1. Um sjóinn

1.1 Inngangur

Höfin eru gríðarlega víðáttumikil – þau þekja um 70% af yfirborði jarðar og í þeim er að finna rúmlega 97% af öllu vatni á jörðinni. Enda er jörðin oft nefnd blái hnötturinn. Höfin gegna stóru hlutverki í vatnshringrásinni og við að tempra og dreifa hita um hnöttinn. Í höfunum er að finna fjölbreytt og fjölskrúðugt líf. Sjórinn er a.m.k. 3800 milljón ára gamall og mestur hluti hans varð til snemma í jarðsögunni þegar eldgosagufur þéttust. Jafnvægi er á milli þess hve ört uppleyst efni berast til sjávar og hve ört þau falla út og mynda setlög. Þetta jarðefnafræðilega jafnvægi hefur haldið efnasamsetningu sjávar svo til óbreyttri í mjög langan tíma og komið í veg fyrir að ýmis efni gætu safnast fyrir í hafinu í slíkum mæli að styrkur þeirra yrði hættulegur lífverum.

Hafið er mikilvægt fyrir okkur Íslendinga. Vegna hlýrra hafstrauma er byggilegt hér á landi. Í sjónum í kringum landið eru gjöful fiskimið og mikilvægar uppeldisstöðvar margra sjávartegunda. Íslenskir sjómenn hafa sótt þangað björg í bú í aldanna rás og í dag er sjávarútvegurinn ein helsta uppspretta þjóðarauðs okkar. Við landið er mikið af sjávarspendýrum og auk þess er Ísland ein mikilvægasta uppeldisstöð margra tegunda sjófugla á norðurhveli jarðar.

Íslenska hafsvæðið er frjósamt. Grundvöllur þessarar frjósemi er mikil framleiðni svifþörunga við landið, en svifþörungar eru einmitt fyrsta stig fæðukeðjunnar. Suður og vestur af Íslandi leitar næringarefnaríkur djúpsjór upp með landgrunnshlíðunum og auðgar þannig yfirborðslögin. Við straumaskilin suðaustur og norðvestur af landinu, þar sem hlýsjór að sunnan og kaldur sjór að norðan mætast, geta næringarefni borist upp til yfirborðsins allt sumarið, og þar er frjósemin því einnig mikil. Þá stuðlar vetrarkæling og vindar einnig að því að sjór blandast upp og næringarefnaforði yfirborðslaganna endurnýjast. Vaxtarskilyrði svifþörunga, sem eru grundvöllur dýralífsins í sjónum, eru því mjög góð hér við land.

Mynd 1.1. Svifþörungar undan vesturströnd Íslands.