Við heyrum nokkuð reglulega fréttir af olíuslysum, stórum sem smáum. Stór olíuslys eru ógnvekjandi og geta valdið miklu tjóni. Stærsta olíuslys hingað til var slysið í Mexíkóflóa árið 2010 þegar sprenging varð á borpalli BP og olía rann stjórnlaust í sjóinn í nærri 3 mánuði. Ljóst er að olíumagnið sem fer í sjóinn er ekki það eina sem ræður hversu mikil áhrif slyssins verða á umhverfið. Tegund olíunnar, staðsetning slyssins, umhverfisaðstæður og viðbrögð við slysinu skipta einnig miklu máli.
2.9.1 Viðbrögð við olíumengun
Hægt er að bregðast við olíuslysum á ýmsa vegu. Eins og fram kom hér að framan fara ýmsir náttúrulegir ferlar af stað við að dreifa og brjóta niður olíu um leið og hún lendir í sjónum. Tegund olíunnar, staðsetning og aðstæður skipta miklu máli þegar ákveðið er hvernig bregðast skuli við olíuslysi. Ef um er að ræða léttar olíur eins og bensín, steinolíu eða gasolíu er e.t.v. ekki nauðsynlegt að grípa til aðgerða, enda gufa olíurnar þá tiltölulega fljótt upp. Þetta á ekki síst við ef óhappið verður langt frá landi. Í slíkum tilfellum þarf þó að huga vel að eld- og sprengihættu, auk heilsufarsáhættu. Mörg stór óhöpp hafa ekki krafist neinnar hreinsunar, en mun minni slys með þyngri olíur eins og svartolíu hafa hins vegar krafist mikilla hreinsiaðgerða.
Ef grípa þarf til aðgerða er mikilvægt að hefjast handa sem fyrst, áður en atvikið verður illviðráðanlegra, bæði vegna þess að eðliseiginleikar olíunnar breytast með tíma vegna veðrunar og vegna þess að olíuflekkurinn breiðist út yfir stærra svæði. Eins getur rúmfang olíunnar aukist mikið ef hún myndar kvoðulausn. Hversu fljótt og hversu mikil kvoðulausn myndast er mismunandi eftir olíutegundum eins og sjá má á mynd 2.17.
Þegar ákveðið er að hreinsa upp olíu sem farið hefur í sjó er um þrjár meginaðferðir að ræða:
- Fanga og endurheimta olíuna.
- Kveikja í olíunni á staðnum.
- Nota felli- og dreifiefni.
Föngun og endurheimt
Þessi aðferð snýst um að fanga olíuna, þ.e. að safna henni saman á ákveðinn stað þaðan sem hægt er að ná henni úr sjónum. Söfnun olíu með flotgirðingum og upptaka með sérhæfðum upptökubúnaði (skimmerum) eða ísogsefnum er talin vera hentugasta aðferðin til að fást við olíuflekki og er því yfirleitt sú aðferð sem fyrst er gripið til. Árangurinn af söfnun olíu með flotgirðingum er háður eiginleikum olíunnar og aðstæðum á slysstað, s.s. straumum og vindi. Veður og sjólag þarf að vera nokkuð gott til þess að búnaðurinn virki vel. Jafnvel við góðar aðstæður næst eingöngu hluti olíunnar með þessu móti. Flotgirðingar eru einnig oft notaðar til að verja mikilvæg svæði þannig að olía komist ekki þangað.
Íkveikja
Til þess að hægt sé að brenna olíu á sjó þarf hún að vera í talsverðu magni, a.m.k. 2-3 mm að þykkt, þannig að eldurinn viðhaldist þrátt fyrir kæliáhrif vinds og sjávar. Ef öldugangur er mikill viðhelst eldurinn ekki. Þar sem olíuflekkur breiðist út þarf oft að halda honum í skefjum t.d. með eldþolnum flotgirðingum. Tendra þarf eldinn og er það gert á ýmsan hátt, allt frá því að nota tuskur sem vættar hafa verið í dísilolíu til háþróaðra kyndla sem festir eru í þyrlur (Helitorch). Þar sem eldfimasti hluti olíunnar gufar hratt upp er erfitt að kveikja í henni, auk þess sem það er mikið hættuspil. Þegar léttari hlutar olíunnar hafa brunnið burt, lækkar hitinn og eldurinn slokknar vegna kæliáhrifa vinds og sjávar. Eftir standa leifar með mikla seigju, sem erfitt getur verið að ná upp úr sjónum. Þær geta auk þess sokkið og þannig haft slæm áhrif á botndýralíf. Annar stór galli við þessa aðferð er loftmengunin sem hlýst af bruna við þessar aðstæður. Mikið magn eitraðra loftmengunarefna myndast, sérstaklega sót.
Felli- og dreifiefni
Felli- og dreifiefni hafa tvenns konar innihaldsefni, annars vegar yfirborðsvirk efni og hins vegar leysiefni. Yfirborðsvirku efnin hafa olíusækinn hluta og vatnssækinn hluta. Leysiefnið flytur og dreifir yfirborðsvirku efnunum inn í olíuflekkinn og að mörkum olíu og sjávar. Þar minnka þau yfirborðsspennu þannig að litlir dropar leysast frá flekknum.
Felliefni sem dreift er yfir olíuflekki auka þannig uppleysanleika olíunnar í vatni og gera það að verkum að hún hrærist í litla dropa. Við þetta getur náttúrulegt niðurbrot olíunnar minnkað þar sem örverur komast ekki að olíunni inni í dropunum. Felli- og dreifiefni virka lítið sem ekkert á mjög seiga olíu þar sem þau renna af olíuflekknum og út í sjóinn áður en leysiefnin geta smogið inn í flekkinn. Auk þess henta þau ekki þegar um er að ræða kvoðulausn með mikla seigju né á olíu með rennslismark nálægt umhverfishitastigi. Olíur, sem hægt er að nota felli- og dreifiefni á, verða ónæmar fyrir efnunum eftir ákveðinn tíma (yfirleitt nokkra klukkutíma eða daga) þar sem veðrun gerir olíuna seigari. Notkun felliefna getur dregið úr umhverfisáhrifum olíuslysa, sérstaklega áhrifum á strandlíf og fugla. Hins vegar gera felliefnin það að verkum að olían sekkur, jafnvel alla leið til botns. Þannig geta langtímaáhrif hennar jafnvel orðið meiri en ef hún fær að brotna niður og gufa upp af yfirborðinu. Auk þess hafa sum felliefni talsverða eiturvirkni og geta jafnvel verið eitraðri en olían sem þeim er ætlað að hreinsa. Meta þarf gaumgæfilega í hverju tilfelli hvort beita eigi felliefnum.
2.9.2 Viðbrögð við olíuslysum á norðlægum slóðum
Nú þegar ísinn á Norðurskautinu fer minnkandi opnast siglingaleiðir um svæðið og um leið aukast möguleikar á olíuvinnslu á svæðinu. En hvað gerist ef olíuslys verður á norðlægum slóðum? Við þurfum að hafa í huga að lífríkið á norðurslóðum er fábreyttara og viðkvæmara en á suðlægari slóðum.
Olía hegðar sér öðruvísi við þau skilyrði sem er að finna á norðlægum slóðum en í hlýrri sjó. Mikill kuldi dregur úr hraða náttúrulegra veðrunarferla, sérstaklega uppgufun og lífniðurbroti. Seigja olíunnar vex með kulda og olían verður þrávirkari. Olía getur lokast undir landföstum ís og þá getur verið erfitt að finna hana og ná henni upp. Hafís dregur úr öldugangi og því verður náttúrleg dreifing og myndun kvoðulausnar minni á svæðum þar sem hafís er að finna. Tíminn til að nota felli- og leysiefni annars vegar og íkveikju hins vegar er því meiri en ella. Ávinningurinn er þó lítill sem enginn þar sem felli- og leysiefni virka verr í kulda þar sem olían er seigari og íkveikja hefur mikla ókosti á þessum slóðum.
Allar þær aðferðir sem notaðar eru til að fást við olíumengun virka verr á norðlægum slóðum en annars staðar. Erfitt er að komast að með flotgirðingar innan um ís og mikill kuldi getur dregið úr virkni olíuupptökubúnaðar. Sérhæfður kuldaþolinn búnaður hefur þó verið þróaður í þessu skyni, en ólíklegt er að búnaðurinn virki vel þar sem ísþekjan er 30% eða meiri. Eins hafa sérhæfð felli- og leysiefni verið þróuð fyrir köld svæði, en þau koma aðeins að gagni ef hægt er að koma þeim í snertingu við olíuna. Það getur hins vegar verið vandkvæðum háð ef olía er föst innan um ís. Auk þess geta þessi kemísku efni haft óæskileg áhrif á viðkvæmt lífríkið. Íkveikja á norðlægum slóðum er vandasöm og kuldinn gerir það að verkum að erfiðara er að viðhalda eldinum. Þegar léttari olíurnar brenna myndast annars vegar tjörukennd efni sem sökkva og hafa bæði kæfandi og eitrandi áhrif á lífríkið og hins vegar myndast mikið magn loftmengunarefna. Sótið er sérstakt áhyggjuefni. Það er krabbameinsvaldandi og hættulegt heilsu manna og náttúru – og getur jafnframt sest á yfirborð jökla og flýtt bráðnun þeirra og dregið úr endurkasti.
Til viðbótar við vandkvæðin sem nefnd hafa verið er viðbragðstíminn oft langur þar sem um afskekkt svæði er að ræða og erfiðara er en ella að koma björgunarbúnaði á svæðið vegna þess að óveður eru tiltölulega tíð og hafís getur tafið för björgunarskipa. Aðstæður til björgunaraðgerða geta auk þess verið erfiðar vegna myrkurs og kulda. Sums staðar geta jafnvel hættuleg rándýr, s.s. ísbirnir, sett strik í reikninginn.
2.9.3 Þrjú slys: Torrey Canyon (1967), Exxon Valdez (1989), Deep Water Horizon (2010)
Hér á eftir verður þremur afdrifaríkum olíuslysum lýst en af slysum sem þessum má draga mikinn lærdóm.
Torrey Canyon
Olíuflutningaskipið Torrey Canyon var með stærstu olíuskipum heims á sínum tíma. Í síðustu ferð sinni í mars 1967 lagði skipið upp frá Kúveit og stefndi á Milford Haven í Wales, með um 120.000 tonn af hráolíu. Vegna stærðar sinnar gat skipið aðeins siglt inn í höfnina á stórstraumsflóði. Skipinu var siglt á fullri ferð á sjálfstýringu, en þegar það nálgaðist Scilly-eyjar undan suðvesturhorni Englands, varð ljóst að skipið hafði borið af leið vegna vinda og stefndi beint á eyjarnar. Skipstjórinn tók þá ákvörðun um að reyna að sigla á milli Scilly-eyja og Sjösteinarifs, frekar en að fara lengri leiðinni framhjá eyjunum til vesturs. Þessa ákvörðun tók hann væntanlega vegna þess að lengri leiðin hefði bætt nokkrum klukkustundum við siglingartímann og skipið því misst af stórstraumsflóði. Þar með hefði skipið þurft að bíða úti á sjó í 6 daga. Skipstjórinn skipti því úr sjálfstýringu og færði stýrið. Í leiðinni rakst hann óvart í handfang sem ýtti skipinu aftur á sjálfstýringu og þegar skipverjar uppgötvuðu mistökin var það orðið of seint. Skipið strandaði á Sjösteinarifi og sat þar fast.
Flotgirðingar voru settar út til að reyna að koma í veg fyrir að olían sem lak úr skipinu bærist að landi, en þær virkuðu ekki. Þá var reynt að sprengja skipið upp og brenna olíuna úti á sjó, en það dugði ekki heldur til. Gríðarlegt magn (meira en 8 milljón lítrar) af felli- og leysiefninu BP1002 var notað til að reyna að dreifa olíunni, en seinna kom í ljós að efnin reyndust enn eitraðri fyrir lífríkið en olían sem þau áttu að vinna á.
Slysið olli gríðarlegum skaða fyrir lífríki sjávar og lífsviðurværi íbúa á svæðinu. Stærstum hluta olíuflekksins skolaði á land í Brittany í Norður-Frakklandi, sem hlaut fyrir vikið viðurnefnið Marée noire, eða svarta fjaran. Yfir 15.000 sjófuglar drápust og sumar tegundir náðu sér ekki fyrr en eftir nokkra áratugi. Dauði fugla og sjávarspendýra fyrstu dagana var aðeins lítill hluti af heildaráhrifunum. Áhrifanna gætti í mörg ár, á allt frá svifi og botnlífverum neðst í fæðukeðjunni, til skelja, fiska, fugla og spendýra. Auk þess voru áhrifin á ferðamannastaði mikil.
Óhappið olli miklu fjárhagslegu tjóni fyrir einstaklinga og ríki, sem í sjálfu sér höfðu engin tengsl við skipið. Í kjölfarið voru samþykktir þrír tengdir alþjóðasamningar sem fjalla um rétt strandríkja til inngrips ef ströndum þeirra er ógnað, um ábyrgð skipsstjórnarmanna og útgerða og um bótasjóð fyrir fórnarlömb olíumengunaróhappa (sjá kafla 8).
Exxon Valdez
Olíuskipið Exxon Valdez strandaði á skeri í Prins-Williams-sundi við strendur Alaska 24. mars 1989. Skipið var að flytja hráolíu frá Alaskaleiðslunni, sem flytur hráolíu frá Norður-Alaska til hafnarinnar í Valdez, í olíuhreinsistöð. Þegar bygging leiðslunnar var samþykkt árið 1973 lofuðu bæði bandaríska ríkisstjórnin og þau fyrirtæki sem í hlut áttu að setja öryggismálin á oddinn. Öll skip skyldu útbúin með tvöföldum byrðingi og allur nauðsynlegur öryggisbúnaður og viðbragðsteymi skyldu vera á staðnum. Þegar til kom stóðust þessi loforð ekki. Þar sem Valdez er mjög norðarlega er oft ís í innsiglingunni. Skipunum bar að sigla ákveðna leið og ef mikið var um ís áttu þau að hægja á sér. Með tímanum fengu skip leyfi til að fara út fyrir siglingaleiðina til að forðast ís. Enginn í strandgæslunni fylgdist með olíuskipi Exxon, sem fór út fyrir siglingaleiðina til að spara tíma, en lenti á rifi.
Tæplega 34 þúsund tonn af hráolíu láku í sjóinn og ollu dauða mikils fjölda sjávarspendýra, fugla og annarra lífvera á svæðinu. Talið er að á fyrstu dögunum hafi um 2.800 otrar, 300 selir, 22 háhyrningar, 900 ernir og um 250.000 sjófuglar drepist. Auk þess drapst mikið af fiski, sér í lagi lax og síld. Erfiðara er að meta áhrif á smádýr, krabbadýr og önnur sjávardýr, þar sem þau áhrif eru ekki eins sýnileg. Áhrifin eru langvinn, þar sem erfitt eða ógerlegt er að ná upp allri olíunni eftir slys af þessari stærðargráðu. Spendýr og fuglar eiga auðveldara með að flýja mengun en smærri lífverur. Langvinnu áhrifin leggjast því enn þyngra á hin ýmsu smádýr.
Öll viðbrögð við Exxon-Valdez-slysinu voru hæg og óskilvirk. Búnaður til að bregðast við var annað hvort ekki á staðnum eða undir snjó, þannig að fljúga þurfti með búnað annars staðar frá. Flekkurinn hafði því dreifst yfir stórt svæði þegar aðgerðir loks hófust. Til að bæta gráu ofan á svart skall á mikið óveður 2 dögum eftir slysið og dreifði það olíunni enn frekar og bar hana að landi, jafnvel í talsverðri hæð yfir sjávarmáli. Þegar myndir af lekanum birtust í sjónvarpsfréttum notaði Exxon felliefnið Corexit, en það reyndist eitraðra fyrir lífríkið en olían sem átti að hreinsa. Á endanum tókst einungis að hreinsa um 10-15% af þeirri olíu sem lenti í sjónum. Reynt var að hreinsa ströndina með heitu vatni undir þrýstingi, en það skilaði litlum árangri, auk þess sem lífríkið þoldi það ekki.
Exxon-Valdez-slysið hafði gríðarleg áhrif á efnahag á svæðinu, en talið er að fjárhagslegt tjón íbúa við strendur Suður-Alaska hafi numið um 300 milljónum dollara. Þá er fjárhagslegt tjón vegna hruns fiskistofna talið nema um 31 milljón dollara og tekjutap í ferðaþjónustu var áætlað um 5,5 milljónir dollara á fyrstu árunum eftir slysið. Fjárhagslegt tjón varð enn meira en ella vegna þess hversu nálægt landi slysið varð.
Árið 2014 gaf bandaríska haf- og veðurfræðistofnunin, NOAA, út skýrslu um stöðu svæðisins 25 árum eftir slysið. Þar kom fram að fjölmargir dýrastofnar hefðu náð að jafna sig og væru orðnir jafnútbreiddir og fyrir slys. Hins vegar væru aðrir stofnar enn í bráðri hættu og talið líklegt að háhyrningahjarðir myndu deyja út. Ennfremur kom fram að enn mætti finna eitraðar olíuleifar við strendur Alaska.
Í kjölfar slyssins setti Bandaríkjaþing lög (Oil Pollution Act 1990) sem fyrirskipuðu aukið eftirlit með olíuflutningaskipum við strendur Bandaríkjanna auk þess að fyrirskipa, í skrefum, tvöfaldan byrðing á öllum olíuskipum. Ákvæði laganna varðandi tvöfaldan byrðing voru ekki innleidd að fullu fyrr en árið 2015, 26 árum eftir slysið. Efnahagslegar afleiðingar fyrir Alaskafylki voru fjölmargar. Ýmis fyrirtæki lögðust af vegna lekans. Slysið olli einnig miklu tjóni á fiskimiðum, í ferðamannageiranum, og hafði áhrif á íþróttir og tómstundir íbúa.
Deep Water Horizon
Áratugina fyrir olíuslysið í Mexíkóflóa árið 2010 hafði olíuiðnaðurinn verið að fikra sig fjær landi, í áttina að dýpri olíulindum undir meiri þrýstingi og þar með meiri áhættu við vinnslu. Bortæknin og regluverkið um starfsemina, sem voru hönnuð fyrir olíuvinnslu á grunnsævi, voru uppfærð en ekki í samræmi við vaxandi áhættu. Röð mistaka leiddi til þess að sprenging varð á olíuborpalli BP í Mexíkóflóa 20. apríl 2010. Rangar ákvarðanir voru teknar af starfsmönnum olíufélagsins BP sem leigði pallinn af Transocean, starfsmenn Transocean á borpallinum ákváðu að halda borun áfram þrátt fyrir að þrýstiprófanir gæfu til kynna að ekki væri allt með felldu og yfirvöld höfðu samþykkt allar áætlanir fyrirtækjanna varðandi vinnsluna. Þegar þrýstingurinn jókst bilaði búnaðurinn sem átti að koma í veg fyrir þrýstisprengingu. Við sprenginguna sem varð á borpallinum dóu 11 starfsmenn og 17 slösuðust. Borpallurinn stóð í ljósum logum í 2 daga, þrátt fyrir slökkvistarf, og síðan sökk hann.
Þegar olíuborpallurinn sökk losnuðu leiðslur frá borholunni og olía streymdi stjórnlaust frá sjávarbotni í 87 daga. Erfiðlega gekk að stöðva olíustrauminn, enda erfitt að komast að og athafna sig við borholur á sjávarbotni. Talið er að alls hafi um 500.000-700.000 tonn af olíu streymt í sjóinn. Olían lagðist á um 1500 km af strandlengjunni í Louisiana, Mississippi, Texas, Alabama og Flórída. Frá þessu svæði koma um 80% af ostrum og 70% af rækju sem veidd er í Bandaríkjunum, þannig að áhrifin á sjávarútveginn voru mikil.
Umfang hreinsiaðgerða var gríðarlegt, en alls tóku um 50.000 manns þátt. Reynt var að brenna olíuna á staðnum og safna henni með flotgirðingum og flytja burt. Talið að aðeins hafi tekist að fjarlægja um 25% olíunnar með þessum aðferðum. Einnig voru notaðir 700 milljónir lítra af felli- og leysiefninu Corexit, en efnið er margfalt eitraðra en olían sem hreinsa átti upp. Olíufélagið BP var harðlega gagnrýnt fyrir mikla notkun efnisins og fyrir að gera meira til að koma í veg fyrir sjónmengun en að takast raunverulega á við mengunina á svæðinu. Hluti olíunnar hefur gufað upp og brotnað niður á náttúrulegan hátt með tíð og tíma, en ljóst er að stóran hluta er enn að finna í umhverfinu.
Mánuðina eftir slysið skolaði þúsundum dauðra dýra (fugla, skjaldbakna, höfrunga o.fl.) á land og einnig fundust vansköpuð dýr, svo sem augnlausar rækjur, krabbar án klóa og fiskar með æxli. Fimm árum eftir slysið hafði dregið úr rækjuveiðum borið saman við langtímameðaltal og ostrurnar voru minni en áður. Áhrif slyssins, bæði olíunnar og ekki síður hinnar miklu notkunar Corexits, eiga enn eftir að koma að fullu í ljós.