5.5 Efnamengun í sjónum við Ísland

Sjávarútvegur er ein helsta uppspretta þjóðarauðs okkar Íslendinga. Því er afskaplega mikilvægt fyrir okkur að viðhalda hreinleika sjávar í lögsögunni og fylgjast vel með ástandi hafsins í kringum landið með tilliti til mengunarefna. Góðar niðurstöður geta enn fremur nýst í markaðssetningu. Í stefnumótun íslenskra stjórnvalda sem lýtur að málefnum hafsins kemur ætíð fram að Ísland skuli vera þátttakandi í alþjóðlegu samstarfi sem snýr að verndun hafsins, vera leiðandi á þessu málefnasviði og öðrum þjóðum fyrirmynd í umgengni við hafið.

Ísland er aðili að OSPAR-samningnum (sjá nánar kafla 8.3.2) og skal í samræmi við ákvæði samningsins safna upplýsingum um uppruna, dreifingu, styrk og áhrif efna sem geta verið skaðleg í umhverfi sjávar. Umhverfisstofnun heldur utan um vöktun í umhverfi sjávar og birtir niðurstöður á vefsíðu stofnunarinnar. Gögnunum er ennfremur skilað í gagnagrunn Alþjóðahafrannsóknaráðsins, ICES.

Fylgst hefur verið með styrk þrávirkra lífrænna efna og þungmálma í þorski á Íslandsmiðum frá árinu 1990. Mældur hefur verið styrkur PCB, HCB og DDE í þorsklifur en eiturefnin safnast fyrir í lifur og því mælist hæstur styrkur þeirra oftast þar. Uppruna þrávirkra lífrænna efna á íslenska hafsvæðinu má bæði rekja til uppsprettna á Íslandi og til aðfluttrar mengunar með haf- og loftstraumum. Eins og sjá má á mynd 5.10 hefur styrkur þessara þrávirku lífrænu efna í þorsklifur dregist nokkuð saman síðustu ár og áratugi í kjölfar banns við notkun þeirra um allan heim. Dregið hefur talsvert úr losun PCB og HCB í andrúmsloft hérlendis síðustu ár. HCB var notað í litlum mæli sem sveppaeitur en framleiðsla og notkun efnisins í þeim tilgangi hefur verið bönnuð síðan á áttunda áratug 20. aldar. HCB getur einnig myndast við bruna, svo sem við brennslu úrgangs og jarðeldsneytis. Helstu uppsprettur losunar HCB í andrúmsloft hérlendis er brennsla á úrgangi frá sjúkrastofnunum, notkun flugelda, álframleiðsla og brennsla olíu um borð í fiskiskipum. Losun HCB í andrúmsloft hefur sem fyrr segir dregist talsvert saman síðustu ár en eftirlit með magni þess í flugeldum var hert verulega eftir að mælingar sýndu fram á mikinn styrk í flugeldum frá tilteknum framleiðendum. Helstu uppsprettur losunar PCB í andrúmsloft hér á landi eru brennsla úrgangs og brennsla olíu um borð í skipum. Mun meiri losun PCB-efna á sér stað þegar svartolíu er brennt um borð í skipum, en þegar um gasolíu er að ræða. Mikið hefur dregið úr losun PCB í andrúmsloft hérlendis frá 1990. Kemur þar einkum tvennt til: lokun sementsverksmiðjunnar á Akranesi árið 2012 og bætt meðhöndlun úrgangs, en opin brennsla úrgangs dróst saman hérlendis á þessum árum og lagðist loks af árið 2004. Engar þekktar uppsprettur á DDE er að finna hérlendis eftir að notkun DDT var hætt. Efnið finnst hins vegar enn í umhverfinu vegna þess hve þrávirkt það er.

Matís mældi sex PCB-efni og díoxín í holdi nokkurra fisktegunda (m.a. í þorski, ýsu, ufsa, síld og makríl) sem og í þorsklifur hér við land árið 2022. Styrkur PCB reyndist langt undir viðmiðunarmörkum sem eru 75 µg/kg af votvigt í fiskholdi en 200 µg/kg af votvigt fyrir lifur. Niðurstöðurnar voru mjög svipaðar fyrir díoxín – flest gildi voru nálægt 0,3 ng/kg af votvigt í fiskholdi en leyfilegur hámarksstyrkur er 3,5 ng/kg.

Uppruna þungmálma á íslenska hafsvæðinu má bæði rekja til uppsprettna á Íslandi en einnig til  mengunar sem berst hingað með haf- og loftstraumum. Styrkur þungmálma í fiski hefur verið mældur frá árinu 1990 og á mynd 5.10 má sjá styrk kadmíums (Cd) í þorsklifur og kvikasilfurs (Hg) í þorskholdi frá þessum tíma. Mælingar á styrk þungmálma í þorski hér við land benda til náttúrulegs uppruna og ekki er að sjá skýra leitni í mælingunum. Styrkur þungmálma í lífríki hér við land er lægri eða svipaður og á öðrum sambærilegum hafsvæðum. Undantekning er þó kadmíum sem mælist í hærri styrk í þorsklifur hér við land en á sambærilegum hafsvæðum, t.d. við Noreg. Uppspretta kadmíums er talin vera af náttúrulegum toga (hugsanlega tengt staðbundnu rofi nálægt Norður-Atlantshafshryggnum eða eldsumbrotum) þar sem engin teljandi manngerð uppspretta kadmíum er þekkt hér við land.

Matís mældi m.a. blý (Pb), kadmíum (Cd) og kvikasilfur (Hg) í holdi nokkurra matfisktegunda (m.a. í þorski, ýsu, ufsa, síld og makríl) sem og í þorsklifur hér við land árið 2022. Styrkur málmanna reyndist langt undir hámarksstyrk mengunarefna í matvælum. 

Þungmálmar og þrávirk lífræn efni hafa verið mæld í kræklingi á nokkrum stöðum í kringum landið frá 2003 ef frá eru skilin árin 2013-2017. Árlega eru fimmtíu kræklingar teknir á hverjum stað og þeir sameinaðir í eitt sýni. Á mynd 5.11 má sjá staðsetningu sýnatökustaða og meðalstyrk þungmálma (arsens, kadmíum, kvikasilfurs) og þrávirkra lífrænna efna (DDE, HCB, HCH, PCB, trans-nonochlor) í kræklingnum. Áhugavert er að skoða muninn á styrk efnanna eftir landshlutum. Styrkur kadmíum mælist nokkuð hár við Norður- og Austurland. Talsverð arsenmengun greindist við Úlfsá skammt frá Ísafirði en ekki hefur tekist að skýra uppruna þess. Ef mengunin hefði tengst sorpbrennslu í Funa á Ísafirði, þá hefðu önnur efni sem tengjast brennslu (t.d. HCB) að mælast líka há, en það var ekki tilfellið. Styrkur þrávirkra lífrænna efna í kræklingi er hæstur í Hvalfirði.

Mynd 5.11. Styrkur þrávirkra lífrænna efna og þungmálma í kræklingi á sýnatökustöðum um landið.

Aðgengileg næringarefni berast á íslenska hafsvæðið og leggja grunninn að frjósemi þess, sem stendur m.a. undir fiskveiðum þjóðarinnar. Sem fyrr segir getur ofgnótt næringarefna valdið ofauðgun þar sem vatnsskipti eru ónóg (sjá kafla 5.2). Styrkur næringarefna (nítrats og fosfats) hefur verið vaktaður í Faxaflóa frá árinu 2005 á níu stöðvum sem ná frá Akranesi og út yfir landgrunnsbrún. Styrkur næringarefna í sjó er breytilegur eftir árstíma og því fer vöktun fram um hávetur þegar styrkurinn er í árlegu hámarki og áhrif lífríkisins hvað minnst. Niðurstöður mælinganna benda ekki til mengunar af völdum næringarefna. Vatnsskipti við strendur landsins eru yfirleitt hröð og losun næringarefna því ekki líkleg til að valda hættu á ofauðgun. Hér við land eru fáar stórar uppsprettur næringarefna og sjávarstraumar oftast sterkir. Ekki eru þekkt dæmi um næringarefnaofauðgun í sjónum hér við land. Þó þarf að fylgjast vel með staðbundnum áhrifum þar sem mikið magn næringarefna er losað út í umhverfið (t.d. í nágrenni sláturhúsa og fiskeldis) þar sem vatnsskipti eru hugsanlega ónóg.

Fiskeldi hérlendis hefur vaxið hratt síðustu ár. Árið 2023 voru framleidd rúmlega 40.000 tonn  í sjókvíum og hefur framleiðsla vaxið verulega frá árinu 2015 þegar hún var 3.500 tonn. Langmest er framleitt af laxi. Í laxeldi í sjó eru notuð um 1,0-1,5 kg af fóðri á hvert kg af laxi. Nokkur hluti fóðursins fer til spillis og flýtur annað hvort burt með straumum eða sekkur til botns. Eitthvað af því nýtist hugsanlega öðrum dýrum en stærstur hluti fellur til botns og rotnar, ásamt úrgangi frá löxunum sjálfum. Í rotnunarferlinu myndast koldíoxíð og/eða metan, eftir því að hve miklu leyti súrefni kemst að efninu, en það ræðst væntanlega bæði af dýpi og straumum sem og af magni lífrænna úrgangsefna og súrefnisaðstæðum við botninn. Ef aðstæður verða loftfirrðar myndast í einhverjum mæli brennisteinsvetni (H2S) og ammoníaki (NH3). Þessi efni eru eitruð fyrir laxa og því myndi uppstreymi þeirra undir sjókvíum leiða til verulegra vanhalda í kvíunum. Af þessum sökum eru kvíarnar stundum fluttar til. Nokkuð er notað af eiturefnum í laxeldi. Stundum eru efni sem innihalda kopar notuð til að varna þess að gróður taki sér bólfestu á kvíunum og netpokunum. Síðustu ár hafa lúsafaraldrar komið upp í laxeldi við Íslands strendur. Fram að þeim tíma hafði verið talið að laxalúsin gæti ekki lifað í svo köldum sjó. Til að bregðast við lúsinni hefur notkun eiturefna verið leyfð. Eiturefnin geta dreifst um firðina og valdið öðru lífríki skaða.