5. Efnamengun

5.1 Inngangur

Daglega berst mikið magn efna út í umhverfið. Mörg þessara efna eru nauðsynleg til að viðhalda lífi en ýmis efni og efnasambönd geta einnig safnast fyrir, tímabundið eða varanlega, og valdið mengun.

Sum mengunarefni, eins og þungmálmar og næringarefni, eru upprunnin í náttúrunni. Náttúrulegur styrkur þeirra er breytilegur frá einum stað til annars og nátengdur staðbundnum umhverfisaðstæðum. Veðrun og rof valda því að þungmálmar berast til sjávar. Þeir geta einnig borist í auknum mæli út í umhverfið vegna athafna manna (s.s. námuvinnslu, olíuvinnslu, iðnaðar o.fl). Næringarefni geta einnig borist í auknum mæli út í umhverfið af mannavöldum (t.d. með afrennsli af landbúnaðarlandi, með fráveitum o.fl.).

Önnur mengunarefni eru manngerð og finnast því í umhverfinu eingöngu fyrir tilstilli manna. Hér er um að ræða t.d. lífræn tinsambönd, þrávirk lífræn efni svo sem plágueyða sem notaðir eru í landbúnaði, eldvarnarefni og ýmis efni sem notuð eru í iðnaði og í neysluvörur. Í Evrópu eru um 100.000 efni á markaði. Sum þessara efna eru hættuleg vegna þess að þau eru þrávirk, eitruð og safnast fyrir í lífverum. Efni geta mengað sjóinn með slæmum afleiðingum fyrir sjávarlífverur og jafnvel okkur mannfólkið þegar við neytum sjávarfangs.

Mynd 5.1. Vinstra megin: Þörungablómi í Eystrasalti vegna næringarefnaofauðgunar. Hægra megin: Mengunarefni upprunnin í iðnaði geta borist með loftstraumum og fráveituvatni til sjávar.

Hættuleg efni finnast í sjónum, sjávarseti og sjávarlífverum um heim allan. Nálægt þéttbýlum svæðum og iðnaðarsvæðum getur styrkur hættulegra efna í seti og sjávarlífverum ógnað lífríki sjávar og haft ýmis líffræðileg áhrif. Mengun getur komist á það stig að sjávarfang verði hættulegt heilsu fólks, sé þess neytt.

Tveir alþjóðasamningar hafa verið samþykktir til að sporna við mengun sjávar af völdum hættulegra efna, annars vegar MARPOL-samningurinn sem tekur á losun frá skipum og hins vegar OSPAR-samningurinn sem er ætlað að draga úr mengun frá uppsprettum á landi sem og mengun af völdum varps og brennslu og mengun frá uppsprettum á hafi (s.s. borpöllum), sjá nánar kafla 8.3. Sýnilegur árangur hefur náðst í að draga úr losun og styrkur flestra mengunarefna fer lækkandi í Norður-Atlantshafi en þar sem mörg efnanna eru hættuleg, þrávirk og safnast fyrir í lífríkinu er mikilvægt að fylgjast vel með styrk þeirra.

Í janúar 2016 fannst dauður háhyrningur við eyjuna Tiree við Skotland. Háhyrningurinn hlaut nafnið Lulu. Talið er að Lulu hafi drepist eftir að hafa fest sig í veiðarfærum. Sjaldan eða aldrei hefur greinst eins mikið magn af alls kyns eiturefnum í sjávarlífveru eins og greindust í Lulu. Styrkur PCB í fituvef Lulu var um 950 mg/kg eða meira en hundraðfalt yfir þeim styrk sem talinn er hafa áhrif á heilsu sjávarspendýra. Krufning leiddi í ljós að Lulu hafði aldrei eignast afkvæmi en PCB er einmitt talið hafa áhrif á frjósemi.

Haustið 2013 syntu grindhvalir á land á Snæfellsnesi. Nokkuð var um að fólk færi á staðinn og næði sér í bita. Matvælastofnun og Embætti landlæknis vöruðu þó fólk við að leggja sér kjötið til munns. Kjöt grindhvala inniheldur mikið magn kvikasilfurs og þrávirkra lífrænna efna á borð við díoxín og PCB.

 

Efnamengun í sjónum er í aðalatriðum tvenns konar. Annars vegar er um að ræða náttúruleg efni, þ.e. efni sem finnast í náttúrunni en eru mengandi þegar styrkur þeirra á ákveðnum stað verður meiri en náttúran ræður við – yfirleitt vegna athafna manna, þó náttúrulegir atburðir (t.d. eldgos) geti einnig valdið mengun. Hér er t.d. átt við næringarefni sem eru nauðsynleg til vaxtar og viðhalds lífvera en geta valdið ofauðgun og súrefnisskorti verði styrkur þeirra í umhverfinu of mikill. Enn fremur getur þetta átt við um þungmálma. Hins vegar er um að ræða mengun vegna manngerðra efna. Hér á eftir verður fjallað nánar um þrenns konar mengun af völdum mismunandi efna: Næringarefnaofauðgun, þungmálmamengun og mengun vegna manngerðra efna, sér í lagi þrávirkra lífrænna efna.