1.4 Sjávarstraumar

Loft- og hafstraumar vinna saman að því að dreifa þeirri sólarorku sem berst til jarðar. Loftstraumarnir eru knúðir af hitabreytingum á yfirborði jarðar og vindakerfum. Vindarnir toga í yfirborðssjó og koma af stað vindstraumum. Snúningur jarðar hefur áhrif á stefnu straumanna og það gerir einnig dýpi og lögun sjávarbotnsins. Upphitun eða kæling á yfirborðssjó og seltubreytingar vegna uppgufunar eða úrkomu, breyta eðlisþyngd sjávar og eðlisþyngdardreifing kemur af stað straumum. Við sjávaryfirborð eru straumar að mestu drifnir áfram af vindum. Á meira dýpi ráðast straumar af eðlisþyngd sjávar, sem aftur er háð hitastigi og seltu. Djúpsjávarmyndun á sér nær eingöngu stað á köldum hafsvæðum. Víðast á norðlægari breiddargráðum er úrkoma meiri en uppgufun og það kemur í veg fyrir að blöndun geti átt sér stað niður á mikið dýpi. Af þessum ástæðum getur djúpsjór aðeins myndast í tveimur tilvikum: ef selturíkur sjór berst til íshafssvæðanna og kólnar þar; eða ef tiltölulega selturíkur sjór frýs. Djúpsjávarmyndunin verður einkum á tveimur svæðum, við Suðurskautslandið og í Norður-Atlantshafi. Tiltölulega saltur hlýsjór flæðir norður um Norður-Atlantshaf (Golfstraumurinn) og miðlar varma til andrúmsloftsins. Við það kólnar hann og kælingin eykur eðlismassa þessa sjávar svo að hann sekkur að lokum og myndar djúpsjó, einkum í Norður-Grænlandshafi (milli Jan Mayen og Svalbarða) og í Labradorhafi (milli Grænlands og Labrador). Djúpsjórinn ferðast svo suður með botni Atlantshafsins og dreifir sér bæði um Indlandshaf og Kyrrahaf þar sem hann kemur upp á yfirborð, hitnar og flyst sem hlýsjór aftur í átt að Atlantshafi. Þetta ferli kallast hita-seltu-hringrás.

Sterkir straumar eru í öllum heimshöfunum og þess vegna flyst stöðugt mikið magn sjávar um þúsundir kílómetra. Hafstraumar, sér í lagi styrkur þeirra, breytast oft með árstíðum og veðurfarssveiflum. Sjá má hreyfimynd af hafstraumakerfi heimshafanna á myndbandi 1.3.


Myndband 1.3. Hafstraumakerfi heimshafanna. Myndbandið sýnir í byrjun yfirborðsstrauma og síðan hvernig eðlisþyngri sjórinn sekkur nálægt Íslandi og Grænlandi og myndar djúpsjó sem flyst suður á bóginn. Í lokin má sjá hita-seltu-hringrásina á heimsvísu.

Golfstraumurinn er mikilvægur fyrir okkur Íslendinga. Sú grein hans, sem nefnd er Irmingerstraumur, flytur hlýjan sjó norður til Íslands. Hlýsjórinn streymir fyrst vestur fyrir Reykjanes og þaðan áfram norður með Vesturlandi til Vestfjarða. Vestan Íslands greinist straumurinn í tvennt og meginhlutinn streymir til vesturs í átt að Grænlandi. Minni kvíslin streymir til norðausturs með Vestfjörðum inn á Norðurmið. Ef streymið er mikið norður fyrir land, má greina áhrif hlýsjávarins við norðanverða Austfirði. Þau ár sem innstreymi hlýsjávar norður fyrir land er með minnsta móti, sjást hins vegar nánast engin merki um hann austan Húnaflóa. Á veturna er straumur Atlantssjávar norður fyrir land lítill, en þegar líða tekur á vorið streymir hlýsjórinn venjulega með auknum krafti norður fyrir land. Að norðan berst kaldur sjór að landinu með Austur-Íslandsstraumi. Þessi sjór streymir síðan til suðausturs og blandast við hlýjan Atlantssjó, sem kominn er inn á Norðurmið að vestan. Breytilegt er milli ára hversu mikill hlutur einstakra sjógerða er. Í mjög köldum árum flæðir kvísl úr Austur-Grænlandsstraumi inn í Íslandshaf og ber kaldan pólsjó norðan úr Íshafi.

Mynd 1.4. Hafstraumar. Hita-seltu-hringrásin nær um heimshöfin öll (vinstra megin). Hafstraumar við Ísland: Rauðar línur sýna hlýja strauma, bláar línur kalda strauma (hægra megin).