Eins og kom fram hér að framan er íslenska hafsvæðið frjósamt. Grundvöllur þessarar frjósemi er mikil framleiðni svifþörunga við landið sem rekja má til framboðs næringarefna í yfirborðslögum sjávar. Svifþörungarnir (líka kallaðir plöntusvif) eru svo étnir af dýrasvifi t.d. rauðátu, sem er mikilvæg fæða margra fiskitegunda, t.d. loðnu. Loðnan er mikilvæg fæða fyrir þorskinn. Ýmis stærri dýr og spendýr, þar á meðal maðurinn, éta svo þorskinn eins og kunnugt er. Þetta er það sem er oft kallað fæðukeðja (mynd 1.5). Fæðukeðju lífríkisins má skipta í fjóra hluta: sólina sem er uppspretta orku lífríkisins, frumframleiðendur, neytendur og sundrendur.
Reyndar er réttara að tala um fæðuvef en fæðukeðju, þar sem oft er um mjög flókin fæðutengsl að ræða. Grunnurinn í fæðuvef hafsins eru sumsé sviflægir þörungar. Þeir, líkt og plöntur þurrlendis, fanga orku sólarinnar með ljóstillífun til þess að framleiða lífræn efni úr ólífrænum efnum, það er efnum eins og vatni, koldíoxíði, fosfórsamböndum og nítrati. Dýrasvif eru smádýr í efstu lögum sjávar sem lifa innan um svifþörungana. Dýrasvifið étur plöntusvifið, sem sagt nýtir sér plöntusvifið til vaxtar og viðhalds. Í þessum fjölbreytilega flokki eru afar mikilvægir hópar dýra frá vistfræðilegu sjónarmiði, t.d. rauðáta og aðrar árfætlur sem eru mikilvæg fæða ýmissa fisklirfa og því í lykilhlutverki í vexti og viðgangi helstu nytjastofna okkar. Önnur dýr sem lifa á þessum smásæju krabbadýrum eru uppsjávarhryggleysingjar eins og pílormar og ljósátur en ljósátur eru mikilvæg fæða fyrir stærstu núlifandi dýr heims, reyðarhvali, en einnig ungfisk af ýmsum tegundum. Rauðátan er hins vegar langmikilvægasta svifdýrið í hafinu við Ísland en fjöldi smávaxinna dýra byggir tilvist sína beint á rauðátunni. Þetta á m.a. við um fiska á lirfu- og seiðastigi auk ýmissa smærri rándýra sem lifa í efstu lögum sjávar. Rauðátan er því mikilvæg fyrir vöxt og viðgang helstu fiskistofna hér við land, til að mynda þorsks og ýsu, og er því mikilvæg fyrir sjávarútveg og efnahag landsmanna. Út frá vistfræðinni má segja að rauðátan sé tengiliður á milli frumframleiðslu svifþörunganna og dýra sem eru ofar í fæðukeðjunni.
Einn liður í fæðuvef hafsins er botndýralífið. Milljónir tonna af lífrænum leifum falla árlega til botns og eru leifarnar grunnur að fjölbreytilegu dýralífi botnlægra lífvera. Á botninum lifa ótal tegundir sem nýta sér beint eða óbeint lífrænar leifar úr efri lögum sjávar. Þetta eru allt frá bakteríum til fjölda tegunda sjávarhryggleysingja og má þar nefna þráðorma, krabbadýr, rækjur og samlokur. Auk þeirra lifir mikill fjöldi fiska hrælífi í og við botninn. Þar má helst nefna ýsu og fjölda tegunda flatfiska, til dæmis sandhverfu og skarkola en einnig steinbít. Bakteríur brjóta niður dauðar lífverur og lífrænar leifar og við það leysast mikilvæg efni eins og fosfór og köfnunarefni aftur út í umhverfið. Efnin berast síðan aftur til yfirborðslaga sjávar og nýtast að nýju við frumframleiðslu.