Plastið sem lendir í sjónum hefur alls kyns óæskileg áhrif á lífríkið. Sá hluti plastsins sem sekkur til botns getur kæft botngróður og sá hluti sem flýtur um við yfirborð eða undir yfirborði getur skyggt á sólarljósið og þar með haft áhrif á plöntur, þörunga og dýr sem nýta ljósið til vaxtar og viðhalds. Sjávardýr geta flækst í plasthlutum. Slíkt getur sært dýrin, skert hreyfigetuna verulega og jafnvel dregið þau til dauða beint (kyrkt þau) eða óbeint.
Dýrin geta líka innbyrt plastið. Árið 2016 synti gáshnallur, sem er allstór tannhvalur, ítrekað á land í Noregi. Að lokum drapst hann. Þegar hann var krufinn kom í ljós að hann hafði gleypt 30 plastpoka. Í búrhvölum sem syntu á land í Þýskalandi árið 2016 fundust 13 metra langt net, mótorhlíf úr bíl, fötur og alls kyns annað rusl. Í maga sjávardýra á borð við fugla, fiska og skjaldbökur hafa m.a. fundist kveikjarar, plasttappar og plastbrot. Plast finnst í maga 95% evrópskra fýla; að meðaltali 31 hlutur sem vega samtals um 300 mg. Plast finnst í maga 80% íslenskra fýla; að meðaltali 150 mg. Dýr geta kafnað við að gleypa stóra plasthluti. Plast getur einnig stíflað eða fyllt meltingarveginn þannig að dýrunum finnist þau alltaf vera södd. Þannig geta dýrin dáið úr næringarskorti. Smærra plast og oddhvassir plasthlutir geta valdið særindum og skaða í meltingarvegi dýranna. Þegar plast (þar á meðal örplast) er komið í dýrin á það líka greiða leið inn í fæðukeðjuna og getur borið með sér skaðleg efni sem enda þá hugsanlega í matvælum til manneldis.
Ævisaga skjaldbökunnar Mae West
Árið 2000 fannst skjaldbaka í framræsluskurði í New Orleans í Bandaríkjunum. Sem ungi hafði hún fyrir slysni gengið inn í plasthring af mjólkurflösku og hringurinn fest sig við skelina. Þegar skjaldbakan stækkaði gat hún ekki brotið af sér þetta plastbelti sem var fast um mittið á henni. Plasthringurinn hamlaði vexti skeljarinnar. Skelin er því varanlega afmynduð og lætur skjaldbökuna líta út fyrir að vera með ofurmjótt mitti. Hún fékk því nafnið Mae West í höfuðið á bandarískri leikkonu (f. 17.8.1893, d. 22.11.1980) sem fræg var fyrir sitt mjóa mitti. Seinast þegar spurðist til skjaldbökunnar bjó hún á STAR Eco Station, dýrasafni í Los Angeles í Bandaríkjunum, þar sem hún var til sýnis fyrir gesti og gangandi þannig að fólk átti sig á hættunni sem fylgir plasti í umhverfi okkar.