9. Umhverfismál norðurslóða

9.1 Inngangur

Vistkerfi norðurslóða eru viðkvæmari en víðast hvar í heiminum enda eru veður válynd, sjórinn kaldur og árstíðasveiflur miklar. Lífríkið er fábreyttara og viðkvæmara en á suðlægari slóðum. Vistkerfin eru þó mörg hver mjög frjósöm og er frjósemin undirstaða dýralífs og gjöfulla fiskimiða á svæðinu. Íbúar norðurslóða, þar með taldir Íslendingar, reiða sig á þessa viðkvæmu náttúru. Líf, menning og hagkerfi frumbyggja og annarra íbúa á norðurslóðum byggir á auðlindum svæðisins, m.a. á veiðum villtra dýra. Matarvenjur frumbyggja hafa í gegnum aldirnar þróast út frá staðháttum og aðstæðum og er hefðbundið mataræði næringarríkt auk þess að innihalda langflest nauðsynleg vítamín, steinefni og málma.

Ýmsar ógnir steðja að norðurslóðum, þ.á m. loftslagsbreytingar, mengun og aukin ásókn í auðlindir svæðisins. Aukin ásókn í auðlindir (málma, olíu, gas, fiskistofna) stafar af auknu aðgengi með hlýnandi loftslagi og bráðnun heimskautaíssins. Talið er að svæðið sé ríkt af olíu, gasi og málmum og gæti ásókn í þessar auðlindir aukist með áframhaldandi bráðnun íssins. Þá munu siglingaleiðir frá Norður-Atlantshafi til Kyrrahafs yfir Norður-Íshafið að öllum líkindum opnast á næstu áratugum, en þær hafa hingað til verið ófærar vegna hafíss. Með opnun þessara siglingaleiða mun siglingatíminn milli Asíu og Vesturlanda styttast verulega. Því gætu vöruflutningar um svæðið aukist. Ennfremur má vænta aukinna siglinga vegna vaxandi ásóknar í auðlindir svæðisins og aukinnar umferðar skemmtiferðaskipa.

Mynd 9.1. Opnun siglingaleiða og aukin ásókn í auðlindir norðurslóða mun stuðla að auknum siglingum um svæðið og auka líkur á mengunaróhöppum.

Hér á eftir verður fjallað nánar um loftslagsbreytingar á norðurslóðum. Þá verður fjallað um mengun á svæðinu, einkum vegna þrávirkra lífrænna efna, þungmálma og geislavirkra efna. Loks verður fjallað um olíuvinnslu og siglingar um norðurslóðir og þá áhættu sem fylgir þessum atvinnugreinum.