5.5 Ástand sjávar við Ísland

Sjávarútvegur er ein helsta uppspretta þjóðarauðs okkar Íslendinga. Því er afskaplega mikilvægt fyrir okkur að viðhalda hreinleika sjávar í lögsögunni og fylgjast vel með ástandi hafsins í kringum landið með tilliti til mengunarefna. Góðar niðurstöður geta enn fremur nýst í markaðssetningu. Í stefnumótun íslenskra stjórnvalda sem lýtur að málefnum hafsins kemur ætíð fram að Ísland skuli vera þátttakandi í alþjóðlegu samstarfi sem snýr að verndun hafsins, vera leiðandi á þessu málefnasviði og öðrum þjóðum fyrirmynd í umgengni við hafið.

Ísland er aðili að OSPAR-samningnum (sjá nánar kafla 8.3.2) og skal í samræmi við ákvæði samningsins safna upplýsingum um uppruna, dreifingu, styrk og áhrif efna sem geta verið skaðleg í umhverfi sjávar. Umhverfisstofnun heldur utan um vöktun í umhverfi sjávar og birtir niðurstöður á vefsíðu stofnunarinnar.

Fylgst hefur verið með styrk þrávirkra lífrænna efna og þungmálma í þorski á Íslandsmiðum frá árinu 1990. Mældur hefur verið styrkur PCB, HCB og DDE í þorsklifur en eiturefnin safnast fyrir í lifur og því mælist hæstur styrkur þeirra oftast í lifrinni. Eins og sjá má á mynd 5.10 hefur styrkur þessara þrávirku lífrænu efna í þorsklifur dregist nokkuð saman síðustu ár og áratugi í kjölfar banns við notkun þeirra. Dregið hefur þó minna úr styrk HCB en PCB og DDE í þorsklifur. Það skýrist af ólíkum uppsprettum þessara efna. Dregið hefur talsvert úr losun PCB og HCB í andrúmsloft hérlendis síðustu ár. HCB var notað í litlum mæli sem sveppaeitur en framleiðsla og notkun efnisins í þeim tilgangi hefur verið bönnuð síðan á áttunda áratug 20. aldar. HCB getur myndast við bruna, svo sem við brennslu úrgangs og jarðeldsneytis. Helstu uppsprettur losunar HCB í andrúmsloft hérlendis er brennsla á úrgangi frá sjúkrastofnunum, notkun flugelda, álframleiðsla og brennsla olíu um borð í fiskiskipum. Losun HCB í andrúmsloft hefur dregist talsvert saman síðustu ár en eftirlit með magni þess í flugeldum var hert verulega eftir að mælingar sýndu fram á mikinn styrk efnisins í flugeldum frá tilteknum framleiðendum. Helstu uppsprettur losunar PCB í andrúmsloft hér á landi eru brennsla úrgangs og brennsla olíu um borð í skipum. Mun meiri losun PCB-efna á sér stað þegar svartolíu er brennt um borð í skipum, en þegar um gasolíu er að ræða. Mikið hefur dregið úr losun PCB í andrúmsloft frá 1990. Kemur þar einkum tvennt til: lokun sementsverksmiðjunnar á Akranesi árið 2012 og bætt meðhöndlun úrgangs, en opin brennsla úrgangs dróst saman hérlendis og lagðist loks af árið 2004. Engar þekktar uppsprettur á DDE er að finna hérlendis eftir að notkun DDT var hætt. Efnið finnst hins vegar enn í umhverfinu vegna þess hve þrávirkt það er.

Matís mældi 6 PCB-efni og díoxín í holdi nokkurra fisktegunda (m.a. í þorski, ýsu, ufsa, síld og makríl) sem og í þorsklifur hér við land árið 2022. Styrkur PCB reyndist langt undir viðmiðunarmörkum sem eru 75 µg/kg af votvigt í fiskholdi en 200 µg/kg af votvigt fyrir lifur. Niðurstöðurnar voru mjög svipaðar fyrir díoxín.

Þungmálmurinn kadmíum (Cd) hefur verið mældur í þosklifur og kvikasilfur (Hg) í þorskholdi frá árinu 1990 (sjá mynd 5.10). Mælingar á styrk þungmálma í þorski hér við land benda til náttúrulegs styrks og náttúrulegs uppruna og ekki er að sjá neina sérstaka leitni í mælingunum. Matís mældi m.a. blý (Pb), kadmíum (Cd) og kvikasilfur í holdi nokkurra fisktegunda (m.a. í þorski, ýsu, ufsa, síld og makríl) sem og í þorsklifur hér við land árið 2022. Styrkur þungmálma í lífríki hér við land er lægri eða svipaður og á öðrum sambærilegum hafsvæðum. Undantekning er þó kadmíum sem mælist í hærri styrk í þorsklifur hér við land en á sambærilegum hafsvæðum, t.d. við Noreg. Uppspretta kadmíum er talin vera af náttúrulegum toga (hugsanlega tengt staðbundnu rofi nálægt Norður-Atlantshafshryggnum eða eldsumbrotum) þar sem engin teljandi manngerð uppspretta kadmíums er þekkt hér við land. Í þorski hefur verið sett umhverfisgæðakrafa fyrir styrk kvikasilfurs og er hún 20 µg/kg blautvigt. Styrkur kvikasilfurs hefur hinsvegar oftast mælst 20-30 µg/kg í þorskvöðvum. Þar sem ætla má að styrkur kvikasilfurs í þorski endurspegli bakgrunnsaðstæður hér við land er talið að styrkur þess sé að mestu vegna aðkomins kvikasilfurs.