Mest af olíu heimsins er svokölluð hefðbundin olía (e. conventional oil) eða hráolía sem finnst neðanjarðar og á landgrunni. Hægt er að nota hefðbundnar olíuvinnsluaðferðir, þ.e. aðferðir sem notaðar hafa verið lengi og mikil reynsla er komin á, til að vinna hefðbundna olíu. Vegna gríðarlegrar olíunotkunar – og til að Vesturlönd geti verið óháðari Mið-Austurlöndum varðandi orkuöryggi – er „óhefðbundin“ olía nú einnig unnin, en það er t.d. olía úr tjörusöndum í Kanada, olía úr leirsteinslögum (unnin með bergbroti (e. fracking)), sérlega þung olía í Venesúela, olía sem er að finna á miklu dýpi neðansjávar og olía á norðurslóðum. Vinnslukostnaður olíulinda er æði misjafn. Eðli málsins samkvæmt hafa menn alla jafna fyrst fundið og tekið til vinnslu þær olíulindir sem eru nærtækastar, aðgengilegastar og um leið yfirleitt ódýrastar í vinnslu. Mynd 2.4. sýnir framleiðslukostnað og magn helstu olíulinda í heiminum. Ódýrast er að vinna olíu í Mið-Austurlöndum. Mun dýrara er að vinna olíu á miklu dýpi úti á sjó, sem og úr tjörusandi og úr leirsteinslögum. Dýrast er að vinna olíu á Norðurheimsskautssvæðinu.
Vinnslukostnaður óhefðbundinnar olíu er ekki bara hærri en hefðbundinnar olíu – umhverfisáhrifin eru líka meiri og áhættan við vinnsluna einnig. Skemmst er að minnast olíuslyssins í Mexíkóflóa árið 2010, þegar borhola olíufélagsins BP varð stjórnlaus í næstum 3 mánuði eftir sprengingu á olíuborpalli sem boraði eftir olíu á miklu dýpi (sjá kafla 2.9).
Djúpvatn (e. produced water) kemur upp með olíu þegar borað er eftir henni. Djúpvatnið er aðskilið frá olíunni eftir að henni er dælt upp. Djúpvatnið inniheldur nokkurt magn olíuefna og þungmálma á borð við kvikasilfur, blý, kadmíum og arsen (kafli 5.3. fjallar um mengun af völdum þungmálma). Þar að auki getur djúpvatnið innihaldið lággeislavirk efni úr berggrunni, einkum radíum. Djúpvatnið er meðhöndlað til að lágmarka umhverfisáhrif en er svo losað í sjó þegar vinnsla fer fram þar.