8.1 Inngangur
Mengun frá skipum er að verulegu leyti alþjóðlegt viðfangsefni enda berast mengunarefni óhindrað yfir landamæri og lögsögumörk á hafinu. Alþjóðasamningar skipta því miklu máli fyrir verndun hafsins gegn mengun frá skipum, m.a. samningar sem fjalla um losun mengunarefna í haf og loft, hönnun og mengunarvarnabúnað skipa og viðbrögð við bráðamengun hafs og stranda. Alþjóðasamningar sem varða siglingaöryggi, þjálfun áhafna og leiðarstjórnun koma einnig að gagni við að draga úr mengun frá skipum, enda dregur örugg ferð skipa um heimsins höf úr hættunni á mengunarslysum.
Ísland tekur þátt í margvíslegu alþjóðlegu og svæðisbundnu samstarfi til að draga úr mengun frá skipum og hefur fullgilt ýmsa alþjóðasamninga á þessu sviði. En hvað eru alþjóðasamningar? Hvernig verða þeir til og hvernig er hægt að stuðla að því að stjórnendur skipa fylgi kröfum alþjóðasamninga um mengunarvarnir?
Alþjóðasamningar eru ein af helstu réttarheimildum þjóðaréttarins. Þeir eru gjarnan samþykktir eða undirritaðir á ríkjaráðstefnum um tiltekin málefni eða á vettvangi alþjóðastofnana eins og Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar.
Til þess að alþjóðasamningur öðlist gildi þarf vanalega ákveðinn fjöldi ríkja að fullgilda samninginn, þ.e.a.s. lýsa yfir með formlegri tilkynningu að viðkomandi ríki vilji eiga aðild að honum. Auk þess mæla samningarnir oft fyrir um fleiri skilyrði fyrir gildistöku. Alþjóðasamningur um kjölfestuvatn frá árinu 2004 setur t.d. eftirfarandi skilyrði: a) fullgildingar hafi borist frá a.m.k. 30 ríkjum og b) viðkomandi ríki séu samanlagt ábyrg fyrir a.m.k. 35% af samanlögðum kaupskipaflota heims, mælt í brúttótonnum. Auk þess þurftu 12 mánuðir að líða frá því að tilskildum fjölda fullgildinga var náð þar til samningurinn tæki gildi. Þrettán ár tók að uppfylla þessi skilyrði og tók samningurinn gildi árið 2017.
Alþjóðasamningar binda yfirleitt aðeins þau ríki sem hafa fullgilt viðkomandi samning. Þó eru dæmi um að ríki verði bundin af efni alþjóðasamnings án fullgildingar. Til dæmis er viðurkennt að flest ákvæði Hafréttarsáttmálans, m.a. ákvæðin um vernd hafsins, hafi stöðu þjóðréttarvenju og bindi þar með öll ríki óháð því hvort þau hafi gerst aðilar að samningnum. Í þessu samhengi má nefna að Bandaríkin hafa ekki fullgilt Hafréttarsáttmálann en hafa engu að síður fylgt ákvæðum hans í áraraðir og viðurkenna að samningurinn endurspegli gildandi venjurétt. Einnig má nefna að MARPOL-samningurinn hefur að geyma athyglisvert frávik frá kröfunni um fullgildingar ríkja, en breytingar á viðaukum samningsins byggjast á svokölluðu þöglu samþykki. Í því felst að aðilar viðaukanna verða bundnir af breytingum sem samþykktar eru af tveimur þriðju hlutum aðila MARPOL-samningsins, nema þeir lýsi yfir andstöðu við breytingarnar innan tiltekins tíma.
Fjölmargir alþjóðasamningar varða mengun frá skipum með einum eða öðrum hætti og er fjallað um nokkra þeirra í þessum kafla. Mikilvægt er að hafa í huga að alþjóðasamningar duga ekki einir og sér til að draga úr mengun frá skipum, heldur þurfa ríki að innleiða efni samninganna í eigin lög og reglur. Ríkin sjá einnig sjálf um að framfylgja slíkum reglum, enda starfar engin alþjóðleg eftirlits- eða löggæslustofnun á hafi úti. Í þessu sambandi reynir á lögsögureglur þjóðaréttarins, en þær segja til um hvaða ríki mega setja reglur um mengun frá skipum á tilteknum hafsvæðum. Lögsögureglurnar fjalla einnig um það hvaða ríki hafa heimildir til að grípa til aðgerða, m.a. eftirlitsúrræða og viðurlaga, vegna mengunarbrota á mismunandi hafsvæðum.
Hér á eftir verður fjallað um Hafréttarsáttmálann og nokkur ákvæði hans sem varða mengun frá skipum og lögsögu ríkja á hafinu. Einnig verður litið til annarra alþjóðasamninga sem varða mengun sjávar frá skipum, m.a. MARPOL-samningsins og OSPAR-samningsins, auk þess sem fjallað verður um samninga sem fjalla um losun efna í andrúmsloft frá skipum. Næst verður fjallað um megindrætti íslenskrar löggjafar sem innleiðir alþjóðareglur um mengun frá skipum og sérstaklega vikið að reglum um skoðun skipa og viðbrögð vegna bráðamengunar.