Á hverju ári eru framleidd meira en 300 milljón tonn af plasti í heiminum. Í Evrópu eru framleidd um 50 milljón tonn af plasti árlega og er stærsti hluti plastframleiðslunnar alls konar umbúðir (mynd 4.7). Um það bil þriðjungur af öllu plasti í Evrópu er einnota. Nærri helmingur af því plasti sem framleitt er í Evrópu árlega, eða um 25 milljónir tonna, verður að úrgangi – að langmestu leyti umbúðaúrgangi. Þar af fer um fjórðungur í endurvinnslu, en þriðjungur er brenndur í sorpbrennslustöðvum þar sem brennsluvarminn er nýttur til að framleiða rafmagn og hita. Afgangurinn, um 42%, fer í urðun. Plast sem er urðað brotnar seint eða aldrei niður. Hættuleg innihaldsefni úr plastinu geta hins vegar komist í sigvatn urðunarstaða og þaðan í grunnvatn eða sjó. Plastendurvinnsla er ýmsum vandkvæðum háð. Um er að ræða mismunandi plastgerðir (flokkarnir 7) og mismunandi samsetningu og íblöndunarefni. Auk þess getur plastið innihaldið ýmis óhreinindi að notkun lokinni (t.d. matarleifar). Flokkun plasts til endurvinnslu er því óhagkvæm og oft illframkvæmanleg, auk þess sem hreinleiki plastsins og mismunandi íblöndunarefni gera endurvinnslu plasts, jafnvel innan sama flokks, nánast ómögulega. Plastpokar og plastfilmur geta flækst í endurvinnslubúnaði og jafnvel skemmt hann. Þá brotna plastefni niður í hvert skipti plastið er endurnotað og eða endurnýtt, sem þýðir að almennt er aðeins hægt að endurnýta það örsjaldan (ólíkt t.d. málmum sem mögulegt er að endurvinna aftur og aftur).
Á mynd 4.7 er eingöngu sýnt það hlutfall úrgangs sem fær viðurkennda meðhöndlun. Ljóst er að hluti þess plasts sem er framleitt og notað hér á landi og annars staðar í Evrópu fýkur út í veður og vind og lendir í sjónum, rétt eins og annars staðar í heiminum. Af afrakstri hjá plokkurum landsins má sjá að um umtalsvert magn er að ræða. Í okkar heimshluta eru gerðar meiri kröfur til framleiðenda, plastnotenda og úrgangsaðila en víðast annars staðar og því er ástandið hér betra en í sumum öðrum heimshlutum. Víða í Asíu og Afríku er meðhöndlun úrgangs t.d. mjög bágborin og í mörgum löndum í þessum heimsálfum eru ár og lækir notaðir til að losa sig við úrgang. Á þessum slóðum er mengun af völdum plasts enn víðtækara og erfiðari viðfangs en í Evrópu.