Norðurslóðir eru með minnst menguðu svæðum veraldar enda umsvif manna á svæðinu takmörkuð. Sérstakar landfræðilegar, veðurfarslegar og líffræðilegar aðstæður valda því þó að viss mengunarefni (sér í lagi kvikasilfur og þrávirk lífræn efni) safnast fyrir á norðurslóðum (sjá mynd 5.8 í kafla 5.4). Því eru sumir hópar íbúa norðurslóða líklegri til að vera útsettir fyrir ákveðnum mengunarefnum en fólk annars staðar í heiminum, einkum frumbyggjar sem reiða sig á veiðar villtra dýra til matar. Sum mengunarefnanna hafa jafnvel borist um langan veg með loft- og hafstraumum og safnast fyrir í dýrum sem nýtt eru til manneldis á svæðinu, sér í lagi dýrum sem eru ofarlega í fæðukeðjunni eins og selir og hvalir. Uppruna annarra mengunarefna má rekja til athafna á svæðinu. Ýmis mengunarefni eru þaulsetin í umhverfi norðurslóða vegna kulda og lítillar líffræðilegrar virkni.
Þrávirk lífræn efni (s.s. PCB, díoxín og PFAS, sjá nánari umfjöllun í kafla 5.4), oft kölluð POP-efni (e. Persistent Organic Pollutants) brotna mjög hægt niður í umhverfinu og eru hættuleg heilsu. Þau safnast fyrir í fituvef, mjólk og blóði lífvera og valda þeim skaða. Efnin eru hormónaraskandi og hafa áhrif á frjósemi og á ónæmiskerfið. Þrávirk lífærn efni og þungmálmar (sjá nánar í kafla 5.3), sérstaklega kvikasilfur, geta safnast fyrir í rándýrum efst í fæðukeðjunni á norðurslóðum.
Gerðir hafa verið alþjóðlegir samningar til að draga úr mengun vegna þrávirkra lífrænna efna og þungmálma, s.s. Stokkhólmssamningurinn um þrávirk lífræn efni sem tók gildi árið 2004 og Minamatasamningurinn um kvikasilfur sem tók gildi árið 2017. Árið 1998 voru gerðar bókanir við Samning um loftmengun sem berst langar leiðir milli landa, (Convention on Long-range Transboundary Air Pollution (LRTAP)), annars vegar bókun um þrávirk lífræn efni og hins vegar um þungmálma, einnig með það markmið að draga úr mengun vegna þessara efna. Auk þess höfðu einstök ríki þegar bannað ákveðin POP-efni í löggjöf sinni. Þannig var framleiðsla og notkun PCB t.a.m. bönnuð í Bandaríkjunum árið 1979, árið 1983 í Þýskalandi og árið 1988 á Íslandi. Samningurinn um loftmengun sem berst langar leiðir milli landa (LRTAP-samningurinn) er svæðisbundinn samningur sem gildir fyrir ríki Evrópu og Norður-Ameríku. Í Evrópu hefur dregið talsvert úr losun þeirra þungmálma og þrávirku lífrænna efna sem þessir samningar og bókanir taka til, sbr. mynd 9.8. Sambærilegur samdráttur hefur einnig átt sér stað í Norður-Ameríku.
Þrávirk lífræn efni
Markmið Stokkhólmssamningsins um þrávirk lífræn efni er að vernda heilsu manna og umhverfið gegn áhrifum þessara efna. Samningurinn tekur til fjölmargra þrávirkra lífrænna efna og er þeim skipt í þrjá flokka:
- Efni sem hætta skal framleiðslu og notkun á (s.s. aldrín, klórdan, HCB, toxafen og lindan).
- Efni sem takmarka skal framleiðslu og notkun á (DDT og PFOS).
- Efni sem verða til án ásetnings (s.s. HCB, díoxín og PCB). Grípa skal til aðgerða til að takmarka losun þeirra.
Upphaflega tók samningurinn til 12 þrávirkra lífrænna efna, en fleiri efnum hefur verið bætt við með tímanum. Sum þeirra efna sem samningurinn tekur til eru nefnd arfleifðar-POP (e. Legacy POPs) þar sem mengun vegna þessara efna í umhverfinu er arfleifð notkunar fyrri tíðar. Ýmis þrávirk lífræn efni, sem geta flust og safnast fyrir á norðurslóðum og alþjóðlegir samningar ná ekki yfir, eru enn notuð m.a. sem eldvarnarefni og plágueyðar.
Á síðustu árum og áratugum hefur dregið úr styrk sumra mengunarefna á norðurslóðum, s.s. ýmissa þrávirkra lífrænna efna og þá sér í lagi þeirra sem alþjóðlegir samningar ná til, s.s. DDT og PCB. Á síðustu áratugum 20. aldar dró verulega úr mengun af völdum POP-efna sem hafa nú verið bönnuð í meira en 30 ár á Vesturlöndum (s.s. DDT, aldrín, klórdan og PCB) en samdrátturinn hefur verið minni það sem af er 21. öldinni. Það bendir til þess að flutningur þessara efna til norðurslóða hafi farið minnkandi. Styrkur PCB er þó enn hár á vissum svæðum á norðurslóðum. Loftslagsbreytingar hafa nú þegar haft áhrif á hegðun sumra mengunarefna, m.a. vegna losunar mengunarefna sem bundin voru í sífrera, hafís og jöklum. Aukinn styrkur HCB og PCB í andrúmslofti sums staðar á svæðinu hefur verið rakinn til aukinnar losunar frá opnu hafi í kjölfar bráðnunar hafíss sem og vegna bráðnunar jökla og sífrera.
Þungmálmar – kvikasilfur
Kvikasilfur er sá málmur sem veldur langmestum áhyggjum á norðurslóðum. Kvikasilfur er rokgjarnt efni og hegðar sér öðruvísi en aðrir málmar. Efnið berst í meira mæli til norðurslóða en aðrir málmar (á svipaðan hátt og þrávirk lífræn efni, sjá mynd 5.8 í kafla 5.4). Loftslagsbreytingar í nútíð og framtíð hafa og munu hafa áhrif á flutning og afdrif kvikasilfurs á norðurslóðum. Minamatasamningnum um kvikasilfur er ætlað að vernda heilsu manna og umhverfið gegn áhrifum kvikasilfurs og draga úr losun kvikasilfurs af mannavöldum. Magn kvikasilfurs í blóði íbúa í norðurslóðahluta Svíþjóðar og Noregs hefur minnkað á síðustu árum og áratugum og er orðið sambærilegt við magn í blóði annarra íbúa þessara landa. Magn kvikasilfurs er hins vegar enn hátt í blóði íbúa á nokkrum landssvæðum í Grænlandi og Kanada.
Áhrif kvikasilfurs á lífríki norðurslóða eru sérlega mikil hjá þeim dýrategundum sem þegar eru undir álagi vegna annarra þátta. Magn kvikasilfurs hefur aukist í ýmsum tegundum dýra á stórum svæðum á norðurslóðum, þrátt fyrir að dregið hafi úr losun þess sums staðar í heiminum, þá aðallega á Vesturlöndum. Magn kvikasilfurs í sjávardýrum í efri hluta fæðukeðjunnar (mjaldrar, selir, ísbirnir, ránfuglar) hefur aukist síðustu 150 ár og er meðalaukningin um 1-4% á ári. Aukningin er minnst í Norður-Evrópu. Þar hefur magnið farið heldur minnkandi síðustu ár, sem væntanlega má rekja til minnkandi losunar á svæðinu. Magn kvikasilfur í sumum dýrategundum í Kanada og Vestur-Grænlandi er hátt, þrátt fyrir minnkandi losun í Norður-Ameríku. Dýr á norðurslóðum, sér í lagi þau dýr sem eru efst í fæðukeðjunni, innbyrða kvikasilfur með fæðunni. Sumar dýrategundir á norðurslóðum, s.s. tannhvalir, ísbirnir og sjófuglar, eru svo mengaðar af kvikasilfri að talið er að þau verði fyrir eitrunaráhrifum.
Loftslagsbreytingar auka líkur á að kvikasilfur, sem sest hefur á yfirborð, verði aftur loftborið sem þýðir að það getur borist til norðurslóða með loftstraumum. Þá gætu hlýrri og lengri íslaus tímabil aukið myndun metýlkvikasilfurs, sem er eitt eitraðasta form efnisins. Á sama tíma gæti bráðnun íss minnkað kvikasilfursmagnið í sjónum, þar sem flatarmál sjávaryfirborðs myndi aukast og þar með gæti meira kvikasilfur gufað upp. Mikið magn kvikasilfurs hefur síðustu árþúsund – þ.á m. vegna nýlegrar losunar af mannavöldum – safnast fyrir í sífrera, jarðvegi, seti og jöklum. Hluti þess gæti vegna loftslagsbreytinga komist að nýju út í umhverfið og valdið skaða.
Sumir íbúar norðurslóða innbyrða talsvert magn kvikasilfurs, einkum íbúar í samfélögum frumbyggja þar sem mataræði byggist á ákveðnum tegundum af ferskvatnsfiski og sjávarspendýrum. Gefnar hafa verið út leiðbeiningar til fólks varðandi mataræði, en við gerð slíkra leiðbeininga þarf að vega og meta áhættu og gagnsemi hefðbundins mataræðis. Auk þess þarf að hafa í huga að mataræðið hefur menningarlegt gildi.
Geislavirk efni
Almennt er mengun vegna geislavirkra efna (fjallað er nánar um geislavirkni í kafla 6) lítil á norðurslóðum. Ennfremur hefur dregið úr áhættu vegna geislavirkra efna sem losuð voru út í umhverfið á árum áður og bárust til norðurslóða, s.s. vegna slysa og kjarnorkutilrauna, þar sem geislavirkt niðurbrot þeirra er komið vel á veg. Lífríki norðurslóða er hins vegar berskjaldað (varnarlaust) gagnvart geislavirkum efnum sem flytjast um langan veg með haf- og loftstraumum. Uppsprettur þessara efna eru kjarnorkuendurvinnslustöðvar, kjarnorkutilraunir og -slys, svo og röng meðferð geislavirks úrgangs, þ.á m. varp í hafið. Niðurrif kjarnorkuvera í Evrópu gæti leitt til tímabundinnar aukningar á losun geislavirkra efna og þessi efni gætu hugsanlega borist til norðurslóða með haf- og loftstraumum. Þá er gert ráð fyrir uppsetningu nýrra kjarnorkuvera sem staðsett eru þannig að ef slys ættu sér stað gætu norðurslóðir orðið fyrir áhrifum. Einnig hafa starfsleyfi eldri kjarnorkuvera verið framlengd og hættu á slysum þannig viðhaldið.
Nokkuð magn geislavirkra efna er að finna á norðlægum slóðum vegna geislavirks úrgangs sem Rússar hafa losað sig við á svæðinu, svo og vegna ófullnægjandi niðurrifs kjarnorkubúnaðar og óviðunandi geymslu kjarnorkuúrgangs. Geislavirk efni í Rússlandi skapa sérstaka áhættu fyrir svæðið. Verið er að huga að ýmsum áhættuþáttum þar, s.s. kjarnorkuúrgangi sem ekki hefur verið rétt komið fyrir, vinnubrögðum við að taka sundur rússneska kjarnorkukafbáta og við að meðhöndla notaða eldsneytið, sem og hvernig verður staðið að hreinsun tímabundinna geymslustaða fyrir geislavirkan úrgang í Gremhika og Andreeva-flóa, með það að markmiði að draga úr áhættu.
Áhrif loftslagsbreytinga og kokteiláhrif
Loftslagsbreytingar hafa aukið útsetningu og uppsöfnun þrávirkra lífrænna efna og kvikasilfurs í lífríkinu og þar með aukið áhættuna fyrir vistkerfi sjávar og dregið úr öryggi sjávarafurða. Einkum er áhættan mikil fyrir dýr efst í fæðukeðjunni og þau samfélög sem nærast á viðkomandi dýrategundum. Áhrif loftslagsbreytinga á fæðukeðju norðurslóða geta stuðlað að hækkandi styrk mengunarefna í mönnum og dýrum. Líklegt er að þær tegundir sem tapa líkamsþyngd yfir vetrartímann séu berskjaldaðri en aðrar fyrir eituráhrifum mengunarefna, þar sem efnin setjast einkum í fituvefi og losna þaðan þegar fitan minnkar. Hafa þarf í huga að samfélög norðurslóða verða fyrir mengun vegna margvíslegra efna, breytilegt eftir staðsetningu og mataræði. Heilsuverndarmörk eru sett fyrir hvert mengunarefni fyrir sig en taka ekki tillit til kokteiláhrifa, þ.e. samanlagðra og samverkandi áhrifa þar sem fleiri efni koma við sögu samtímis. Þekking á slíkum áhrifum er í reynd enn mjög takmörkuð.
Förgun búnaðar og vara
Mikilvægt er að huga að förgun búnaðar og vöru sem inniheldur hættuleg efni. Spennar sem gætu innihaldið PCB eru t.d. enn í notkun í Rússlandi og Kína. Þá gæti kvikasilfur í flúrperum og eldvarnarefni, s.s. PBDE í rafbúnaði, einangrunarefnum og farartækjum, valdið verulegri mengun á norðurslóðum í framtíðinni.