Mengun sjávar – kennslubók

Formáli

Ýmiss konar mengunarhætta steðjar að hafinu við Ísland eins og öðrum hafsvæðum jarðarinnar. Má þar nefna olíumengun, loftslagsbreytingar og súrnun sjávar, úrgang í höfunum, efnamengun og geislavirkni.

Sjórinn er viðkvæmur fyrir olíumengun, ekki síst á norðlægum slóðum þar sem olían brotnar seint niður, lífríkið er viðkvæmt og viðbragðstími björgunaraðila langur. Mikilvægt er að huga að því sem gæti gerst ef olía læki úr stóru olíuflutningaskipi, eða ef leki yrði úr olíulind, vegna þess að afleiðingarnar gætu orðið geigvænlegar. Exxon Valdez slysið undan ströndum Alaska árið 1989 er dæmi um stórslys af þessu tagi, en þar hefur lífríkið ekki enn náð að jafna sig að fullu rúmum þremur áratugum síðar.

Loftslagsbreytingar hafa mikil áhrif á höfin – yfirborð sjávar hækkar, hitastig sjávar hækkar með ýmsum afleiðingum fyrir lífríkið og hugsanlegt er að áhrifa á hafstrauma sé farið að gæta. Súrnun sjávar á sér stað alls staðar í heimshöfunum en áhrif súrnunar koma fyrst fram á köldum hafsvæðum eins og Íslandsmiðum. Súrnun hefur m.a. áhrif á kalkmyndandi lífverur sem eru gríðarlega mikilvægar fyrir vistkerfi sjávar enda grunnur fæðukeðjunnar.

Plastmengun hefur verið mikið í umræðunni undanfarin ár og alkunna er að stórir plastflákar hafa myndast á ákveðnum stöðum í heimshöfunum. Þekktastur þeirra er flákinn í norðanverðu Kyrrahafinu. Þær rannsóknir sem gerðar hafa verið hér við land benda til þess að plastmengun sé vandamál umhverfis Ísland eins og annars staðar. Plastagnir hafa ýmis neikvæð áhrif á lífverur í hafinu og flytja að auki með sér ýmis eiturefni sem hafa ratað í sjóinn. Þessi efni geta borist með plastinu inn í fæðukeðjuna og valdið skaða.

Efnamengun af ýmsum toga berst til sjávar bæði frá byggð og frá ýmiss konar atvinnustarfsemi. Í Norðursjó, Eystrasalti og víðar hafa næringarefni sem berast út í sjó valdið ofauðgun og komið ójafnvægi á lífríkið. Eins má finna í hafinu alls kyns óæskileg efni sem brotna mjög seint niður. Hér má t.d. nefna þrávirk lífræn efni sem safnast fyrir á norðlægum slóðum og finnast í vaxandi styrk þegar ofar kemur í fæðukeðjuna. Mörg þessara efna eru krabbameinsvaldandi og/eða hafa hormónavirkni.

Losun geislavirkra efna í hafið getur líka valdið miklu tjóni. Áður fyrr tíðkaðist að sigla með geislavirkan úrgang á haf út og henda honum fyrir borð. Slys sem verða jafnvel í fjarlægum heimshlutum geta haft merkjanleg áhrif hér við land. Þannig mældist geislavirkni, sem rekja má til slyssins í kjarnorkuverinu í Fukushima í Japan árið 2011, hér við land áður en hennar varð vart í öðrum löndum Evrópu. Afleiðingar kjarnorkuslysanna í Chernobyl og Fukushima eru ógnvekjandi.

Mengun virðir hvorki landamæri né lögsögu ríkja. Því byggja flestallar reglur um mengun hafsins á alþjóðlegum samningum. Tveir sérlega mikilvægir alþjóðasamningar á þessu sviði eru MARPOL og OSPAR. Tilgangur MARPOL er að koma í veg fyrir og draga úr losun mengunarefna frá skipum út í andrúmsloftið og í sjó, annars vegar mengun sem orsakast af óhöppum og hins vegar mengun sem stafar af daglegum rekstri skipa. Tilgangur OSPAR er að draga úr mengun í Norðaustur-Atlantshafinu og stuðla að því, eftir því sem kostur er, að komið verði alfarið í veg fyrir hana.

Þær breytingar sem orðið hafa á útbreiðslu íss á norðurslóðum á síðustu árum hafa aukið aðgengi að Norðurskautssvæðinu. Aukin umferð er um svæðið og ásókn í auðlindir á þessu viðkvæma svæði fer vaxandi.

Sú hugmynd að útbúa námsefni um mengun sjávar á íslensku kviknaði árið 2016 og fyrsta útgáfa kennslubókarinnar varð að veruleika um 18 mánuðum síðar. Markmið verkefnisins var að búa til aðgengilegt og fræðandi kennsluefni fyrir skólakrakka; fræðsluefni, sem vonandi getur einnig nýst áhugasömu fólki á öllum aldri. Fyrri hluti verkefnisins, var unninn með styrkjum frá Rannsóknasjóði síldarútvegsins og Rannís og fól í sér umfjöllun um olíumengun, loftslagsmál, úrgang, efnamengun og geislavirkni. Birna Sigrún Hallsdóttir, umhverfisverkfræðingur, vann þennan hluta verkefnisins að langmestu leyti en Ævar Þór Benediktsson, leikari og rithöfundur, kom einnig að verkefninu. Árið 2018 var ákveðið að bæta við umfjöllun um umhverfisáhrif siglinga, alþjóðasamninga og umhverfismál norðurslóða. Sá hluti verkefnisins var unninn af Birnu og Hrafnhildi Bragadóttur, lögfræðingi, með styrk frá Rannsóknasjóði síldarútvegsins. Edda Karólína Ævarsdóttir, myndlistarkona, teiknaði skýringarmyndir. Sigurður B. Finnsson, eðlisfræðingur, aðstoðaði við vefhönnun og myndvinnslu og Stefán Gíslason, umhverfisstjórnunarfræðingur, sá um yfirlestur og kom með fjölmargar gagnlegar ábendingar um orðalag. Þá aðstoðaði Bryndís Gunnarsdóttir framhaldsskólanemi á ýmsan hátt. Að verkefninu komu einnig Sólveig Ólafsdóttir og Hrönn Egilsdóttir sérfræðingar  á Hafrannsóknastofnun, Sesselja Bjarnadóttir, sérfræðingur hjá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu og Sigurrós Friðriksdóttir teymisstjóri hjá Umhverfisstofnun. Halldór Björnsson, haf- og veðurfræðingur, og Jón Ólafsson, haffræðingur, aðstoðuðu við að finna myndir. Kennslubókin hefur verið uppfærð reglulega, síðast árið 2024. Við þá uppfærslu kom Sigríður Ólafsdóttir, kennari við Skipstjórnarskólann, með margar nytsamlegar ábendingar.

Til að gera námsefnið skiljanlegra eru sum orð og hugtök útskýrð nánar – þessi orð eru skyggð og sjást orðskýringarnar þegar farið er með tölvumúsina yfir orðið. Í lok hvers kafla er að finna bæði sjálfspróf og spurningar úr efni kaflans. Sjálfsprófin samanstanda af nokkrum fjölvalsspurningum sem nemendur geta svarað og fengið strax niðurstöðu um gengi sitt og þar með gert sér grein fyrir hversu vel þeir hafa skilið viðkomandi kafla. Trú höfunda er að námsefnið henti best nemendum á framhaldsskólastigi. Vonir okkar standa þó til þess að kennarar geti kennt grunnskólanemendum valda kafla. Þá myndi það gleðja okkur mikið ef almenningur myndi lesa og nota námsefnið eftir áhuga og þörfum.