4.2 Plastframleiðsla

Upp úr 1950 var farið að framleiða plast í miklu magni og nota það í alls kyns umbúðir og aðrar vörur. Frá þessum tíma hefur framleiðsla plasts aukist ár frá ári (sjá mynd 4.3).

Plast er t.d. notað í einnota og fjölnota borðbúnað, umbúðir, burðarpoka, leikföng, fatnað, búsáhöld, veiðarfæri, húsgögn, lækningavörur og þar fram eftir götunum. Plast er til margra hluta nytsamlegt og þægilegt í notkun. Vörur úr plasti eru yfirleitt endingargóðar og oft frekar ódýrar. Tilkoma plastsins var því til mikilla þæginda fyrir margt fólk.

Mynd 4.4. Gamlar auglýsingar fyrir plast. Einnota plast auðveldar heimilisstörfin og var jafnvel sérstaklega reynt að höfða til húsmæðra með því að hafa smábörn á myndunum.

Plast er framleitt úr olíu og eru um 5-10% af unninni olíu í heiminum notuð til að framleiða plastefni. Í olíuhreinsistöð eru mismunandi afurðir unnar úr hráolíu. Ein af þessum afurðum er nafta, sem er mikilvægasta hráefnið í plastframleiðslu. Í olíuefnaverksmiðju eru fyrst búnar til úr nafta svonefndar einliður (e. monomer) og svo úr þeim svo fjölliður (e. polymer). Einliður eru frekar litlar sameindir sem geta bundist öðrum sams konar sameindum og myndað mjög langar keðjur sem nefnast þá fjölliður. Á mynd 4.6 sést hvernig pólýstýren, sem oft er notað í umbúðir utan um matvæli (þ.á m. frauðplast), er myndað úr mörgum stýren-sameindum. Aðrar algengar plastfjölliður eru t.d. pólýetýlen (PE-plast), pólýprólýlen (PP-plast) og pólývínýlkóríð (PVC-plast), sem gerðar úr etýlen-sameindum, própýlen-sameindum og vínýlklóríð-sameindum. Forskeytið „pólý-“ þýðir „fjöl-“ og vísar til þess að hver keðja er samsett úr mörgum sameindum. Hver fjölliða hefur sína eiginleika, byggingu og stærð eftir því úr hvaða einliðum hún er samsett. Fjölliðurnar koma oftast út úr framleiðsluferlinu sem litlar perlur (sjá mynd 4.6) en stundum líka sem duft, deig eða vökvi.

Mynd 4.5. Plastframleiðsla. Plast er framleitt úr olíuvörum.

Fjölliðurnar úr olíuefnaverksmiðjunum, hvort sem þær líta út eins og perlur eða eitthvað annað, eru þessu næst fluttar í verksmiðjur þar sem þær eru bræddar, íblöndunarefnum bætt við og plastið mótað í viðeigandi form. Til þess að ná fram þeim eiginleikum sem sóst er eftir hverju sinni er ýmsum efnum blandað í plastið, s.s. mýkingarefnum, hersluefnum, litarefnum og andoxunarefnum. Sum þessara efna eru hættuleg heilsu okkar. Þetta eru t.d. efni á borð við þalöt og BPA, sem sett er í ýmsar plastvörur til að gera plastið mýkra og mótanlegra.

Mynd 4.6. Vörður í framleiðsluferli plasts: (Til vinstri) Pólýstýren er búið til með fjölliðun á einliðunni stýren. (Til hægri) Plastperlur tilbúnar til frekari mótunar í viðeigandi form.

Sumar plastvörur, svo sem plastpokar og einnota plastborðbúnaður, eru bara notaðar í nokkrar mínútur áður en þeim er hent í ruslið. Aðrar vörur eru þó gerðar til notkunar í lengri tíma (t.d. húsgögn, fatnaður og margnota plastborðbúnaður).

Plastið sem við sjáum mest af í daglegu lífi er auðkennt með númerum sem er m.a. ætlað að auðvelda endurvinnslu, því að mismunandi gerðir af plasti þurfa mismunandi meðhöndlun. Númerin eru tölur frá einum upp í sjö innan í þar til gerðum þríhyrningum sem prentaðir eru á plastið – og eru missýnilegir eftir því hversu sjónin er góð.