4.3 Plastúrgangur

Á hverju ári eru framleidd  meira en 300 milljón tonn af plasti í heiminum. Í Evrópu eru framleidd um 50 milljón tonn af plasti árlega og er stærsti hluti plastframleiðslunnar alls konar umbúðir (mynd 4.7). Um það bil þriðjungur af öllu plasti í Evrópu er einnota. Nærri helmingur af því plasti sem framleitt er í Evrópu árlega, eða um 25 milljónir tonna, verður að úrgangi – að langmestu leyti umbúðaúrgangi. Þar af fer um fjórðungur í endurvinnslu, en þriðjungur er brenndur í sorpbrennslustöðvum þar sem brennsluvarminn er nýttur til að framleiða rafmagn og hita. Afgangurinn, um 42%, fer í urðun. Plast sem er urðað brotnar seint eða aldrei niður. Hættuleg innihaldsefni úr plastinu geta hins vegar komist í sigvatn urðunarstaða og þaðan í grunnvatn eða sjó.

Mynd 4.7. Framleiðsla á plasti og plastúrgangur í Evrópu eftir notkunarflokkum. Meðhöndlun plastúrgangs.

Á mynd 4.7 er eingöngu sýnt það hlutfall úrgangs sem fær viðurkennda meðhöndlun. Ljóst er að hluti þess plasts sem er framleitt og notað í Evrópu fýkur út í veður og vind og lendir í sjónum, rétt eins og annars staðar í heiminum. Í okkar heimshluta eru gerðar meiri kröfur til framleiðenda, plastnotenda og úrgangsaðila en víðast annars staðar og því er ástandið hér betra en í sumum öðrum heimshlutum. Víða í Asíu og Afríku er meðhöndlun úrgangs t.d. mjög bágborin og í mörgum löndum í þessum heimsálfum eru ár og lækir notaðir til að losa sig við úrgang. Á þessum slóðum er mengun af völdum plasts enn víðtækara og erfiðari viðfangs en í Evrópu.

Mynd 4.8. Úrgangur – þar af stór hluti plast – sem skolað hefur á strönd (vinstra megin). Áin Citarum í Jakarta í Indónesíu er ein mengaðasta á í heimi (hægra megin).