Merkúr, sú reikistjarna sem er næst sólinni, hefur nánast engan lofthjúp. Næstar koma reikistjörnurnar Venus, Jörðin og Mars. Þær lofttegundir (aðallega vetni, helíum og metan) sem voru til staðar þegar stjörnurnar mynduðust hafa allar horfið út í geiminn. Lofthjúpurinn sem nú umkringir þessar reikistjörnur samanstendur annars vegar af lofttegundum og agnaúða úr iðrum stjarnanna (t.d. frá eldgosum) og hins vegar af lofttegundum og agnaúða frá efnahvörfum fyrrnefndu lofttegundanna. Lífefnafræðilegir ferlar (og þá sérstaklega ljóstillífun) hafa líka haft mikil áhrif á samsetningu lofthjúps jarðar.
Lofthjúpur jarðarinnar er í raun þunnt lag lofttegunda sem umlykur hnöttinn, reyndar mjög þunnt miðað við stærð jarðarinnar. Þykkt lofthjúpsins er þannig ekki nema um 100 km eða 0,15% af þvermáli jarðar. Þetta þunna lag, með sína einstöku efnasamsetningu, er þó gríðarlega mikilvægt. Lofthjúpurinn ver okkur gegn hættulegri geislun frá sólinni og heldur hitastigi á jörðinni í jafnvægi. Lofttegundir á borð við súrefni og koldíoxíð styðja við þá ferla sem allt líf byggist á. Í töflu 3.1 má sjá hlutfallslegt magn algengustu lofttegundanna í lofthjúpnum í þurru lofti. Hlutfall vatnsgufu í lofthjúpnum sveiflast frá um 0,5-3,5% og er breytilegt í tíma og rúmi. Að meðaltali er hlutfall vatnsgufu 1% við yfirborð jarðar en 0,4% að meðaltali í öllum lofthjúpnum. Þegar magn lofttegunda er mjög lítið er það oft gefið upp í milljónustuhlutum eða ppm (e. parts per million). Magn koldíoxíðs er t.d. um 0,04% sem samsvarar 400 ppm.
Tafla 3.1. Hlutfall lofttegunda í lofthjúpnum miðað við rúmmál af þurru lofti.Lofttegund | Hlutfall |
---|---|
Köfnunarefni (N2) | 78,10% |
Súrefni (O2) | 20,93% |
Argon (Ar) | 0,93% |
Koldíoxíð (CO2) | 0,04% |
Neon (Ne) | 18 ppm |
Helíum (He) | 5 ppm |
Metan (CH4) | 1,8 ppm |
Vetni (H2) | 0,5 ppm |
Glaðloft (N2O) | 0,3 ppm |