Inngangur
Lofthjúpur jarðarinnar er í raun þunnt lag lofttegunda sem umlykur hnöttinn. Lofthjúpurinn ver okkur gegn hættulegri geislun frá sólinni og heldur hitastigi á jörðinni í jafnvægi. Köfnunarefni (N2) og súrefni (O2) sem mynda samanlagt 99% lofthjúpsins gleypa ekki varmageislun frá jörðu. Það gera hins vegar nokkrar lofttegundir sem er að finna í litlu magni í andrúmsloftinu, svo sem koldíoxíð (CO2), metan (CH4), glaðloft (N2O) og ýmsar lofttegundir sem innihalda flúor. Þessar lofttegundir kallast gróðurhúsalofttegundir vegna gróðurhúsaáhrifanna sem þær valda. Gróðurhúsalofttegundir eiga það sameiginlegt að hafa langan líftíma í andrúmsloftinu. Það skiptir ekki máli hvar þessar lofttegundir sleppa út í andrúmsloftið, þær dreifast um allt og áhrifin koma alls staðar fram. Helsta uppspretta gróðurhúsalofttegunda er brennsla jarðeldsneytis. Koldíoxíð er langmikilvægasta gróðurhúsalofttegundin. Koldíoxíð sem myndast vegna bruna jarðeldsneytis, vegna iðnaðarframleiðslu og vegna landnotkunar safnast fyrir og flyst til á milli lofthjúpsins, hafsins, landmassans og plantna og dýra í lífhjúpnum. Koldíoxíð helst í lofthjúpnum í langan tíma. Það getur orðið að steintegund þegar skeljar kalkmyndandi lífvera botnfalla og mynda setlög á hafsbotni, en slík bergmyndun getur tekið þúsundir ára. Af þessum sökum er stór hluti þess koldíoxíðs sem mannkynið hefur sett út í andrúmsloftið frá upphafi iðnbyltingar enn til staðar í andrúmsloftinu. Að sama skapi tekur það langan tíma að draga úr styrk koldíoxíðs í andrúmslofti, jafnvel þótt losun dragist saman. Þar sem loftslagsbreytingar eru vandamál sem stafar af uppsöfnun gróðurhúsalofttegunda í lofthjúpnum er mikilvægt að grípa strax til aðgerða til þess að árangur verði sem mestur.
Losun gróðurhúsalofttegunda hefur aukist gríðarlega frá iðnbyltingu. Samhliða því hefur styrkur þessara lofttegunda í andrúmslofti aukist. Styrkur koldíoxíðs jókst úr u.þ.b. 280 ppm árið 1850 í 410 ppm árið 2020 – og á sama tíma hefur hitastig jarðar hækkað um rúmlega 1°C. Höfin hafa dregið í sig um 25-30% af því koldíoxíði sem sett hefur verið út í andrúmsloftið frá iðnbyltingu og þessi aukning koldíoxíðs í sjónum veldur súrnun sjávar. Sýrustig sjávar hefur þegar lækkað úr 8,2 í 8,1. Þetta lítur kannski ekki út fyrir að vera mikil súrnun, en þýðir samt að styrkur vetnisjóna í sjónum hefur aukist um 30%.
Losun gróðurhúsalofttegunda af mannavöldum hefur loftslagsbreytingar í för með sér. Lofthjúpurinn og heimshöfin hafa hlýnað, jöklar hafa bráðnað og sjávarborð hefur hækkað. Þá hefur alls kyns öfgaatburðum fjölgað s.s. hitabylgjum, gróðureldum, flóðum, aftakaúrkomu og óveðursatburðum.
Baráttan gegn loftslagsbreytingum er eitt umfangsmesta og mikilvægasta verkefni sem mannkynið stendur frammi fyrir. Loftslagsbreytingar eru hnattrænt viðfangsefni og því er brýnt að draga hratt úr losun gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu. Ísland hefur tekið þátt í alþjóðasamstarfi um loftslagsmál frá upphafi og er aðili að Rammasamningi Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (loftslagssamningnum), Kyoto-bókuninni og Parísarsamningnum. Þessum samningum sem og aðild Íslands að EES hafa fylgt kvaðir um takmarkanir á losun gróðurhúsalofttegunda (skuldbindingar).
Á þessum vef er fjallað um losun gróðurhúsalofttegunda og skuldbindingar Íslands í loftslagsmálum. Umfjölluninni er skipt niður í fjóra þætti, auk þess sem helstu hugtök er varða losun gróðurhúsalofttegunda og skuldbindingar í loftslagsmálum eru útskýrð:
- Losun gróðurhúsalofttegunda og losunarbókhald. Hér er fjallað stuttlega um losun gróðurhúsalofttegunda með megináherslu á losun á Íslandi. Fjallað er um hvernig losunarbókhald er haldið og munurinn á losunarbókhaldi Umhverfisstofnunar og losunarreikningum Hagstofunnar útskýrður.
- Viðbrögð alþjóðasamfélagsins. Loftslagsbreytingar eru hnattrænt viðfangsefni og því er brýnt að draga hratt úr losun gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu. Samstarf þjóða er lykillinn að árangri á því sviði. Ísland hefur tekið þátt í alþjóðasamstarfi um loftslagsmál frá upphafi og er aðili að loftslagssamningnum, Kyoto-bókuninni og Parísarsamningnum. Aðild Íslands að EES hefur einnig þýðingu en Evrópusambandið er leiðandi í hnattrænu samstarfi í loftslagsmálum. Hér er fjallað um ofangreind atriði enda er skilningur á þessum samningum og samstarfi þjóða grundvöllur þess að mögulegt sé að skilja skuldbindingar Íslands í loftslagsmálum.
- Skuldbindingar Íslands. Skuldbindingar Íslands í loftslagsmálum eru nokkuð flóknar og taka bæði mið af alþjóðasamningum um loftslagsmál (loftslagssamningnum, Kyoto-bókuninni, Parísarsamningnum) og þátttöku Íslands í EES. Hér er fjallað um skuldbindingar Íslands skv. mismunandi alþjóðasamningum, einkum skuldbindingar á fyrra og síðara skuldbindingatímabili Kyoto-bókunarinnar sem og skuldbindingar skv. Parísarsamningnum, þar sem Ísland mun uppfylla skuldbindingar sínar í samstarfi við Evrópusambandsþjóðir.
- Samanburður við önnur lönd. Hér er skoðað hvernig losun gróðurhúsalofttegunda hérlendis er í samanburði við önnur lönd.
Sum orð og hugtök eru útskýrð nánar á síðunni, bæði til að gera efnið skiljanlegra og eins til að bæta við viðbótarupplýsingum. Þessi orð eru undirstrikuð með grænni línu og sjást orðskýringarnar þegar farið er með tölvumúsina yfir orðin. Langflest gröfin á síðunni eru gagnvirk. Á sumum gröfum er hægt að smella á tiltekna þætti til að fá nánari greiningu á þeim. Eins er stundum mögulegt að fjarlægja einstaka þætti, þannig að hægt sé að skoða myndina án viðkomandi upplýsinga. Jafnvel er hægt að taka út alla þætti nema einn til að skoða þann þátt sérstaklega. Þetta skýrir sig best ef notendur síðunnar prófa sig áfram. Hægt er að hlaða niður þeim gögnum sem eru á bak við gröfin. Það er gert með því að smella á hnapp sem er í efra hægra horninu á viðkomandi grafi. Neðst í hægra horninu á hverri síðu er hnappur sem hægt er að ýta á til að halda áfram í næsta umfjöllunarefni á vefnum. Þrátt fyrir að hægt sé að skoða efni síðunnar á farsíma er mælt með því að notast við stærri skjá.