8.7 Viðbrögð vegna bráðamengunar á hafi

Fjallað er um viðbúnað og viðbrögð vegna bráðamengunar í lögum um varnir gegn mengun hafs og stranda. Kröfur íslenskrar löggjafar um þessa þætti hafa tekið talsverðum breytingum á síðustu áratugum og líkt og á við um alþjóðasamninga hefur lagaþróunin hérlendis að nokkru miðast við að bæta úr vanköntum sem komið hafa í ljós í tengslum við tiltekin óhöpp. Mengunarslys á íslenskum hafsvæðum hafa þó sem betur ferið verið fátíð og tekist hefur að afstýra stórfelldu mengunartjóni þegar slys hafa orðið, t.d. þegar flutningaskipið Víkartindur strandaði á Háfsfjöru skammt austan ósa Þjórsár í mars 1997 og þegar flutningaskipið Wilson Muuga strandaði við Hvalnes sunnan við Sandgerði í desember 2006.

Mynd 8.11. Víkartindur á strandstað í Háfsfjöru.

Þrátt fyrir að betur færi en á horfðist leiddi strand Víkartinds árið 1997 í ljós ýmsa galla á íslenskri löggjöf og stjórnsýslu í tengslum við viðbúnað og viðbrögð vegna bráðamengunar. Í skýrslu sem unnin var fyrir stjórnvöld í kjölfar slyssins kom fram að verkaskipting viðbragðsaðila hafi verið bæði flókin og óljós í löggjöfinni og að ekki hafi verið skýrt hvaða aðili skyldi sjá um yfirstjórn aðgerða á vettvangi. Lögum um varnir gegn mengun hafs og stranda var ætlað að bæta úr þessum annmörkum og þau hafa að geyma ítarlegri ákvæði en eldri lög um þætti á borð við ábyrgðarskiptingu stjórnvalda á vettvangi bráðamengunarslysa og íhlutun.

Samkvæmt lögum um mengun hafs og stranda er öllum höfnum landsins skylt að gera viðbragðsáætlun vegna bráðamengunar innan hafnarsvæða. Utan hafnarsvæða er slík áætlun hins vegar verkefni Umhverfisstofnunar í samstarfi við Landhelgisgæslu Íslands, Samgöngustofu og Vegagerðina. Hafnir, Umhverfisstofnun og Landhelgisgæsla Íslands þurfa auk þess að hafa yfir að ráða fullnægjandi búnaði til að takast á við mengunaróhöpp. Mismunandi er hversu umfangsmikill mengunarvarnabúnaður þarf að vera til í höfnum, en það ræðst af því hversu mikil áhætta fylgir viðkomandi hafnarrekstri. Sem dæmi má nefna að stórar olíuhafnir, iðnaðarhafnir og stærri flutningahafnir skulu búa yfir 150-300 m af flotgirðingu, olíuupptökutæki, ísogsefnum, dreifiefnum og öðrum skyldum búnaði. Minni kröfur eru gerðar til smærri hafna, s.s. meðalstórra fiskihafna, smærri vöruflutningahafna og smábáta- og skemmtihafna. Hafnarstjóri skal sjá til þess að starfsmenn hafnarinnar séu þjálfaðir til að nota búnaðinn og að reglulega séu haldnar mengunarvarnaæfingar innan við­kom­andi hafnarsvæðis.

Mynd 8.12. Forsíður viðbragðsáætlana.

Viðbrögð vegna bráðamengunar eru mismunandi eftir því hvort mengunin á sér stað innan eða utan hafnarsvæðis. Ef bráðamengun verður innan hafnarsvæðis skal tafarlaust tilkynnt um hana til hafnarstjóra. Skyldan til að tilkynna um mengun hvílir á þeim sem er valdur að menguninni og einnig hverjum þeim sem verður var við mengun. Þegar hafnarstjóra berst tilkynning um bráðamengun ber honum þegar í stað að grípa til viðeigandi bráðaaðgerða til að hefta útbreiðslu og koma í veg fyrir frekara tjón vegna mengunarinnar. Höfnum er heimilt að fela slökkviliðsstjóra hlutverk í tengslum við bráðamengun. Faxaflóahafnir sf. hafa t.d. gert samning við Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins um aðstoð við mengunaróhöpp í höfnum sínum. Eftir að bráðaaðgerðum er lokið getur hafnarstjóri falið mengunarvaldinum sjálfum framkvæmd hreinsunar og getur lagt gjöld á mengunarvaldinn vegna kostnaðar sem hlaust af aðgerðum.

Ef bráðamengun verður utan hafnarsvæðis kemur það í hlut Umhverfisstofnunar að tryggja að bráðaaðgerðir hefjist og að annast stjórn á vettvangi. Ýmis önnur stjórnvöld geta einnig komið að bráðaaðgerðum, t.d. Samgöngustofa, Vegagerðin, Landhelgisgæsla Íslands og heilbrigðisnefndir sveitarfélaga. Eins og fjallað var um í kafla 8.3.6 geta íslensk stjórnvöld kallað eftir aðstoð nágrannaríkja vegna mengunarslysa í íslenskri lögsögu á grundvelli alþjóðasamninga og aðildar Íslands að Siglingaöryggisstofnun Evrópu.

Í lokin er rétt að nefna að Landhelgisgæsla Íslands hefur heimild til að grípa til íhlutunar og eftir atvikum að taka yfir stjórn skips ef nauðsyn krefur til að koma í veg fyrir eða draga úr hættu vegna bráðamengunar.