2.5 Flutningar á olíu

Olía er flutt langar leiðir, fram og til baka um jörðina. Hráolía er flutt með leiðslum og skipum frá olíulindum oft langar leiðir til olíuhreinsistöðva og síðan fullunnar olíuvörur frá olíuhreinsistöðvum til smásöluaðila og neytenda. Í Bandaríkjunum einum eru til að mynda samtals um 220.000 km af olíuleiðslum; þar af 80.000 km af hráolíuleiðslum og 140.000 km af leiðslum fyrir olíuvörur. Reglulega lekur olía út í umhverfið frá olíuleiðslum. Olía er líka flutt með skipum, bæði hráolía til olíuhreinsistöðva og unnar olíuafurðir frá olíuhreinsistöð. Mörg slys hafa orðið í gegnum tíðina vegna olíuflutninga. Sem dæmi má nefna strand olíuflutningaskipanna Torrey Canyon í Ermasundi árið 1967 og Exxon Valdez við strendur Alaska árið 1989 (sjá kafla 2.9).

Mynd 2.5. Olíuleiðslur í Bandaríkjunum. Ljósmynd af leiðslu (vinstra megin) og kort af leiðslukerfinu (hægra megin).