Olía ratar upp á yfirborð jarðar á nokkrum stöðum í heiminum. Á sögulegum tíma hefur olía sem flaut upp á yfirborðið oft verið nýtt á einhvern hátt. Enginn veit hvenær maðurinn rakst fyrst á olíu, en líklegt er að það hafi gerst fyrir alla vega 3000 árum. Í Persaveldi töldu menn hvininn í náttúrugasi sem slapp út í umhverfið vera samræður guðlegra vera. Menn virðast hafa nýtt olíu víðast þar sem þeir rákust á hana. Fyrir þúsundum ára voru Kínverjar með lagnakerfi fyrir olíu, gert úr bambusviði. Á miðöldum var olía notuð til að gera eldvörpur. Olíu var sleppt í sjóinn og kveikt í til að brenna óvinaskip á sjó. Fólk fór í olíuböð og drakk hana jafnvel heilsunnar vegna – við vitum þó í dag að hráolía er engin hollustuvara.
Skortur á búrhvölum vegna ofveiði á 19. öld hrinti svo olíuöldinni af stað. Verð á hvalalýsi sem nýtt hafði verið til lýsingar rauk upp og á svipuðum tíma fundu menn leið til að eima steinolíu úr hráolíu. Þar með skapaðist markaður fyrir steinolíu til lýsingar. Þegar Thomas Alva Edison fann svo upp ljósaperuna árið 1879 hvarf markaðurinn fyrir steinolíu til lýsingar mjög hratt. Þá voru góð ráð dýr. Finna þurfti annan tilgang fyrir olíuna. Og hann fannst fljótt þegar Karl Benz fór að nota úrgangsefni úr olíuvinnslu – bensín – til að knýja bílvélar. Upp úr 1920 var farið að fjöldaframleiða bíla og eftir seinni heimstyrjöld jókst svo olíuframleiðsla og nýtingarmöguleikar olíu og olíuafurða gríðarlega. Nýting olíu í samgöngum og orkuframleiðslu er augljós, en einnig var farið að nýta olíuafurðir í alls kyns aðra framleiðslu s.s. efnaframleiðslu, plastframleiðslu, lyfjaframleiðslu og margt fleira.
Helsti kostur olíu er orkuþéttleikinn. Fyrir það magn sem kemst fyrir í einum bolla er hægt að keyra sparneytinn bíl nokkra kílómetra. Þar sem olían er fljótandi er auðvelt að flytja hana á milli staða. Hún er því mjög hentug. Svo er ábatasamt að dæla olíu upp, því orkan sem fæst með því að brenna hana er svo miklu meiri en orkan sem fer í að dæla henni upp. Ókostir olíu eru hins vegar mengunin sem hún veldur, bæði við vinnslu, flutninga og notkun. Auk þess mætti nýtni olíu í brennsluvél vera betri, en hún er aðeins 33-50%. Með nýtni er hér átt við það hlutfall orkunnar í olíunni sem nýtist í þá vinnu sem vélinni er ætlað að framkvæma.