4. Úrgangur – plast

4.1 Inngangur

Gríðarlega mikið magn af úrgangi hefur borist í sjóinn í gegnum tíðina – og lengi vel var miklu magni hent í sjóinn viljandi. Sjómenn hentu rusli fyrir borð og úrgangi frá heilu byggðarlögunum var sturtað fram af klettum í fjöruborðinu. Stundum var jafnvel siglt með úrgang út á sjó og honum hent þar. Þetta er enn gert við hættulaus dýpkunarefni en á árum áður losuðu menn sig jafnvel við hættulegan úrgang, á borð við efnavopn og geislavirkan úrgang, með því að sökkva honum í hafið. Einnig var iðnaðarúrgangur brenndur í lélegum brennsluofnum um borð í skipum og öskunni svo sturtað í sjóinn.

Mynd 4.1. Lengi tekur sjórinn við?

Lengi tekur sjórinn við – eða hvað? Árum og áratugum saman viðgekkst að líta á losun úrgangs í sjóinn sem heppilega leið til að losna við ruslið. Nú vitum við betur. Ruslinu skolar á strendur og kemst jafnvel inn í fæðukeðjuna. Upp úr 1970 voru gerðir alþjóðasamningar sem bönnuðu losun úrgangs í sjóinn og þær reglur hafa síðan verið hertar með tímanum.

Áhyggjur af plasti í sjónum fara vaxandi enda hefur komið í ljós að meginhluti þess rusls sem er að finna í sjónum er plast (>75%). Plastinu í sjónum fylgja ýmis vandkvæði fyrir lífríkið, en plastmengun getur einnig haft neikvæð áhrif á fiskveiðar og ferðamennsku. Plastið getur valdið köfnun og komist í maga dýra. Auk þess geta dýr flækst í plasti og veiðarfærum sem eru á floti í sjónum. Plastefni innihalda oft ýmis aukaefni sem blandað er í plastið við framleiðsluna til að ná fram ákveðnum eiginleikum (t.d. mýkingarefni, efni til að herða plast o.fl.). Þessi efni geta verið eitruð fyrir menn og dýr. Eins geta eitruð efnasambönd, sem er að finna í sjónum vegna athafna manna, dregist að plastinu og loðað við það. Þetta getur t.d. átt við um eldvarnarefni, PCB, DDT og fleiri plágueyða. Smádýr og fiskar innbyrða svo plastagnirnar. Þannig á plastið, og hættulegu efnin sem hugsanlega fylgja því, greiða leið inn í fæðukeðjuna og geta á endanum lent á diskunum okkar. Samkvæmt nýlegum fréttum finnast meira að segja örplastagnir í neysluvatni og í salti sem unnið er úr sjó.

Mynd 4.2. Fæðukeðja í sjónum.