7.4 Losun skólps og úrgangs

Í skipum myndar áhöfnin – og farþegarnir í farþegaskipum – samfélag og því myndast bæði skólp og svokallaður heimilisúrgangur um borð. Heimilisúrgangur samanstendur m.a. af matarleifum og notuðum umbúðum. Að auki fellur til rekstrarúrgangur um borð í skipum og fer eðli hans eftir starfseminni um borð, t.d. fellur til veiðafæraúrgangur í fiskiskipum. Viðauki IV við MARPOL fjallar um varnir gegn skólpmengun frá skipum og viðauki V fjallar um varnir gegn sorpmengun frá skipum.

7.4.1 Losun skólps

Skólp inniheldur lífræn efni (sykrur, prótín o.fl.) og ólífræn efni (þ.á m. köfnunarefni og fosfór), sem og svifagnir og uppleystar agnir. Skólp er ákjósanlegt umhverfi fyrir mikinn fjölda örvera, aðallega bakteríur en einnig veirur og frumdýr. Flestar örverurnar eru meinlausar en skólp getur einnig innihaldið sjúkdómsvaldandi bakteríur.

Losun ómeðhöndlaðs skólps í sjóinn getur valdið hættu fyrir heilsu fólks og sjónmengun á strandsvæðum, sem er vandamál – einkum á svæðum sem reiða sig á ferðamennsku. Auk þess getur niðurbrot lífrænu efnanna í skólpinu valdið súrefnisþurrð. Þá geta næringarefnin valdið ofauðgun á viðkvæmum svæðum þar sem vatnsskipti eru lítil og magn næringarefna er mikið fyrir (t.d. Eystrasalt). Nánar er fjallað um ofauðgun í kafla 5.2.

Mynd 7.7. Afleiðingar ofauðgunar eru minni líffræðilegur fjölbreytileiki bæði á hafsbotni og í vatnsmassanum.

Almennt er talið að í úthöfum sé sjórinn fær um að aðlagast og takast á við ómeðhöndlað skólp. Þess vegna banna ákvæði viðauka IV við MARPOL losun skólps aðeins innan tiltekinnar fjarlægðar frá landi. Losun er þó leyfð ef viðurkennd skólphreinsistöð er um borð. Viðaukinn tekur til skipa sem eru stærri en 400 brúttótonn og farþegaskipa sem flytja 15 manns eða fleiri. Slík skip þurfa að hafa alþjóðlegt skólpmengunarvarnaskírteini um borð (ISPP, e. international sewage pollution prevention certificate) og vera útbúin einu af eftirtöldu:

  • viðurkenndri skólphreinsistöð,
  • viðurkenndu kerfi sem kvarnar og sótthreinsar skólp,
  • geymslutanki fyrir skólp.

Öll losun skólps í sjóinn er bönnuð innan þriggja sjómílna frá landi nema skólpið hafi verið meðhöndlað í viðurkenndri skólphreinsistöð. Á hafsvæðum milli þriggja og 12 sjómílna er leyfilegt að losa skólp í sjóinn hafi skólpið fyrst annað hvort verið meðhöndlað í viðurkenndri skólphreinsistöð eða kvarnað og sótthreinsað. Fyrir utan 12 sjómílur er losun ómeðhöndlaðs skólps leyfileg að því tilskildu að skólpið sé losað í hæfilegu magni þegar hraði skipsins er að lágmarki 4 hnútar. Öll losun skólps frá farþegaskipum er bönnuð í Eystrasaltinu, sem er sérhafsvæði (sjá mynd 7.2). Eins hafa nokkur ríki skilgreint svæði þar sem losun skólps er bönnuð. Nauðsynlegt er að móttökustöðvar fyrir skólp séu til staðar í höfnum, annars vegar vegna þess að losun skólps er bönnuð á sumum hafsvæðum og hins vegar vegna þess að útgerðir geta valið að hafa geymslutank fyrir skólp um borð í skipum frekar en búnað til að hreinsa skólp.

7.4.2 Losun úrgangs

Gríðarlegt magn af úrgangi lendir í sjónum á hverju ári og hefur gert í langan tíma. Siglingar eiga sinn þátt í þessu vandamáli, en þar er einkum um að ræða úrgang frá fiskiskipum, kaupskipum og skemmtiferðaskipum, sem annað hvort er hent fyrir borð viljandi eða lendir í sjónum fyrir slysni. Stærstur hluti úrgangsins er plast, sem tekur óratíma að brotna niður í sjónum. Því fer magn úrgangs í sjónum vaxandi frá ári til árs. Fjallað er um áhrif úrgangs á umhverfi hafsins í kafla 4, sér í lagi áhrif plasts (kafli 4.6).

Mynd 7.8. Plast hefur margvísleg áhrif á lífríki sjávar.

Úrgangur sem myndast um borð í skipum samanstendur aðallega af matarleifum, umbúðum (plasti, pappa, brettum), hreinsiefnum og tuskum, ásamt leifum af efnum (málningu, leysiefnum, o.fl.) sem notuð eru um borð. Mikilvægt er að meðhöndla og farga þessum úrgangi á réttan hátt til að draga úr mengun sjávar. Mesta áherslu ætti þó ætíð að leggja á að draga úr myndun úrgangs.

Almennt er talið að í úthöfum sé sjórinn fær um að aðlagast og takast á við lífrænan úrgang, steinefni og hættulausa málma (járn, stál o.þ.h.). Losun úrgangs í sjó er almennt bönnuð samkvæmt viðauka V við MARPOL, með eftirfarandi undantekningum:

  • Utan þriggja sjómílna frá grunnlínum landhelginnar má losa kvarnaðan matarúrgang og þess háttar sorp, t.a.m. pappír, tuskur, gler og annan álíka úrgang sem kemst í gegnum sigti sem hefur göt með 25 mm þvermáli.
  • Utan 12 sjómílna frá grunnlínum landhelginnar er heimilt að losa ókvarnaðan matarúrgang og annað sorp, t.a.m. pappír, tuskur, gler, málma, flöskur, leirvörur og annan álíka úrgang sem kemst ekki í gegnum sigti sem hefur göt með 25 mm þvermáli.
  • Á sérhafsvæðum er heimilt að losa matarúrgang í sjó utan 12 sjómílna frá grunnlínum landhelginnar.

Aldrei má losa í sjó:

  • Þrávirk efni sem fljóta eða mara í sjónum.
  • Veiðarfæraúrgang.
  • Ösku úr brennsluofnum ef brennd hafa verið plastefni sem innihalda þungmálma eða eiturefni.

Öll skip sem eru stærri en 400 brúttótonn og farþegaskip sem flytja 15 manns eða fleiri þurfa að hafa um borð áætlun um meðferð úrgangs. Skipin þurfa ennfremur að halda sorpdagbók. Þá skulu skip sem eru 12 metrar eða lengri hafa uppi veggspjöld sem upplýsa áhöfn og farþega um þær kröfur sem gerðar eru um meðferð úrgangs.