1.7 Mengun sjávar

Mengandi efni lenda í hafinu vegna haftengdrar starfsemi, s.s. sjávarútvegs, siglinga og olíuvinnslu. Stór hluti þeirrar mengunar sem á endanum lendir í hafinu á hins vegar uppruna sinn í landi. Með aukinni iðnvæðingu fóru menn smám saman að líta á sjóinn sem ruslakistu fyrir alls konar úrgang. Vegna hringrásar efnis og orku í vistkerfinu berast mengunarefnin hins vegar aftur til okkar t.d. með úrkomu eða í sjávarfangi, þótt það sé kannski löngu síðar og langt frá uppsprettum mengunarinnar.

Mynd 1.6. Uppsprettur mengunarefna í sjónum.

Mengandi efni berast til sjávar með loftstraumum, með árvatni þegar ár renna til sjávar og fyrir tilstilli beinnar losunar vegna athafna manna (haftengd starfsemi, iðnaður, frárennsli, og afrennsli af landbúnaðarlandi). Loftstraumar eru hraðir og eiga því stóran þátt í dreifingu mengunarefna. Mengunarefni geta borist með loftstraumum langar leiðir frá upprunastað sínum. Efnin falla svo út með úrkomu eða þurri ákomu. Mikið magn efna, hvort sem um er að ræða efni af náttúrulegum uppruna eða mannagerð efni, berst með ám til sjávar. Þegar efnin hafa borist til sjávar geta þau bæði fallið til botns og myndað sjávarset, eða borist áfram til annarra staða með lífverum eða hafstraumum og jafnvel gufað aftur upp og borist áfram með loftstraumum. Mengandi efni, sem bundin eru djúpt í sjávarseti og ekki lengur aðgengileg lífríki, geta komist aftur í hringrás og orðið aðgengileg lífverum vegna framkvæmda (t.d. dýpkunaraðgerða).

Mengandi efni í sjónum og sjávarseti eru aðgengileg lífverum. Lífaðgengi vísar til þess hlutfalls af heildarmagni eða -styrk mengunarefnis sem sjávarlífvera getur tekið upp og er háð eiginleikum mengunarefnisins, umhverfisaðstæðum (hitastigi, sýrustigi, seltu) og hegðun og lífeðlisfræðilegum eiginleikum lífverunnar. Mörg mengunarefni geta lífsafnast og jafnvel lífmagnast. Með lífsöfnun er átt við að mengunarefni safnist með tímanum fyrir í lífverum innan sama fæðuþreps yfir tíma, þar sem lífverurnar taka efnið hraðar upp en sem samsvarar niðurbroti efnisins í lífverunni. Lífmögnun á sér stað þegar styrkur mengunarefnis í lífverum eykst eftir því sem ofar kemur í fæðukeðjunni.

1.7. Lífmögnun. Styrkur mengunarefnis hækkar því ofar sem komið er í fæðukeðjunni.

Mikilvægt er að stöðva losun mengunar við upptök því að allar aðgerðir eru erfiðari og dýrari eftir að mengunin hefur náð til sjávar. Í því skyni hefur verið gripið til ýmissa aðgerða á síðustu árum og áratugum. Í starfsleyfum fyrirtækja eru t.a.m. ákvæði um loftmengun, frárennsli, efnismeðhöndlun og förgun úrgangs. Gerðir hafa verið alþjóðlegir samningar til að takmarka mengun frá bæði sjávartengdri og landtengdri starfsemi.