Hugtök og orðskýringar

Höfundur: Birna Hallsdóttir

Gróðurhúsaáhrif, gróðurhúsalofttegundir og hlýnunarmáttur

Gróðurhúsaáhrif (Greenhouse effect): Lofthjúp jarðar má líkja við gler í gróðurhúsi. Hann hleypir greiðlega í gegnum sig útfjólublárri og sýnilegri sólargeislun (stuttbylgjugeislun) en heldur inni hluta varmageislunarinnar (langbylgjugeislun) sem berst frá yfirborði jarðar. Þannig dregur lofthjúpurinn úr varmatapi frá jörðinni. Þessi áhrif lofthjúpsins á hitastig og loftslag á jörðinni eru nefnd gróðurhúsaáhrif og eru náttúrulegt fyrirbæri, en án þeirra væri meðalhitastig á jörðinni í kringum -18°C í stað +15°C eins og það er nú. Gróðurhúsaáhrifin eru þannig forsenda fyrir lífi á jörðinni eins og við þekkjum það.

Gróðurhúsalofttegundir (Greenhouse gases): Gróðurhúsalofttegundir eru lofttegundir sem er að finna í mjög litlu magni í andrúmslofti jarðar. Þær gleypa varmageislun og hafa þar með áhrif á geislunarjafnvægi jarðarinnar – þær valda sem sagt gróðurhúsaáhrifum, eða eru glerið í gróðurhúsinu svo notuð sé sama samlíking og fyrr. Gróðurhúsaáhrifin eru náttúrulegt fyrirbæri og gera það að verkum að hitastig jarðar er lífvænlegt. Aukinn styrkur gróðurhúsalofttegunda í andrúmslofti veldur hins vegar auknum gróðurhúsaáhrifum og loftslagsbreytingum auk þess sem koldíoxíð, áhrifamesta gróðurhúsalofttegundin, veldur einnig súrnun sjávar. Þær gróðurhúsalofttegundir sem losunarbókhald ríkja nær yfir eru: koldíoxíð (CO2), metan (CH4), glaðloft (N2O), vetnisflúorkolefni (HFC), perflúorkolefni (PFC), brennisteinshexaflúoríð (SF6) og köfnunarefnistríflúoríð (NF3).

Súrnun sjávar (Ocean acidification): Styrkur koldíoxíðs í andrúmslofti hefur aukist stöðugt frá upphafi iðnbyltingar. Styrkaukninguna má einkum rekja til losunar koldíoxíðs vegna brennslu jarðeldsneytis og vegna breyttrar landnotkunar. Höfin hafa tekið upp um fjórðung allrar losunar koldíoxíðs af mannavöldum frá iðnbyltingu. Þegar koldíoxíð leysist upp í sjónum eykst styrkur vetnisjóna  (sýrustig (pH) lækkar) en á sama tíma lækkar einnig styrkur karbónatjóna sem þýðir að kalkmettun í sjónum minnkar. Karbónatjónir eru mikilvægt byggingarefni í skeljar kalkmyndandi lífvera. Súrnun sjávar hefur tvenns konar áhrif á lífríki sjávar. Annars vegar er um að ræða bein áhrif af hærri styrk vetnisjóna, en rannsóknir benda til þess að ef sýrustig verður of lágt geti heilastarfsemi og lyktarskyn sumra fiska truflast og þar með hæfileiki þeirra til að forðast rándýr. Hins vegar er um að ræða áhrif á kalkmyndandi lífverur sem eiga erfiðara með að mynda og viðhalda skeljunum þegar kalkmettun lækkar. Kalkmyndandi plöntur og dýr eru oft grunnur fæðukeðjunnar og því mikilvægur þáttur í vistkerfum hafsins. Því geta breytt lífsskilyrði þessara lífvera haft mikil áhrif á vistkerfið í heild. Sýrustig sjávar (pH) hefur verið nokkuð stöðugt í um 20 milljón ár og hafa ber í huga að núlifandi sjávarlífverur þróuðust á þessu tímabili stöðugleika. Heimshöfin súrna nú hratt miðað við það sem áður hefur þekkst og því gefst lítill tími til aðlögunar fyrir lífríkið. Áframhaldandi súrnun mun verða einna mest á hafsvæðinu fyrir norðan Ísland.

Hlýnunarmáttur (Global Warming Potential (GWP)): Hlýnunarmáttur er tala sem tekur mið af mismunandi áhrifum gróðurhúsalofttegundanna á geislunarjafnvægi í lofthjúpnum og þar með áhrifum þeirra til hækkunar hitastigs á jörðinni. Til eru mismunandi tölur yfir hlýnunarmátt, annars vegar vegna þess að hægt er að miða samanburð lofttegundanna við mismunandi tímabil og hins vegar vegna þess að aukin vísindaþekking hefur leitt til betri skilnings á áhrifunum. Því eru tölur um hlýnunarmátt iðulega uppfærðar í vísindaskýrslum IPCC (sjá neðar), en þær skýrslur koma út á nokkurra ára fresti. Hlýnunarmáttur koldíoxíðs (CO2) er 1 og hlýnunarmáttur annarra lofttegunda er reiknaður hlutfallslega út frá því.

Losun gróðurhúsalofttegunda (Greenhouse gas emissions): Losun framangreindra sjö gróðurhúsalofttegunda gefin upp í tonnum eða kílótonnum koldíoxíðsígilda (CO2íg), að teknu tilliti til mismunandi hlýnunarmáttar lofttegundanna. Þegar losun gróðurhúsalofttegunda er borin saman milli landa er yfirleitt miðað við losun án LULUCF (sjá neðar).

Samfélagslosun (non-ETS emissions): Losun frá heimilum, þjónustu, smáiðnaði, samgöngum, sjávarútvegi, landbúnaði og meðferð úrgangs.

IPCC, UNFCCC, Parísarsamningurinn, landsframlög, landsbókhald og LULUCF

IPCC (Intergovernmental Panel on Climate Change): Milliríkjanefnd um loftslagsbreytingar (IPCC: Intergovernmental Panel on Climate Change) var stofnuð árið 1988 af Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna og Alþjóðaveðurfræðistofnuninni. Nefndinni var falið að taka saman upplýsingar um vísindi, tækni, félagslega þætti og efnahagslega þætti loftslagsbreytinga og miðla þeim til þeirra sem fara með stefnumótun í loftslagsmálum (ríkisstjórnir, alþjóðastofnanir). Fyrsta skýrsla nefndarinnar kom út árið 1990 og síðan hefur nefndin gefið út viðamiklar matsskýrslur á u.þ.b. sex ára fresti.

  • Vinnuhópur 1 fjallar um vísindalega þekkingu á loftslagsbreytingum og veðurfari.
  • Vinnuhópur 2 fjallar um afleiðingar loftslagsbreytinga á umhverfi, samfélög og efnahag, auk möguleika á aðlögun.
  • Vinnuhópur 3 fjallar um hvaða leiðir eru færar til að draga úr gróðurhúsaáhrifum og afleiðingum þeirra.

Hver matsskýrsla kemur út í fjórum hlutum, einum hluta frá hverjum af vinnuhópunum þremur, auk samantektarskýrslu. Milliríkjanefndin hefur einnig gefið út sérstakar skýrslur um afmörkuð málefni og má þar t.a.m. nefna skýrslu sem kom út 2018 um samanburð á áhrifum hækkunar hitastigs um 1,5°C og 2°C. Sérstakur vinnuhópur  gefur  út leiðbeiningar um losunarbókhald.

UNFCCC (United Nations Framework Convention on Climate Change): Rammasamningur Sameinuðu þjóðanna (SÞ) um loftslagsbreytingar, oftast nefndur loftslagssamningurinn. Alþjóðlegt samstarf í loftslagsmálum byggir á loftslagssamningnum og með honum var skapaður vettvangur fyrir frekari alþjóðlegar samningaviðræður. Samningaviðræður um Kyoto-bókunina og Parísarsamninginn fóru þannig fram á vettvangi samningsins. Þá var upplýsingagjöf ríkja til skrifstofu samningsins formfest með loftslagssamningnum, þ.á m. losunarbókhald og reglulegar skýrslur um aðgerðir í loftslagsmálum. Þessi upplýsingagjöf gegnir gríðarlega mikilvægu hlutverki í alþjóðlegu samstarfi ríkja um loftslagsmál. Loftslagssamningurinn hefur frá upphafi notið víðtæks stuðnings ríkja heims. Nánast öll ríki heims, auk Evrópusambandsins, eru nú aðilar að samningnum. Ísland fullgilti loftslagssamninginn 16. júní 1993.

Parísarsamningurinn (Paris agreement): Parísarsamningurinn um loftslagsmál var samþykktur á 21. aðildarríkjaþingi loftslagssamningsins árið 2015 og gekk hann í gildi 4. nóvember 2016, innan við ári eftir að hann var samþykktur. Samningurinn felur í sér nýja nálgun, því að í stað þess að vera með lagalega bindandi skuldbindingar í formi magntakmarkana á losun gróðurhúsalofttegunda setja aðildarríkin sér sjálf markmið um að draga úr losun með því að skila svonefndu landsframlagi (nationally determined contributions (NDCs)) á skrifstofu loftslagssamningsins. Í landsframlaginu koma fram þau markmið sem viðkomandi ríki setur sér varðandi samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda. Á 5 ára fresti eiga ríki að senda inn ný landsframlög, sem skulu fela í sér metnaðarfyllri markmið en fyrri framlög. Ríkjum ber að grípa til mótvægisaðgerða innanlands í þeim tilgangi að ná markmiðum sínum.

Losunarbókhald (Emission Inventory): Bókhald yfir losun gróðurhúsalofttegunda og bindingu kolefnis úr andrúmslofti unnið eftir leiðbeiningum IPCC í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar.

Landsbókhald (National Emission Inventory): Ísland skilar árlega upplýsingum um losun gróðurhúsalofttegunda til skrifstofu loftslagssamningsins. Í skilunum er losun skipt í 5 flokka: orku, efnanotkun og efnaferla í iðnaði, landbúnað, úrgang og LULUCF (sjá neðar). Skil Íslands til loftslagssamningsins samanstanda annars vegar af fjölmörgum töflum sem skilað er á excel-formi og nefnast CRF (Common Reporting Format) og hins vegar af skriflegri skýrslu – NIR (National Inventory Report) – þar sem aðferðafræði útreikninga og helstu niðurstöðum er lýst. Losun án LULUCF er losun gróðurhúsalofttegunda án þess að reikna inn landnotkunarþáttinn, en slík framsetning er algengust þegar verið að bera saman losun gróðurhúsalofttegunda milli landa og ákvarða skuldbindingar ríkja. Losun vegna millilandaflugs og millilandasiglinga er ekki heldur inni í skuldbindingum ríkja. Slík losun er reiknuð út frá sölu eldsneytis til viðkomandi greina í hverju landi og gefin upp en ekki reiknuð inn í heildarlosun hvers ríkis.

LULUCF (Land Use, Land-Use Change and Forestry): Landnotkun, breytt landnotkun og skógrækt. Þegar losun gróðurhúsalofttegunda er gefin upp og borin saman á milli landa er yfirleitt miðað við losun án LULUCF. Þetta er annars vegar vegna vísindalegrar óvissu (sem þó fer minnkandi eftir því sem rannsóknum fer fjölgandi) varðandi mat á losun og bindingu vegna landnotkunar og hins vegar vegna þess að erfitt getur verið að greina á milli manngerðrar og náttúrulegrar losunar. Ljóst er að LULUCF er mikilvægur þáttur í losun og bindingu gróðurhúsalofttegunda. Á heimsvísu er talið að rekja megi 9-11% allrar losunar til LULUCF. Þessi þáttur er enn mikilvægari á Íslandi. Með markvissum aðgerðum á sviði LULUCF er í mörgum tilvikum hægt að draga verulega úr losun frá landi og auka bindingu og verða slíkar aðgerðir nauðsynlegar til að ná fram kolefnishlutleysi um eða eftir miðja öldina eins og stefnt er að skv. Parísarsamningnum.

Viðskiptakerfið, losunarheimildir, Kyoto-einingar

Viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir (ETS: Emission Trading System): Viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir, ETS, var komið á fót árið 2005. Kerfið tekur til losunar frá flugrekstri og staðbundinni starfsemi í orkuframleiðslu og þungaiðnaði (s.s. olíuhreinsistöðvum, framleiðslu málma, sements, o.fl.). ETS er svokallað „cap and trade“-kerfi sem á íslensku mætti kalla að „hamla og höndla“. Sett er þak á heildarlosun (þannig er verið að hamla losun) og viðskipti leyfð með losunarheimildir (höndlað). Samhliða því að þakið á losun gróðurhúsalofttegunda í kerfinu lækkar, fækkar losunarheimildum í umferð og þær verða þar af leiðandi dýrari. Ef kostnaður fyrirtækjanna við að afla losunarheimilda reynist meiri en kostnaðurinn sem fylgir því að draga úr losun má gera ráð fyrir að fyrirtæki sjái sér hag í að ráðast í endurbætur eða breytingar á starfsemi sinni til að draga úr losun. Viðskiptakerfið felur þannig í sér hagræna hvata fyrir fyrirtæki til að draga úr losun og er þannig ætlað að ýta undir loftslagsvæna nýsköpun og tækniþróun. Kerfið kveður ekki á um takmörkun losunar einstakra fyrirtækja heldur næst markmiðið um samdrátt í losun meðal fyrirtækja innan kerfisins með því að takmarka heildarfjölda og þar með framboð losunarheimilda í kerfinu. Losun einstakra fyrirtækja innan kerfisins getur aukist þrátt fyrir að heildarmarkmið kerfisins náist, svo framarlega sem viðkomandi fyrirtæki verði sér úti um nægjanlegan fjölda losunarheimilda.  

Losunarheimildir (Emission Allowances): Ein losunarheimild jafngildir heimild til losunar á einu tonni af gróðurhúsalofttegundum, mælt í koldíoxíðsígildum. Til eru margar mismunandi gerðir af losunarheimildum, svo sem Kyoto-einingar (AAU-einingar, RMU-einingar, ERU-einingar, CER-einingar), EUA-heimildir og AEA-heimildir.

EUA-losunarheimildir (EU Allowances): Losunarheimildir innan ETS-kerfisins. Fyrirtæki innan kerfisins fá hluta losunarheimildanna úthlutað endurgjaldslaust eftir ákveðnum reglum og tekur úthlutunin mið af sögulegri starfsemi og árangursviðmiðum sem eru ákvörðuð út frá árangri þeirra fyrirtækja sem best hefur gengið að takmarka losun frá starfsemi sinni. Fjöldi úthlutaðra losunarheimilda er aðlagaður að breytingum á starfsemisstigi rekstraraðila. Þegar losun er meiri en sem nemur úthlutun endurgjaldslausra losunarheimilda þurfa fyrirtæki að kaupa heimildir á markaði. Þau þurfa þá sem sagt að greiða fyrir losun sína upp að tilteknu marki.

AEA-heimildir (Annual Emission Allocation): Heimildir innan kerfisins um skiptingu ábyrgðar á samfélagslosun. Ríki ESB, Noregur og Ísland fá úthlutað ákveðnum fjölda AEA-heimilda og er úthlutunin fyrir hvert ríki ákveðin út frá hagvexti á íbúa og tækifærum og kostnaði við að draga úr samfélagslosun í viðkomandi landi. Fjöldi AEA-heimilda minnkar línulega á því tímabili sem úthlutunin nær til. Á hverju ári tímabilsins 2021-2030 má losun ekki vera meiri en fjöldi AEA-heimilda segir til um. Ríki hafa þó tiltekinn sveigjanleika til að ná markmiðum sínum.

Kyoto-einingar (Kyoto Units): AAU-, RMU-, ERU- og CER-einingar. Samanlagður fjöldi Kyoto-eininga þarf að vera a.m.k. jafn heildarlosun viðkomandi ríkis á viðkomandi skuldbindingatímabili Kyoto-bókunarinnar.

AAU-einingar (AAU: Assigned Amount Units): Úthlutaðar einingar, þ.e. upphaflegur kvóti hvers iðnríkis innan Kyoto-bókunarinnar. AAU-einingar eru lagðar inn á reikning viðkomandi ríkis í alþjóðlegu skráningarkerfi (sjá neðar). Úthlutun AAU-eininga til hvers iðnríkis samsvarar því magni gróðurhúsalofttegunda sem ríkinu er heimilt að losa.

RMU-einingar (RMU: Removal Units): Einingar sem gefnar eru út vegna kolefnisbindingar með landnotkunaraðgerðum.

ERU-einingar (ERU: Emission Reduction Units): Sérstakar Kyoto-einingar sem gefnar eru út vegna samvinnuverkefna (JI: Joint Implentation), þ.e. loftslagsverkefna sem iðnríki standa fyrir í öðrum iðnríkjum. ERU-einingar eru gefnar út á reikning iðnríkisins sem fjármagnaði viðkomandi verkefni en um leið er ógiltur samsvarandi fjölda AAU-eininga í iðnríkinu þar sem verkefnið fór fram.

CER-einingar (CER: Certified Emission Reduction): Einingar sem tengjast loftslagsvænum þróunarverkefnum (CDM: Clean Development Mechanism), þ.e. loftslagsverkefnum sem iðnríki standa fyrir í þróunarríkjum. CER-einingar eru gefnar út af alþjóðlegum umsjónaraðila sem starfar á vegum skrifstofu loftslagssamningsins. CER-einingar eru lagðar inn á reikninga ríkja í skráningarkerfinu í samræmi við samning sem liggur viðkomandi verkefni til grundvallar. Hluti þeirra er þó nýttur til að fjármagna stofnanakerfi sem komið var á fót vegna loftslagsvænna þróunarverkefna.

Skráningarkerfi (Registry): Skráningarkerfið er vettvangur þar sem ríki, fyrirtæki og einstaklingar geta átt reikninga sem geyma losunarheimildir. Skráningarkerfið virkar eins og netbanki, en reikningshafar geta millifært losunarheimildir sín á milli í samræmi við kaupsamninga og þær reglur sem gilda.

Kolefnisleki (Carbon Leakage): Ákveðin starfsemi er talin viðkvæm fyrir kolefnisleka, þ.e. hætta er talin á að slík starfsemi kunni að bregðast við íþyngjandi kröfum um uppgjör á losunarheimildum með því að flytjast til ríkja þar sem ekki eru gerðar sambærilegar kröfur.

CORSIA (Carbon Offsetting and Reduction Scheme for International Aviation)

CORSIA: CORSIA er hagrænt stjórntæki á vegum ICAO og er því ætlað, ásamt kröfum ICAO um orkunýtni, umbótum í flugrekstri og aukinni notkun á vistvænu eldsneyti, að tryggja að vöxtur í alþjóðaflugi verði kolefnishlutlaus frá og með árinu 2021, þ.e. að losun frá alþjóðlegu flugi haldist óbreytt til framtíðar miðað við losun ársins 2019. Upphaflega stóð til að losun til framtíðar myndi haldast óbreytt miðað við meðaltalslosun áranna 2019 og 2020. Vegna áhrifa heimsfaraldurs af völdum covid19 á flugstarfsemi árið 2020, verður hins vegar einungis miðað við árið 2019. Grunnlína losunar, sem kolefnishlutlaus vöxtur miðar við, miðar við losun ársins 2019 til ársins 2023, en verður síðan 85% af losun ársins 2019 frá 2024 til 2035. CORSIA tekur til flugs milli ríkja sem taka þátt í kerfinu. Þátttaka í kerfinu er valfrjáls til ársins 2027. Fjölmörg ríki hafa tilkynnt þátttöku sína á þessu tímabili. Frá 2027 til 2035 verður hins vegar að meginstefnu til öllum ríkjum skylt að taka þátt í kerfinu. Árið 2024 munu flugfélög gera upp sína hlutdeild í losun fluggeirans árin 2021-2023 umfram grunnlínu með kaupum og innskilum á CORSIA-losunareiningum (CORSIA eligible emission units).

CORSIA-kerfið hefur verið talsvert gagnrýnt og þykir ekki líklegt til að stuðla að nægjanlegum samdrætti í losun frá flugi. Á Evrópska efnahagssvæðinu er CORSIA-kerfið innleitt í gegnum viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir (ETS). Í Evrópu gildir ETS-kerfið gildir fyrir flug innan EES en CORSIA fyrir flug milli Evrópuríkja og ríkja sem taka þátt í CORSIA. ETS-kerfið verður látið ná til alls flugs sem tekur á loft frá evrópskum flugvöllum frá árinu 2027 ef ljóst verður eftir fund ICAO árið 2025 að CORSIA dugi ekki til að ná langtímamarkmiðum ICAO um samdrátt í flugi.