Kyoto-bókunin: Uppgjör og sveigjanleiki
Hvert ríki sem gengst undir magntakmarkanir á losun gróðurhúsalofttegunda fær úthlutað kvóta í formi losunarheimilda, svokallaðra AAU-eininga, sem lagðar eru inn á reikning viðkomandi ríkis í alþjóðlegu skráningarkerfi. Fjöldi AAU-eininga, sem hverju iðnríki er úthlutað, samsvarar því magni gróðurhúsalofttegunda sem ríkinu er heimilt að losa á viðkomandi skuldbindingatímabili. Kyoto-bókunin veitir ríkjum ákveðinn sveigjanleika við að uppfylla skuldbindingar sínar, þ.e.a.s. aðrar leiðir til að uppfylla skuldbindingarnar en að draga beint úr losun gróðurhúsalofttegunda. Þannig má nýta tilteknar aðgerðir á sviði landnotkunar til að binda kolefni úr andrúmsloftinu, eiga í viðskiptum með losunarheimildir við aðrar þjóðir og fjármagna verkefnatengdar mótvægisaðgerðir í öðrum löndum.
Á fyrra skuldbindingatímabili Kyoto-bókunarinnar bar öllum ríkjum að telja fram losun og bindingu vegna skógræktar og skógareyðingar en máttu velja um að telja fram losun og bindingu vegna:
- landgræðslu,
- umhirðu skóga,
- umhirðu ræktarlands og
- umhirðu beitarlands.
Á síðara skuldbindingatímabilinu var öllum ríkjum skylt að telja fram losun og bindingu vegna skógarumhirðu sem og vegna skógræktar og skógareyðingar en máttu velja um að telja fram losun og bindingu vegna:
- landgræðslu,
- endurheimtar votlendis,
- umhirðu ræktarlands og
- umhirðu beitarlands.
Sérstakar Kyoto-einingar eru gefnar út vegna kolefnisbindingar (RMU-einingar) og vegna verkefnatengdra mótvægisaðgerða (ERU-einingar, CER-einingar) og er sem fyrr segir heimilt að nýta þær til að uppfylla skuldbindingar skv. bókuninni. Hver Kyoto-eining jafngildir heimild til losunar á einu tonni af þeim gróðurhúsalofttegundum sem bókunin tekur til, mælt í koldíoxíðsígildum. Ef ríki hafa bundið kolefni með landnotkunaraðgerðum og/eða tekið þátt í verkefnatengdum mótvægisaðgerðum eru gefnar út RMU-, ERU- og CER-einingar sem bætast við AAU-einingar á innistæðureikningi viðkomandi ríkis í skráningarkerfinu. Samanlagður fjöldi Kyoto-eininga (AAU, RMU, ERU og CER) þarf að vera a.m.k. jafn heildarlosun viðkomandi ríkis á viðkomandi skuldbindingatímabili.