5.2 Næringarefnaofauðgun

Næringarefnin köfnunarefni (N) og fosfór (P) eru lífverum nauðsynleg til vaxtar og viðhalds, en allt er best í hófi. Þar sem næringarefnaríkan sjó er að finna eru vaxtarskilyrði svifþörunga góð. Þeir fjölga sér á meðan nóg er af næringu í sjónum en þegar næringarefnin þrýtur hægir á vexti þörunganna. Ef stöðugt berast meiri næringarefni í sjóinn vegna mannlegra athafna getur það leitt til offjölgunar svifþörunga.

Helstu uppsprettur næringarefna eru notkun áburðar (bæði tilbúins áburðar og búfjáráburðar) í landbúnaði og losun fráveituvatns eða skólps í sjóinn, bæði húsaskólps og iðnaðarskólps (sérstaklega frá matvælavinnslu). Frá þessum uppsprettum berast bæði köfnunarefni (N) og fosfór (P) til sjávar. Þá losna einnig köfnunarefnisoxíð út í andrúmsloftið frá alls kyns iðnaði og eldsneytisbrennslu. Þetta köfnunarefni getur borist með loftstraumum – jafnvel langar leiðir – og fallið til jarðar og í sjóinn með úrkomu eða þurri ákomu.

Mynd 5.2. Uppsprettur næringarefna sem lenda í hafinu og einfölduð mynd af afleiðingum næringarefnaofauðgunar.

Með auknu magni næringarefna eykst vaxtarhraði þörunga (plöntusvif) og þörungablómi myndast. Sumar þörungategundir geta verið eitraðar en þó alls ekki allar. Við aukinn vöxt þörunga við sjávaryfirborð dimmir í sjónum, þar sem sólarljósið kemst ekki niður á eins mikið dýpi og áður. Lækkað birtustig getur haft áhrif á botngróður sem deyr ef hann fær ekki nóg ljós. Hinn aukni vöxtur plöntusvifs í yfirborðinu veldur því einnig að dýrasvifi fjölgar. Þegar svifið (bæði plöntu- og dýrasvifið) deyr fellur það til botns og þar hefst niðurbrot hinna lífrænu leifa fyrir tilstilli botnlægra lífvera (rotvera) sem nýta sér leifarnar til vaxtar og viðhalds. Rotverurnar nota súrefni við niðurbrotið og þar sem mikið er um lífrænar leifar – í kjölfar ofauðgunar – klárast súrefnið við botninn. Þegar súrefnið klárast verður niðurbrotið loftfirrt og þá myndast eitraðar lofttegundir, bæði brennisteinsvetni (H2S) og ammoníak (NH3). Þetta er vegna þess að þegar annað súrefni (O2) þrýtur geta vissar bakteríur nýtt sér súrefnið sem bundið er í súlfati (SO42-) og nítrati (NO3). Við það afoxast þessi efnasambönd og hinar fyrrgreindu eitruðu lofttegundir myndast. Súrefnisskorturinn við botninn skaðar botndýralífið og einnig dýralífið ofar í vatnsmassanum ef súrefnisskorturinn nær upp í efri lög. Brennisteinsvetni og ammoníak geta stigið upp í vatnsmassanum og valdið dauða bæði fiska og annarra lífvera. Ofaugðun veldur því breytingum í plöntu- og dýralífi þar sem ýmsar tegundir vistkerfisins deyja en þær tegundir sem þola súrefnissnautt umhverfi betur fjölga sér. Vistkerfið verður því oft einhæfara.

Mynd 5.3. Skýringarmynd um næringarefnaofauðgun og afleiðingar hennar.

Ofauðgun í sjó á sér aðallega stað við strendur og á svæðum með takmörkuðum vatnsskiptum. Fá dæmi, ef nokkur, eru um að ákoma næringarefna hafi valdið mengun í sjó hér við land. Öðru máli gegnir um sunnanverðan Norðursjó og Eystrasaltið þar sem mikið magn næringarefna berst til sjávar frá þéttbýli (frárennsli, bílaumferð) og vegna afrennslis frá landbúnaðarlandi í kjölfar áburðarnotkunar. Þrátt fyrir að átak hafi verið gert til að minnka ákomu næringarefna veldur ofauðgun enn vandamálum á þessum hafssvæðum.