4.5 Afdrif plasts í sjónum

Eins og komið hefur fram er það ekki síst langur endingartími plasts sem gerir það eins eftirsóknarvert og raun ber vitni til að framleiða ýmsar vörur. En þessi eftirsóknarverði eiginleiki veldur því líka að plast sem lendir í sjónum brotnar seint eða aldrei alveg niður. Þegar plast lendir í sjónum taka við nokkrir náttúrulegir ferlar sem stuðla að niðurbroti plastsins:

  • Lífverur sem mola plastið niður í smærri agnir.
  • Sólarljós.
  • Súrefni (oxun).
  • Efni í sjónum (salt).
  • Öldugangur (mekanískt niðurbrot).
  • Örverur (lífniðurbrot).

Ýmsar lífverur taka þátt í að mola plast niður í smærri hluta. Þegar plast sem velkst hefur um í sjónum í einhvern tíma er greint sjást stundum greinileg bitför. Bitförin á mynd 4.11 eru til að mynda rakin til gikkfiska. Lífverur sem innbyrða plast geta flutt plastið langar leiðir.

Mynd 4.11. Bitför á plasthlut (til vinstri) sem fannst í sjónum eru rakin til gikkfiska, en tanngarð þeirra má einmitt sjá hér á myndunum í miðið og til hægri.

Plast sem velkist um í sjónum verður fyrir áhrifum sólarljóss, súrefnis og sjávarseltu. Undir þessum kringumstæðum verður plastið stökkara en ella og brotnar niður í smærri agnir með tímanum. Öldugangur ýtir enn frekar undir að stökkt plastið brotni niður í minni agnir. Jafnvel við aðstæður þar sem sólarinngeislun og öldugangur er mikill getur fullt niðurbrot þó tekið aldir. Þar sem plastefni eru gerð úr ákveðnum hluta hreinsaðrar hráolíu, sem varð til við það að lífræn efni grófust undir setlögum og lágu þar í miklum þrýstingi og hita og í milljónir ára, myndi fullt niðurbrot þýða að plastefnin yrðu aftur að koldíoxíði og vatni. Slíkt þyrfti að gerast fyrir tilstilli ýmissa örvera.

Í sjónum lifa örverur sem geta nýtt sér olíuefni (og þar með sumt plast því plastið er búið til úr olíu) til vaxtar og viðhalds. Hér er um að ræða bakteríur, sveppi, einfruma þörunga og frumdýr, sem geta notað olíu sem kolefnis- og orkugjafa. Hver örverutegund brýtur yfirleitt aðeins niður ákveðin vetniskolefni, þannig að til þess að niðurbrotið verði árangursríkt þurfa margar tegundir örvera að vinna saman eða þá hver á eftir annarri. Lífniðurbrot getur ekki eytt olíu í miklu magni, en er til langs tíma ein helsta leiðin fyrir náttúrulega eyðingu á síðustu leifum olíu af olíumengaðri strandlengju. Þegar plast er framleitt eru olíuefnin meðhöndluð á þann hátt (t.d. með andoxunarefnum og hersluefnum) að lífrænt niðurbrot verður enn erfiðara. Plast er jú gert til að endast! Það kemur því ekki á óvart að lífniðurbrot á plasti taki mjög langan tíma.

Plast í sjónum eyðist sem sagt seint eða aldrei en brotnar hins vegar smám saman niður í smærri og smærri einingar. Þessar smáu einingar hafa hlutfallslega mikið yfirborðsflatarmál. Plastefni virka eins og segull fyrir ýmis eiturefni sem er að finna í sjónum vegna athafna manna, s.s. skordýraeitur og önnur eiturefni sem notuð er í landbúnaði, brómeruð eldvarnarefni, þrávirk lífræn efni o.fl. Því stærra sem yfirborðsflatarmál plastagnanna er og því lengur sem þær velkjast um í sjónum, þeim mun meira af hættulegum efnum getur safnast utan á þær. Plastagnir geta því bæði innihaldið þau eiturefni sem sett voru í plastið þegar það var framleitt (s.s. þalöt og BPA) og eiturefni sem ásogast á agnirnar þegar þær velkjast um í sjónum (s.s. eldvarnarefni, PCB, DDT og fleiri plágueyða).

Mynd 4.12. Því lengur sem plastagnir velkjast um í sjónum þeim mun meira af eiturefnum safna þær í sig. Slíkar breytingar geta jafnvel verið sjáanlegar í litabreytingum.