2. Olía og olíumengun

2.1 Inngangur

Mannkynið notar óheyrilega mikið magn af olíu, eða árlega um 35 milljarða olíutunna. Það samsvarar meira en 5500 milljörðum lítra á ári, eða um 635 milljónum lítra á hverri klukkustund. Við höfum á ótrúlega stuttum tíma orðið miklu háðari olíu en við gerum okkur grein fyrir dags daglega. Við notum olíu óbeint til framleiða matvælin okkar, bæði sem eldsneyti á dráttarvélar og til að búa til alls kyns hjálparefni í landbúnaði (t.d. áburð og skordýraeitur). Við notum olíu á skipin sem veiða fiskinn, olíuefni til að búa til veiðarfæri og olíu til að flytja fisk og aðra matvöru til okkar frá framleiðendunum. Við notum olíu til að knýja bílana okkar – og svo að sjálfsögðu á flugvélar og skip. Við notum olíuafurðir til að búa til lyf og alls kyns efni, þar á meðal plast. Mengun hlýst af olíu á öllum stigum: við hráolíuvinnslu, við flutninga á hráolíu með leiðslum og skipum í olíuhreinsistöð, í olíuhreinsistöðvum þar sem hráolía er sundurgreind í mismunandi olíuafurðir, við flutning olíuafurða þaðan bæði með leiðslum og í stórum tankskipum til dreifingaraðila og viðskiptavina, og síðast en ekki síst við notkun olíu – bæði þegar olía lekur og þegar olía er brennd. Mikið magn af olíu lendir í sjónum á hverju ári, bæði vegna starfsemi, viljandi losunar, leka og óhappa. Þar getur olían valdið lífríkinu talsverðum skaða.

Mynd 2.1. Mengun hlýst af olíu við vinnslu hennar (til vinstri), við olíuhreinsun og olíuefnaframleiðslu í olíuhreinsistöð (í miðjunni) og við bruna, t.d. í skipsvél (til hægri).