9.4 Auðlindanýting og siglingar á norðurslóðum

Aðgengi að Norðurskautssvæðinu hefur aukist á síðustu árum vegna minnkandi hafíss í kjölfar hlýnunar á norðurslóðum. Aukin umferð er um svæðið og ásókn í auðlindir eins og olíu, gas, málma og fiskstofna fer vaxandi. Talið er að stóran hluta ónýttra olíu- og gaslinda heimsins sé að finna á norðurslóðum. Aukinni nýtingu mun fylgja aukin mengun á svæðinu. Gera má ráð fyrir að siglingaleiðir, sem hingað til hafa verið ófærar eða illfærar vegna hafíss, muni opnast á næstu áratugum. Siglingaleiðirnar sem um ræðir ná frá Norður-Atlantshafi til Kyrrahafs yfir Norður-Íshafið. Mikilvægastar til skemmri tíma eru annars vegar norðvestursiglingaleiðin sem liggur milli Kanada og Grænlands og þaðan í gegnum norðurhluta Kanada og hins vegar norðaustursiglingaleiðin meðfram ströndum Rússlands. Mikilvægi siglingaleiðanna felst í því að siglingatíminn milli Asíu og Vesturlanda styttist verulega.

9.10. Siglingaleiðir munu opnast ís norðurskautsins bráðnar. Mikilvægastar til skemmri tíma eru norðvestur- og norðausturleiðin.

Auðlindanýting á norðurslóðum – jarðeldsneytisvinnsla

Aukin auðlindanýting á norðurslóðum mun leiða til aukinnar mengunar. Bæði er um að ræða mengun vegna daglegs rekstrar vinnslufyrirtækja en einnig aukast líkur á mengunarslysum, einkum í tengslum við vinnslu og flutninga olíu og gass. Úrgangur sem myndast við vinnslu jarðeldsneytis og jarðefna (t.d. úraníums) inniheldur oft geislavirk efni sem finnast í berggrunninum á viðkomandi svæði. Eftir því sem hlýnar á svæðinu mun vinnsla olíu, gass og úraníums að öllum líkindum aukast og þar með losun og hreyfanleiki náttúrulegra geislavirkra efna. Auk þess leiða aukin efnahagsumsvif á svæðinu almennt til aukinnar staðbundinnar mengunar vegna eldvarnarefna, lyfja, leysiefna og smurolíu.

Olíuvinnsla á norðurslóðum er kostnaðarsöm (sjá mynd 2.4 í kafla 2.4) enda svæðið afskekkt, veður válynd og víða skortur á innviðum. Talið er að gríðarlegt magn af jarðeldsneyti sé að finna á norðurslóðum, eða um 30% af óþekktum gaslindum og 13% af óþekktum olíulindum heimsins. Það er því eftir miklu að slægjast. Stærstur hluti lindanna tilheyrir Bandaríkjamönnum og Rússum.

Mynd 9.11. Mat á umfangi óþekktra olíulinda á norðurslóðum – helstu landsvæði.

Þegar ísinn bráðnar munu skapast hagstæðari skilyrði til að byggja olíuborpalla á þessu kalda hafssvæði. Auk þess myndi olíuvinnsla á landi njóta góðs af opnun siglingaleiða, því að þá verður auðveldara að þjónusta vinnsluna (t.d. að flytja ýmis aðföng á svæðið og olíu frá því).

Mynd 9.12. Rússneskur olíuborpallur í Barentshafi.

Við venjubundinn rekstur olíuborpalla á sér stað losun olíu, kemískra efna og geislavirkra efna í sjóinn, einkum vegna losunar djúpvatns. Djúpvatn (e. produced water) kemur upp með olíu þegar borað er eftir henni, en er skilið frá þegar olíunni er dælt upp. Djúpvatnið inniheldur nokkurt magn olíuefna og þungmálma á borð við kvikasilfur, blý, kadmíum og arsen, auk leifa þeirra kemísku efna sem notuð eru í vinnsluferlinu, s.s. efni til að varna tæringu. Þar að auki getur djúpvatnið innihaldið lággeislavirk efni úr berggrunni, einkum radíum. Djúpvatnið er meðhöndlað til að lágmarka umhverfisáhrif en er svo losað í sjóinn. Leki meðfram lokum í hinum ýmsu leiðslum á olíuborpöllum getur valdið losun kemískra efni í sjóinn. Eins geta efni sem notuð eru til að húða leiðslur og neðansjávarmannvirki seitlað út í umhverfið.

Olíuborpallar valda ýmiss konar loftmengun. Við brennslu eldsneytis t.d. vegna rafmagnsframleiðslu og brennslu gass í afgasloga losnar brennisteinsdíoxíð, köfnunarefnisoxíð, sót og rokgjörn lífræn efni út í andrúmsloftið, (nánar er fjallað um þessi loftmengunarefni í kafla 7.5, sjá t.d. töflu 7.1). Olíuvinnsla leiðir alltaf til losunar gróðurhúsalofttegunda, hvar sem hún fer fram, og eykur þannig enn á loftslagsbreytingar. Losunin á sér stað við venjubundinn rekstur olíupalla s.s. vegna eldsneytisbrennslu og brennslu afgass. Losun gróðurhúsalofttegunda og annarra loftmengunarefna á sér einnig stað við flutninga á eldsneyti sem og í olíuhreinsistöðvum. Stærstur hluti losunarinnar stafar hins vegar af brennslu eldsneytisins. Eins og fram kom í kafla 3.4 má einungis brenna litlum hluta þess jarðeldsneytis sem vitað er um í þekktum lindum, þ.e. ef komast á hjá því að loftslagsbreytingar fari endanlega úr böndunum. Það hlýtur því að blasa við að til þess að vernda megi norðurskautið og viðkvæmt lífríki þess þarf að láta mögulegar olíu- og gaslindir á svæðinu ósnertar.

Sem fyrr segir er vinnslukostnaður olíu á norðurslóðum mikill – og sama gildir um áhættu við vinnsluna. Olíuslys á norðlægum slóðum – hvort sem væri vegna vinnslu eða flutninga á olíu – gætu haft gríðarleg áhrif á viðkvæmt lífríkið. Olía hegðar sér öðruvísi á norðlægum slóðum en í hlýrri sjó. Mikill kuldi dregur úr hraða náttúrulegra veðrunarferla, sérstaklega uppgufun og lífniðurbroti. Seigja olíunnar vex með kulda og olían verður þrávirkari. Olía getur lokast undir landföstum ís og þá getur verið erfitt að finna hana og ná henni upp. Hafís dregur úr öldugangi og því verður náttúruleg dreifing og myndun kvoðulausnar minni á svæðum þar sem hafís er að finna. Allar þær aðferðir sem notaðar eru til að fást við olíumengun virka verr á norðlægum slóðum en annars staðar. Þar að auki er viðbragðstíminn oft langur þar sem um afskekkt svæði er að ræða og erfiðara er en ella að koma björgunarbúnaði á svæðið vegna þess að óveður eru tiltölulega tíð og hafís getur tafið för björgunarskipa. Aðstæður til björgunaraðgerða geta auk þess verið erfiðar vegna myrkurs og kulda. Sums staðar geta jafnvel hættuleg rándýr, s.s. ísbirnir, sett strik í reikninginn. Nánar er fjallað um olíuslys og viðbrögð við þeim í kafla 2.9 og sérstaklega um viðbrögð við olíuslysum á norðlægum slóðum í kafla 2.9.2.

Mynd 9.13. Viðbrögð við olíuslysum á norðurslóðum. „Skimmerar“ og annar olíuupptökubúnaður virkar verr í kulda. Það sama má segja um felli- og dreifiefni. Þá er erfiðara að viðhalda eldi í kulda; sótið sem myndast er krabbameinsvaldandi og hættulegt heilsu manna og náttúru, auk þess að geta sest á yfirborð jökla og flýtt þannig bráðnun þeirra og dregið úr endurkasti.

Siglingar á norðurslóðum

Talsverð skipaumferð er á norðurslóðum og er búist við að hún fari vaxandi á næstu árum með áframhaldandi bráðnun hafíssins á svæðinu. Útbreiðsla hafíss á norðurskautinu er jafnan minnst í september. Þetta er því sá tími árs sem skipaumferð um svæðið er mest. Á mynd 9.14 má sjá umferð olíuflutningaskipa (tankskipa), skemmtiferðaskipa, flutningaskipa og fiskiskipa um norðurslóðir í september 2018. Sjá má að skipaumferð á svæðinu er umtalsverð.

Mynd 9.14. Útbreiðsla hafíss og umferð skipa á norðurskautinu í september 2018.

Talið er stærstu gaslindir veraldar sé að finna á Yamalskaganum í Rússlandi. Umferð tankskipa á norðurskautinu er mest milli Yamalskagans og Evrópu. Um tíu ísbrjóts-tankskip flytja gas frá Rússlandi til Evrópu og Asíu og fleiri slík skip eru í byggingu. Umferð skemmtiferðaskipa hefur aukist mikið um allan heim á síðustu árum, þar á meðal um norðurskautið. Stefnt er að því að ísbrjóts-skemmtiferðaskip sigli um svæðið árið 2021. Flutningaskip flytja hráefni frá námum á norðurslóðum, t.d. zink frá námum í Alaska og járngrýti frá Kanada. Með minnkandi ís mun starfstímabil hafna á þessum slóðum lengjast og starfsemi því hugsanlega aukast á svæðinu. Umferð fiskiskipa er einnig mikil.

Auknum siglingum um norðurslóðir fylgir aukin hætta á mengun frá skipum. Um er að ræða mengun sem stafar af venjulegum rekstri skipa (sjá nánar í kafla 7) og bráðamengun vegna slysa og óhappa (sjá nánar í kafla 2.9). Notkun svartolíu sem skipaeldsneyti í siglingum á norðurslóðum veldur sérstökum áhyggjum en svartolía er talsvert notuð í alþjóðlegum siglingum því hún er yfirleitt mun ódýrari en gasolía. Mjög erfitt er að hreinsa upp svartolíu ef olíuslys verður norðlægum slóðum. Auk þess inniheldur svartolían mikið magn af brennisteini og öðrum aðskotaefnum. Því veldur bruni svartolíu mun meiri loftmengun (s.s. brennisteinsdíoxíð, þungmálmar og sót) en bruni gasolíu. Sótið sem myndast við bruna er krabbameinsvaldandi og hættulegt heislu manna og náttúru, auk þess sem það sest á yfirborð jökla og íss og getur þannig flýtt fyrir bráðnun og dregið úr endurkasti sólarljóssins.

Þrátt fyrir að hlýnun sjávar og bráðnun íss leiði til aukins aðgengis að svæðinu mun sjófarendum eftir sem áður stafa talsverð hætta af ís, einkum borgarísjökum, sem auk kulda, myrkurs og erfiðra veðurskilyrða gera siglingar á þessum slóðum sérlega áhættusamar. Vegna þessara erfiðu aðstæðna eru auknar líkur á slysum, auk þess sem erfiðara er að bregðast við slysum, m.a. vegna þess að aðstæður gera það að verkum að seinlegra er fyrir viðbragðsaðila að koma á staðinn og sinna björgunar- og hreinsunarstörfum. Í þessu samhengi skiptir fjarlægð frá byggð máli, sem og skortur á búnaði, sérhæfðri þekkingu björgunaraðila, leiðsöguþjónustu, þekkingu á aðstæðum og innviðum.

Vegna aukinnar áhættu fyrir sjófarendur og umhverfi hafs og stranda á norðurslóðum hefur Alþjóðasiglingamálastofnunin (IMO) mótað sérstakar öryggis- og umhverfiskröfur fyrir siglingar á svæðinu og taka þær mið af sérstökum aðstæðum á þessum slóðum (reglurnar gilda bæði á norður- og suðurskautinu). Reglurnar kallast Pólkóðinn og kveða á um sérstakar kröfur sem gilda um hönnun skipa, búnað, rekstur, mönnun og fleiri atriði. Til að vernda viðkvæmt umhverfi norðurslóða hefur Pólkóðinn að geyma strangari kröfur um losun olíu, skólps, úrgangs og annarra mengandi efna frá skipum sem sigla um svæðið en gilda annars staðar.

Sem dæmi um kröfur Pólkóðans má nefna að hvers konar losun olíu á norðurslóðum er bönnuð og skulu öll olíuflutningaskip útbúin tvöföldum byrðingi. Notkun svartolíu sem eldsneytis er bönnuð við Suðurskautslandið og við norðurskautið eru skipaútgerðir hvattar til nota ekki svartolíu. Útgerðir eru einnig hvattar til að nota umhverfisvænar smurolíur. Öll losun farmleifa er bönnuð á svæðinu og sérstakar takmarkanir gilda um losun skólps og úrgangs. Eingöngu má losa skólp sem hreinsað hefur verið í viðurkenndri skólphreinsistöð að því gefnu að losunin fari fram langt frá landi og langt frá ís. Bannað er að losa matarúrgang á ís. Einnig er bannað að fleygja dýrahræjum fyrir borð. Þessar kröfur eru ítarlegri en sambærilegar kröfur MARPOL-samningsins (sjá kafla 7). Kröfur eru gerðar um sérþjálfun áhafna sem sigla um svæðið, auk þess sem skip þurfa að hafa sérhæfðan viðbragðs- og björgunarbúnað um borð til að bregðast við hættu sem skapast getur á svæðinu.

Pólkóðinn var fléttaður inn í bindandi reglur með breytingum á viðeigandi viðaukum MARPOL-samningsins og SOLAS-samningsins, sem tóku gildi fyrir ríki sem ekki hreyfðu mótmælum, m.a. Ísland, hinn 1. janúar 2017. Landfræðilegt gildissvið Pólkóðans nær almennt til allra svæða norðan 60. breiddargráðu, með þeirri undantekningu að hafsvæðið kringum Ísland er undanskilið. Línan er norðan við ystu mörk efnahagslögsögu Íslands í norðri og hefur Pólkóðinn því ekki bein áhrif á siglingar innan íslenskrar lögsögu. Kröfur hans munu engu að síður hafa ýmis áhrif hér á landi, enda þurfa íslensk skip sem sigla inn á áhrifasvæði kóðans að uppfylla kröfur hans.

Mynd 9.15. Landfræðilegt gildissvið Pólkóðans.