Eins og komið hefur fram lendir gríðarlegt magn af plasti í heimshöfunum árlega. Plastið getur verið í sjónum í margar aldir og brotnar kannski aldrei alveg niður, heldur bara niður í smærri agnir. Magn plasts í sjónum eykst því með hverju árinu. Ef ekki verður gripið til markvissra aðgerða verður orðið meira af plasti í sjónum en fiski árið 2050 (miðað við þyngd). Árið 2025 er búist við að hlutfallið verði orðið 33%, þ.e. 1 kg af plasti á móti 3 kg af fiski. Kostnaðurinn sem hlýst af plastinu í sjónum vegna samdráttar í framleiðni hafsvæða og áhrifa á lífríki, sjávarútveg og ferðamennsku er gríðarlega hár. Það er því algjörlega bráðnauðsynlegt að stöðva frekari losun plasts í sjóinn.
Jafnvel þótt gripið verði til árangursríkra aðgerða til að draga úr því magni plasts sem lendir í sjónum mun magnið í sjónum ekki minnka að ráði fyrr en eftir óralangan tíma. Kostnaðurinn við að ná plasti úr sjónum þegar það er einu sinni komið þangað er oft óviðráðanlegur, auk þess sem viðfangsefnið er tæknilega erfitt m.a. vegna þess að mikið af lífmassa gæti glatast í framkvæmdinni.
Helstu aðgerðum til að sporna við plasti í hafinu má skipta í fyrirbyggjandi aðgerðir og leiðréttandi aðgerðir. Sem dæmi um fyrirbyggjandi aðgerðir má nefna lagasetningu, aukna menntun og upplýsingar til almennings, bætta meðhöndlun úrgangs, bann við notkun plastpoka og einnota borðbúnaðar og breytt vöruhönnun. Leiðréttandi aðgerðir felast í hreinsun strandlengjunnar og ákveðinna svæða í sjónum.
Dæmi um fyrirbyggjandi aðgerðir
Samkvæmt alþjóðlegum reglum er stranglega bannað að henda plasti fyrir borð á skipum. Hér á Íslandi skal setja úrvinnslugjald á veiðarfæri sem innihalda plast, skv. lögum 162/2002 um úrvinnslugjald. Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) annast úrvinnslu úrgangs vegna veiðarfæra, í samræmi við saming SFS við Úrvinnslusjóð. Vegna þessarar ráðstöfunar fer hlutfall ónýtra veiðarfæra sem fer í endurvinnslu vaxandi. Íslenskir lögaðilar geta skilað veiðarfæraúrgangi til móttökustöðva um land allt. Veiðarfæraúrgangur frá Íslandi er aðallega fluttur til endurvinnslu í Litháen, Danmörku og Hollandi.
Árið 2020 var sett reglugerð nr. 474/2020 um merkingu veiðarfæra og töpuð veiðarfæri. Samkvæmt reglugerðinni þarf að merkja öll veiðarfæri. Tapist veiðarfæri skal þegar hefja leit að þeim og leitast við að slæða þau upp. Takist ekki að slæða upp veiðarfæri skal tilkynna það Landhelgisgæslu Íslands og Fiskistofu. Þessar reglur ættu að draga úr því magni veiðarfæra sem marar um í sjónum og endar á hafsbotni.
Ýmsar þjóðir, borgir og jafnvel bæir hafa bannað ákveðnar plastvörur. Til dæmis hafa Frakkar bannað einnota plastborðbúnað, Bangladesh hefur bannað þunna burðarpoka úr plasti og í Kenýa má fólk búast við himinháum sektum eða fangelsisvist ef það framleiðir, selur eða notar burðarpoka úr plasti. Árið 2019 var, með breytingu á lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, lagt á bann við afhendingu burðarpoka úr plasti án endurgjalds frá 1. september 2019 og algjört bann við afhendingu plastpoka frá 1. janúar 2021. Í júlí 2020 var sömu lögum breytt þannig að lagt var á bann við sölu á ýmsum einnota plastvörum, s.s. eyrnapinnum og einnota borðbúnaði. Svona aðgerðir verða æ algengari. Þá hefur söfnun plasts og endurvinnsla aukist, þar á meðal hér á landi.
Dæmi um leiðréttandi aðgerðir
Í Evrópu var ráðist í verkefnið Ruslið veitt (e. Fishing for litter) í Norðursjó árið 2002. Verkefnið hefur staðið yfir síðan og skilað ágætum árangri. Verkefnið snýst um að sjómenn safni rusli sérstaklega þegar þeir eru á veiðum og komi með það í land. Verkefnið dregur bæði úr magni úrgangs í sjónum og eykur vitund sjómanna um mikilvægi þess að koma með allt rusl í land.
Á Íslandi er starfandi her, nánar tiltekið Blái herinn. Blái herinn eru sjálfboðaliðasamtök sem halda úti „stöðugum áróðri fyrir betri umhverfisvakningu“ og vilja „sjá landsmenn fylkja liði til verndar íslenskri náttúru“. Blái herinn hefur staðið fyrir fjölmörgum hreinsunarverkefnum á ströndum Íslands og safnað saman meira en 1500 tonnum af plastúrgangi.
Alþjóðablaksambandið hefur í samstarfi við hollensk samtök, sem nefnast Ghost Fishing Foundation, látið útbúa blaknet sem komið hefur verið fyrir á nokkrum stöðum og eru netin ætluð fyrir almenning til að spreyta sig á blakíþróttinni.
Ýmis fyrirtæki hafa líka gripið til aðgerða til að takast á við vandann. Til að mynda hefur Adidas hannað hlaupaskó úr sjóreknu plasti.
Eins og áður kom fram má rekja stærstan hluta plasts í sjónum til veiðarfæra- og umbúðaúrgangs. Búast má við að fleiri þjóðir taki upp svipað kerfi og er við lýði hér á landi varðandi veiðarfæraúrgang. Ástandið varðandi umbúðaúrgang á heimsvísu er ekki gott.
Árið 2013 voru framleidd tæplega 80 milljón tonn af plastumbúðum í heiminum. Talið er að 32% hafi sloppið út í umhverfið, 40% hafi farið á urðunarstaði og 14% í sorpbrennslu (með eða án orkunýtingar). Einungis 14% af umbúðarúrganginum var safnað til endurvinnslu. Þar töpuðust 4% í ferlinu, 8% fóru í endurvinnslu þar sem framleiddar voru vörur með minna virði (e. downcycling) og einungis 2% fóru í að endurvinna umbúðir. Eftir að hafa verið notaðar einu sinni í stuttan tíma tapast 95% af efnisvirði plastumbúða í hagkerfinu. Þessu verður að breyta.