8.5 Megindrættir íslenskrar löggjafar um mengun

Hér á landi er reglur um mengun frá skipum fyrst og fremst að finna í lögum nr. 33/2004 um varnir gegn mengun hafs og stranda, lögum nr. 47/2003 um eftirlit með skipum og lögum nr. 41/2003 um vaktstöð siglinga, ásamt fjölmörgum reglugerðum sem hafa verið settar með stoð í framangreindum lögum.

8.5.1 Lög um varnir gegn mengun hafs og stranda

Lög nr. 33/2004 um varnir gegn mengun hafs og stranda eru heildarlög um málaflokkinn. Markmið laganna er að vernda hafið og strendur Íslands gegn mengun og athöfnum sem geta stofnað heilbrigði manna í hættu, skaðað lifandi auðlindir hafsins og raskað lífríki þess, spillt umhverfinu eða hindrað lögmæta nýtingu hafs og stranda. Einnig er markmið laganna að eftir mengunaróhapp verði umhverfið fært til fyrra horfs.

Lögin gilda um íslensk og erlend skip sem sigla innan mengunarlögsögu Íslands. Með mengunarlögsögu er átt við hafsvæðið sem nær yfir innsævi að meðtalinni strönd að efstu flóðmörkum á stórstraumsflóði, landhelgi og efnahagslögsögu, landgrunn Íslands og efstu jarðlög. Innan mengunarlögsögunnar þurfa skip að uppfylla bæði almennt viðurkenndar alþjóðlegar reglur og tilteknar íslenskar sérreglur um mengunarvarnir. Þessar reglur fjalla m.a. um losun ýmissa mengunarefna í hafið, m.a. olíu, lýsis, grútar, skólps og sorps, losun kjölfestuvatns, varp efna og hluta í hafið frá skipum, brennslu úrgangsefna á hafi úti, meðhöndlun úrgangs og farmleifa frá skipum í höfnum og eldsneyti sem skipum er heimilt að nota, m.a. þegar þau liggja í höfn.

Fjölmargar reglugerðir hafa verið settar með stoð í lögum um varnir gegn mengun hafs og stranda sem útfæra ákvæði þeirra nánar, t.d. reglugerð nr. 586/2017 um innleiðingu viðauka I, II, III og V við MARPOL-samninginn, reglugerð nr. 809/1999 um olíuúrgang, reglugerð nr. 800/2004 um umskipun olíu á rúmsjó, reglugerð nr. 1200/2014 um móttöku á úrgangi og farmleifum frá skipum, reglugerð nr. 515/2010 um kjölfestuvatn, reglugerð nr. 1010/2012 um viðbrögð við bráðamengun hafs og stranda og reglugerð nr. 824/2005 um takmörkun á notkun skaðlegra gróðurhindrandi efna og/eða búnaðar á skip.

Eftirlit með því að skip sem sigla innan mengunarlögsögunnar uppfylli ákvæði laga og reglugerða um mengunarvarnir er í höndum Umhverfisstofnunar (eftirlit með búnaði skipa er þó í höndum Samgöngustofu, sjá nánar í kafla 8.5.2). Umhverfisstofnun skal hafa aðgang að upplýsingum sem nauðsynlegar eru til eftirlits með skipum, m.a. sýnum, mælingum og skýrslum um athuganir vegna mengunarvarna. Umhverfisstofnun fær einnig tilkynningar um mengun hafs og stranda frá Landhelgisgæslu Íslands, sem fer með eftirlit með hafsvæðum umhverfis Íslands úr lofti sem af sjó og styðst auk þess við gervitunglamyndir frá Siglingaöryggisstofnun Evrópu (EMSA). Ef hætta er talin á mengun hafs og stranda eða ef mengun hefur orðið í trássi við lögin er Umhverfisstofnun heimilt að framkvæma athugun á skipi án dómsúrskurðar.

Mynd 8.8. Reykjavíkurhöfn.

Lög um varnir gegn mengun hafs og stranda gilda ekki eingöngu um skip innan mengunarlögsögu Íslands heldur einnig um íslensk skip utan mengunarlögsögu Íslands. Eins og fram kom í kafla 8.2 er Íslandi sem fánaríki skylt til að innleiða alþjóðlegar reglur um mengunarvarnir fyrir skip skráð hér á landi. Íslandi er einnig skylt að tryggja eins og kostur er að skipin fylgi reglunum hvar sem þau eru stödd. Íslenskum skipum ber í samræmi við þetta að tilkynna Landhelgisgæslu Íslands um alla losun, varp og mengun sem verður utan mengunarlögsögu Íslands og brýtur í bága við ákvæði laga um varnir gegn mengun hafs og stranda.

8.5.2 Lög um eftirlit með skipum

Lög nr. 47/2003 um eftirlit með skipum fjalla um eftirlit íslenskra stjórnvalda með öryggismálum og búnaði íslenskra skipa, m.a. mengunarvarnabúnaði. Markmið laganna er að tryggja öryggi íslenskra skipa, áhafna þeirra og farþega og efla varnir gegn mengun frá skipum, en markmiðinu skal ná með því að gera tilteknar kröfur um gerð og búnað skipa, skoðun skipa og eftirlit með þeim.

Eins og fjallað var um í kafla 8.2 gera alþjóðasamningar ráð fyrir að reglur um gerð og búnað skipa, þ.á m. mengunarvarnabúnað, séu að verulegu leyti samræmdar milli ríkja til að hindra ekki frjálsa för skipa um heimsins höf. Eftirlit með skipum hér á landi byggist því að miklu leyti á alþjóðlegum reglum.

Eftirlit með því að skip uppfylli kröfur laganna er í höndum Samgöngustofu, sem annast reglubundna skoðun skipa samkvæmt lögum um eftirlit með skipum og reglum settum samkvæmt þeim. Samgöngustofa getur þó falið slíka skoðun viðurkenndum skoðunaraðilum. Skoðun skipa felst m.a. í athugun á því að mengunarvarnabúnaður um borð sé í samræmi við lög og reglur. Til að framkvæma skoðun geta starfsmenn Samgöngustofu eða viðurkenndir skoðunaraðilar farið um borð í hvert skip sem statt er í íslenskri höfn eða innan íslenskrar landhelgi. Þetta gildir einnig um íslensk skip í erlendri höfn. Samgöngustofa getur jafnframt fyrirskipað nauðsynlegar úrbætur ef þörf er á. Sjá nánari umfjöllun um skoðun skipa í kafla 8.7.

8.5.3 Lög um vaktstöð siglinga

Mikilvægar reglur sem varða mengun frá skipum koma fram í lögum nr. 41/2003 um vaktstöð siglinga, en þau gilda um eftirlit með umferð skipa, m.a. þeirra sem flytja hættulegan og mengandi varning. Leiðarstjórnun og eftirlit með umferð skipa eru mikilvægur liður í að tryggja öryggi siglinga, en slíkar reglur koma eðli málsins samkvæmt að gagni við að fyrirbyggja mengunaróhöpp.

Markmið laga um vaktstöð siglinga er að tryggja öruggar siglingar í íslenskri efnahagslögsögu og öryggi skipa, farþega og áhafna, auk þess að efla varnir gegn mengun sjávar frá skipum. Samkvæmt lögunum ber öllum skipum sem sigla um íslenska efnahagslögsögu að tilkynna um ferðir sínar til vaktstöðvar siglinga. Upplýsingar vaktstöðvarinnar gegna mikilvægu hlutverki við að tryggja skjót viðbrögð við leit og björgun ef skip lendir í sjávarháska. Þær geta einnig nýst við almennt skipaeftirlit og eftirlit með mengun sjávar. Hér skiptir t.d. máli að skipum sem sigla inn í íslenska efnahagslögsögu með hættulegan eða mengandi varning er skylt að gefa ítarlegar upplýsingar um ferðir sínar, auk þess sem öllum skipum ber að tilkynna tafarlaust um sérhvert óhapp eða slys sem kann að valda mengun sjávar eða stranda.

Mynd 8.9. Hvítfyssandi brim við Íslandsstrendur.

Auk ofangreinds fjalla lög um vaktstöð siglinga um hafnsöguskyldu. Öllum skipum sem flytja hættulegan eða mengandi varning í tilteknu magni er skylt að hafa um borð hafnsögumann við siglingu um hafnarsvæði. Hafnarstjórn er þó heimilt að veita staðkunnugum skipstjórum undanþágu frá hafnsöguskyldu. Ráðherra er einnig heimilt að ákveða að skip skuli hafa um borð leiðsögumann við siglingar um tiltekin svæði eða við tilteknar aðstæður ef þörf er á til að tryggja öryggi siglinga og varnir gegn mengun sjávar, auk þess sem heimilt er að fela vaktstöð siglinga að fara með leiðarstjórnun skipa um tiltekin svæði eða við tilteknar aðstæður. Leiðsögumaður er ábyrgur fyrir því að tilkynning um mengun stranda og sjávar af völdum hættulegra efna og mengunarslys berist réttum aðilum og ber að reyna með öllum tiltækum ráðum að halda útbreiðslu mengunar í lágmarki.