7. Umhverfisáhrif siglinga

7.1 Inngangur

Fiskveiðar eru einn mikilvægasti atvinnuvegur Íslendinga og sjávarfang nokkuð oft á diskum landsmanna, þó að neysla þess hafi farið minnkandi á síðustu árum og áratugum. Höfin gegna reyndar stóru hlutverki fyrir fæðuöflun alls mannkyns. Á heimsvísu reiðir um milljarður manna sig á sjávarfang sem helstu uppsprettu prótíns í fæðu.

Höfin gegna stóru hlutverki í mörgu öðru en fæðuöflun. Þau flytja t.d. varma frá miðbaug til pólsvæða og tempra þannig loftslag. Helmingur þess súrefnis sem við öndum að okkur myndast þegar plöntusvif í sjónum ljóstillífar. Við notum höfin til afþreyingar, t.d við sportveiðar, skemmtisiglingar og hvalaskoðun. Og síðast en ekki síst notum við höfin til að flytja vörur.

Siglingar um höfin hafa margs konar áhrif á umhverfið, hver svo sem tilgangur siglinganna er (fiskveiðar, fólks- og vöruflutningar eða annað). Helstu áhrifin eru þessi:

 • olíumengun,
 • losun ýmissa efna og efnasambanda,
 • losun skólps og úrgangs,
 • loftmengun vegna notkunar efna og eldsneytis um borð,
 • flutningur framandi lífvera milli hafsvæða með kjölfestuvatni.

Í þessum kafla verður fjallað um framangreinda þætti. Auk þessara áhrifa getur hávaði og beinir árekstrar vegna siglinga haft áhrif á lífríki sjávar en ekki verður fjallað frekar um þá þætti hér. Ekki verður heldur fjallað um áhrif veiðarfæra.

Mynd 7.1. Umhverfisáhrif siglinga.

Siglingar eru hnattrænn atvinnuvegur og mikilvægt er að samræmdar reglur gildi um þær hvar í heiminum sem er. Mengun virðir auk þess engin landamæri, hvað þá lögsögu einstakra ríkja. Af þessum ástæðum byggja flestallar reglur um mengun hafs á alþjóðlegum samningum. MARPOL-samningurinn er mikilvægasti alþjóðasamningurinn sem fjallar um mengun frá skipum. Samningurinn, sem heitir fullu nafni Alþjóðasamningur um varnir gegn mengun frá skipum, er rammasamningur sem inniheldur nánari útfærslu í 6 viðaukum. Þeir eru:

 • Viðauki I: Varnir gegn olíumengun frá skipum.
 • Viðauki II: Varnir gegn mengun vegna eitraðra efna í fljótandi formi sem flutt eru í geymum skipa.
 • Viðauki III: Varnir gegn mengun af völdum hættulegra efna sem flutt eru í pökkuðu formi.
 • Viðauki IV: Varnir gegn skólpmengun frá skipum.
 • Viðauki V: Varnir gegn sorpmengun frá skipum.
 • Viðauki VI: Varnir gegn loftmengun frá skipum.

Í MARPOL-samningnum og viðaukum hans er að finna ákvæði til að draga úr mengun – bæði hvað varðar siglingatæknileg atriði og atriði er varða rekstur skipa. Einnig eru skilgreind sérhafsvæði og fjallað um skyldur hafna til að taka við alls kyns úrgangi (s.s. úrgangsolíu, sorpi, skólpi o.fl.). Sérhafsvæði er hafsvæði sem þarfnast sérstakrar verndar. Þar gilda strangari reglur um varnir gegn mengun en á öðrum hafsvæðum. Samningur um kjölfestuvatn og Samningur um gróðurhindrandi efni eru aðrir alþjóðasamningar sem rétt er að nefna. Nánari umfjöllun um alþjóðasamninga er að finna í kafla 8.

Mynd 7.2. Sérhafsvæði skv. viðaukum MARPOL-samningsins. Rómversku númerin í sviganum vísa til viðauka I-VI við samninginn. Viðauki I tekur á olíumengun, II á efnamengun, IV á skólpmengun, V á sorpmengun og VI á loftmengun (nánar er fjallað um NECA og SECA í kafla 7.5).