7.3 Losun ýmissa efna og efnasambanda

Hafið getur mengast af ýmsum efnum og efnasamböndum vegna siglinga, s.s. vegna losunar við rekstur skipa, losunar sem verður vegna óhappa, losunar vegna þess að efni eða farmur tapast fyrir borð eða vegna efna sem notuð eru um borð eða til að botnverja skip. Mörg þessara efna geta verið hættuleg vistkerfi sjávar og heilsu fólks. Hér verður nánar fjallað um mengun sjávar vegna flutnings á eiturefnum og hættulegum efnum með skipum. Þá verður einnig fjallað um notkun tríbútýltins til að botnverja skip en efnið hefur nú verið bannað vegna mikillar eiturvirkni.

Viðauki II við MARPOL fjallar um varnir gegn mengun vegna eitraðra efna í fljótandi formi sem flutt eru í geymum skipa og viðauki III fjallar um varnir gegn mengun af völdum hættulegra efna sem flutt eru í pökkuðu formi. Í samningi um gróðurhindrandi efni eru ákvæði sem takmarka notkun skaðlegra efna í botnmálningu.

7.3.1 Mengun sjávar vegna flutnings á eiturefnum og hættulegum efnum

Viðauki II skiptir efnum sem geta verið hættuleg lífríki sjávar í þrjá flokka, X, Y og Z.

  • Flokkur X: Eitruð efni í fljótandi formi, sem myndu skapa umtalsverða hættu á tjóni á náttúruauðlindum hafsins eða heilsu manna væru þau losuð í hafið við hreinsun tanka eða við losun á kjölfestu – því er réttlætanlegt að banna losun þeirra í hafið. Hér er t.d. um að ræða efni eins og naftalín og oktan.
  • Flokkur Y: Eitruð efni í fljótandi formi, sem myndu skapa hættu á tjóni á náttúruauðlindum hafsins eða heilsu manna, valda tjóni á mannvirkjum eða hindra lögmæta nýtingu hafsins væru þau losuð í hafið við hreinsun tanka eða við losun á kjölfestu – því er réttlætanlegt að takmarka losun þeirra í hafið. Hér er t.d. um að ræða efni eins og saltpéturssýru og oktanól.
  • Flokkur Z: Eitruð efni í fljótandi formi, sem myndu skapa minniháttar hættu á tjóni á náttúruauðlindum hafsins eða heilsu manna væru þau losuð í hafið við hreinsun tanka eða við losun á kjölfestu – því er réttlætanlegt að gera vissar kröfur varðandi losun þeirra í hafið. Hér er t.d. um að ræða efni eins og fosfórsýru og brennistein.

Þegar eiturefni eru flokkuð í ofangreinda flokka er litið til eftirfarandi þátta: lífsöfnunar efnanna, hraða lífræns niðurbrots þeirra (betra er að efnin brotni hratt niður), bráðra eituráhrifa, langvinnra eituráhrifa, langtímaáhrifa á heilsu og áhrifa á villtar sjávarlífverur og botndýralíf.

Mynd 7.5. Efnaflutningaskip á siglingu annars vegar og í höfn á Grundartang hins vegar. Skipin á Grundartanga flytja súrál inn og ál út.

Sérstök efnaflutningaskip flytja efni og efnavörur milli landa. Algeng burðargeta þessara skipa er á bilinu 1.000 til 50.000 tonn. Skip sem flytja eiturefni og hættuleg efni eru yfirleitt með tvöföldum byrðingi til að koma í veg fyrir að farmurinn lendi í sjónum við árekstur eða strand. Efnaflutningaskip sem flytja minna hættuleg eða hættulaus efni eru þó oft einungis með einfaldan byrðing. Stór efnaflutningaskip geta haft fjölmarga mismunandi farmtanka sem hvern fyrir sig er hægt að ferma og afferma í viðkomuhöfn óháð öðrum tönkum. Áður en tankar eru endurfylltir þarf að hreinsa þá. Meðhöndla þarf efnablönduna sem myndast við þessa hreinsun á viðurkenndan hátt í höfninni (kröfur eru mismunandi eftir eðli blöndunnar) og hreinsa hana áður en hægt er veita hreinsuðu vatninu úr henni í viðtaka. Móttökustöðvar fyrir efnablöndur af þessu tagi eru til staðar í flestum stærri höfnum í okkar heimshluta, en vantar víða annars staðar í heiminum. Ennfremur vantar víða aðstöðu og tæknigetu til að meðhöndla þann hættulega fljótandi úrgang sem komið er fyrir í landi í kjölfar tankahreinsunar. Ef móttökustöð er ekki til staðar í viðkomandi höfn þarf að sigla með hættulegustu efnablöndurnar til annarrar hafnar þar sem slík aðstaða er fyrir hendi. Losa má minna hættulegar efnablöndur í hafið í takmörkuðu magni að því tilskildu að öll eftirfarandi skilyrði séu uppfyllt:

  • Losunin fari fram fyrir neðan yfirborð sjávar.
  • Skipið sé statt a.m.k. 12 sjómílur frá landi.
  • Dýpt sjávar sé a.m.k. 25 metrar fyrir neðan kjöl skipsins.
  • Hraði skipsins sé a.m.k. 7 hnútar.

Um borð í efnaflutningaskipi skal vera samþykkt handbók þar sem fram kemur m.a. staðsetning búnaðar og tanka um borð, verklagsreglur sem lúta að meðhöndlun farms, hreinsun tanka og meðhöndlun þess vökva sem verður til við hreinsun tankanna, farmdagbók (CRB, e. cargo record book) og viðbragðsáætlun við efnaóhöppum (SMPEP, e. shipboard marine pollution emergency plan for noxious liquid substances).

Hættuleg efni á pökkuðu formi eru flutt í samþykktum umbúðum, oftast í stöðluðum gámum. Skip sem flytja slíka gáma eru oft mjög stór og farmurinn margs konar. Hvert skip þarf því að halda skrá yfir hættuleg efni um borð og staðsetningu þeirra. Miklar kröfur eru gerðar varðandi merkingar umbúða og umbúðirnar þurfa að þola að vera neðansjávar í þrjá mánuði til að hægt sé að bera kennsl á innihaldið ef óhapp verður. Ólíkt því sem gerist þegar efni eru flutt í fljótandi formi í geymum skipa geta pökkuðu efnin alla jafna eingöngu losnað vegna óhappa.

7.3.2 Notkun tríbútýltins í botnmálningu skipa

En höfin geta ekki bara mengast vegna hættulegra efna sem flutt eru með skipum. Ýmis efni eru notuð um borð og eins er gróðurhindrandi málning notuð til að botnverja skip. Það er m.a. gert til að þörungar, hrúðurkarlar og samlokur festist ekki við botninn. Slíkt eykur mótstöðu skipsins og hægir þar með á því og eykur eldsneytiseyðslu. Við upphaf siglinga var kalk notað í þeim tilgangi að botnverja skip og síðar arsen. Upp úr 1950 uppgötvuðust öflugir gróðurhindrandi eiginleikar tríbútýltins (TBT) og um 15 árum síðar var það orðið algengasta gróðurhindrandi efnið í botnmálningu skipa. Með tímanum kom hins vegar í ljós að efnið er mjög eitrað. Sýnt hefur verið fram á að ekki þurfi nema örlítið magn af TBT til þess að hafa áhrif á lífríkið. Áhrifin ná því lengra en að drepa bara lífverurnar sem eitrinu var ætlað að drepa. TBT hefur áhrif á krabba, þörunga og aðrar lífverur neðarlega í fæðukeðjunni og hefur áhrif upp fæðukeðjuna (lífmögnun). Sérstaklega eru þekkt áhrif TBT á nákuðunga en efnið veldur því að karlkyns kynfæri myndast á kvendýrunum. Vansköpun nákuðunga hefur verið notuð sem mælikvarði á áhrif TBT í umhverfinu. Áhrif TBT eru mest á hafnarsvæðum þar sem skipin standa í lengri tíma og vatnsskipti eru minni en úti á rúmsjó.

Alþjóðasiglingamálastofnunin (IMO, e: International Maritime Organisation) hefur frá árinu 1990 bannað notkun TBT í botnmálningu skipa sem eru styttri en 25 m. Frá árinu 2005 hefur öll notkun TBT verið bönnuð hér á landi (Evrópsk tilskipun frá árinu 2003 var innleidd hér á landi með reglugerð nr. 824/2005 um takmörkun á notkun skaðlegra gróðurhindrandi efna og/eða búnaðar á skip). Auk þess þurftu öll skip sem voru máluð með slíkri málningu að fara í endurmálningu ekki síðar en 2008. Eins og sjá má á mynd 7.6 voru áhrif TBT enn greinanleg hér við land árið 2008 – sér í lagi nærri stórum höfnum. Áhrifin fara þó greinilega minnkandi með árunum.

Mynd 7.6. Áhrif TBT á nákuðunga við Ísland. Til vinstri má sjá sýnatökustaði við Ísland. Hægra megin má sjá breytingar með tíma, annars vegar nærri stórum höfnum og hins vegar nærri litlum höfnum. Efri tvö gröfin hægra megin sýna breytingar á VDSI (e. Vas Deferens Sequence Index) sem er mælikvarði á stig falskyns (imposex), og neðri tvö sýna breytingar á RPSI (e. Relative Penis Size Index) sem er mælikvarði á stærð lims sem vaxið hefur á kvendýrum.