3. Loftslagsbreytingar og súrnun sjávar

3.1 Inngangur

Gróðurhúsaáhrifin sem verða vegna gróðurhúsalofttegunda í lofthjúpnum eru náttúrulegt fyrirbæri – án þeirra væri hitastig á jörðinni um 33°C lægra en það er. Losun gróðurhúsalofttegunda af mannavöldum veldur auknum styrk gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu og þar með auknum gróðurhúsaáhrifum, loftslagsbreytingum og súrnun sjávar. Þessi losun hefur gríðarmikil áhrif á náttúru og vistkerfi einstakra landa og heimsins alls. Baráttan gegn loftslagsbreytingum er eitt umfangsmesta og mikilvægasta verkefni sem mannkynið stendur frammi fyrir.

Losun gróðurhúsalofttegunda hefur ekki aðeins í för með sér að andrúmsloftið á jörðinni hlýnar, heldur leiðir losunin líka til hlýnunar og súrnunar sjávar. Nýlegar rannsóknir benda til að áhrif þessarar hlýnunar og súrnunar séu meiri en áður var talið.

Ríki heims hafa sammælst um grípa til aðgerða sem munu tryggja að hitastigshækkun frá því fyrir iðnbyltingu verði vel innan við 2°C og ennfremur reyna að halda hækkun hitastigs innan við 1,5°C.  Við ætlum núna að líta á þetta mikilvæga viðfangsefni en byrjum á að líta aðeins á lofthjúp jarðarinnar.

Mynd 3.1. Lofthjúpur jarðar sést greinilega á þessari ljósmynd sem var tekin í Alþjóðlegu geimstöðinni.