 tonnum á hvern íbúa árið 2020 en innan ESB skiluðu aðgerðir á sviði landnotkunar sem fyrr heildarbindingu. Heildarlosun með LULUCF var um 38,2 tonn á hvern íbúa hérlendis en 8,5 tonn á hvern íbúa í ESB árið 2020.

Ítarefni