4.4 Plastið í sjónum

Eins og áður sagði hefur framleiðsla plasts aukist ár frá ári og frá árinu 2015 hafa verið framleidd meira en 300 milljón tonn af plasti árlega í heiminum. Talið er að á hverju ári lendi um 8-10 milljónir tonna af plasti (eða um 3% af ársframleiðslunni) í sjónum. Það jafngildir nærri 300 kg á hverri einustu sekúndu!

Samtals hafa frá upphafi verið framleidd meira en 9.000 milljónir tonna af plasti. Þar sem það tekur plast óralangan tíma að brotna niður má gera ráð fyrir að stærsti hlutinn af þessu plasti sé enn til staðar – nánar tiltekið allt plast sem framleitt hefur verið, nema sá hluti þess sem hefur verið brenndur. Talið er að um 100 milljónir tonna af plastúrgangi sé að finna í höfunum, ef ekki meira, og að í sjónum sé að finna meira en 5 milljarða plastagna! Talið er að um 70% plastsins sökkvi til botns, um 15% fljóti um í vatnsmassanum og að um 15% skoli upp á land og strendur. Margar strendur eru mikið mengaðar af plasti og víða er plastúrgangur reglulega hreinsaður af ströndinni, með tilheyrandi fyrirhöfn og kostnaði.

Mynd 4.9. Plastúrgangur á hafsbotni, á strönd og á floti í vatnsmassanum.

Plastið í sjónum á rætur að rekja til neyslumynsturs okkar og til framleiðslu- og starfshátta. Plast sem við notum einu sinni og hendum svo frá okkur á götuna – eins og sumir gera því miður enn – mun enda í sjónum. Annað hvort fýkur það beint út í sjó eða lendir í niðurföllum fyrir ofanvatn og fer í sjóinn með fráveitulögnum. Í gömlum hverfum á höfuðborgarsvæðinu fer ofanvatn reyndar með skólpi í gegnum skólphreinsistöðvar þar sem allar stærri plastagnir og grófari úrgangur er sigtaður frá áður en skólpið rennur í sjóinn en minni plastagnir, sem t.d. myndast við slit á dekkjum, berast til sjávar. Plast lendir einnig í sjónum vegna fleiri athafna okkar, sem og vegna ýmiss konar iðnaðar og starfsemi. Í töflu 4.1 er að finna helstu uppsprettur plastmengunar í sjó, skipt niður á sjávartengda starfsemi annars vegar og athafnir og starfsemi í landi hins vegar.

Tafla 4.1. Uppsprettur plastsins í sjónum, annars vegar frá sjávartengdri starfsemi og hins vegar frá athöfnum og starfsemi í landi.
Sjávartengdar uppspretturUppsprettur frá landi
Úrgangur frá skipum:
  • Kaupskip (farmur, búnaður, o.fl.)
  • Herskip, rannsóknaskip
  • Einkaskip
  • Ferjur

Einstaklingar:
  • Rusl sem íbúar skilja eftir á víðavangi
  • Rusl tengt ferðamennsku
  • Viðburðir (t.d. blöðrusleppingar)
Sjávarútvegur:
  • Fiskiskip
  • Veiðarfæri
  • Fiskeldi
Starfsemi:
  • Iðnaðar- og framleiðsluútfall (t.d. plastperlur, hliðarafurðir)
  • Byggingarsvæði og niðurrifssvæði
  • Hafnir
  • Slippur
  • Landbúnaður
Annað:
  • Lögleg og ólögleg losun í hafið
  • Olíu- og gasvinnsla á sjó
Sveitarfélög:
  • Óviðunandi meðhöndlun úrgangs
  • Urðunar- og móttökustaðir úrgangs nálægt árbakka eða ströndum
  • Ómeðhöndlað skólp
Tilfærsla plastúrgangs:
  • Náttúrulegir atburðir (flóðbylgjur, stormar, úfinn sjór)
Tilfærsla plastúrgangs:
  • Ár og flóð
  • Losun frá fráveitukerfi
  • Stormar
  • Óhöpp og slys

Plast finnst nú hvar sem er í heimshöfunum, allt frá miðbaugi til heimskauta og allt frá efstu lögum sjávar niður á botn. Á ákveðnum stöðum í heimshöfunum hefur þó safnast fyrir meira plast en annars staðar. Þessi samsöfnun á plasti á sér stað þar sem hafstraumar hafa beint plasti og öðrum úrgangi inn á afmarkað svæði. Þar hefur safnast svo mikið af plasti að talað er um plasteyjar eða plastfláka. Alls hafa fimm plastflákar verið skilgreindir: einn á norðanverðu Kyrrahafi, annar á sunnanverðu Kyrrahafi, sá þriðji á norðanverðu Atlantshafi, sá fjórði á sunnanverðu Atlantshafi og sá fimmti á Indlandshafi. Flákinn í norðanverðu Kyrrahafi er sá stærsti.

Mynd 4.10. Staðsetning plastflákanna í heimshöfunum.

Stór hluti plastsins í sjónum á rætur að rekja til veiðarfæra- og umbúðaúrgangs, en einnig er þar að finna mikið magn plastagna eða örplasts. Örplast eru plastagnir sem eru minni en 5 mm í þvermál. Örplast í sjónum hefur annað hvort orðið til við niðurbrot stærri plasthluta í sjónum eða borist til sjávar frá landi. Örplast sem berst til sjávar getur verið af ýmsum toga, en nýlegar rannsóknir benda til að stærstur hluti þess komi úr slitnum hjólbörðum. Aðrar mikilvægar uppsprettur eru t.d. plastmálning, framleiðslutap í plastframleiðslu og fataþvottur (þegar um er að ræða fatnað úr gerviefnum, s.s. flís). Þá innihalda einnig sumar snyrtivörur örplastagnir sem skolast í niðurföll eftir notkun og þaðan beint út í sjó.

Árið 2017 tók Landvernd þátt í samnorrænu verkefni sem fólst í að safna rusli á strandsvæðum og greina það. Langstærsti hluti ruslins sem safnaðist, eða 87%, reyndist vera plast. Uppruna plastsins má rekja til almennrar neyslu (36%), sjávarútvegs (35%), iðnaðar (24%), hreinlætisvara (1%) og annarra uppsprettna (4%).

Haf- og vatnarannsóknir (áður Hafró) hafa frá árinu 2004 tekið myndir af ýmsum svæðum á hafsbotni við Ísland í tengslum við verkefnið Kortlagning búsvæða á hafsbotni. Helsti tilgangurinn er að finna, mynda og skrá viðkvæm búsvæði. Allt rusl sem sást við úrvinnslu myndefnisins var skráð. Árið 2022 var gefin út skýrsla þar sem farið er yfir dreifingu og samsetningu rusls á hafsbotni út frá ofannefndu myndefni. Niðurstaða greiningarinnar var sú að langstærsti hluti ruslsins sé einhvers konar plast, sem megi rekja til veiðarfæra svo sem fiskilína og trollneta. Áberandi var að línur og trollnet fundust flækt við eða innan um kórala og steina. Línur og trollnet geta skemmt viðkvæm búsvæði eins og kóralbreiður sem geta verið mjög lengi að jafna sig eftir skemmdir þar sem kóralar eru hægvaxta. Hlutfallslega lítið sást af almennu rusli.